Jólahald var með hefðbundnum hætti í Windhoek
26.12.2008 | 19:58
Jólahald var með hefðbundnum hætti í Windhoek, amk. á okkar heimili. Jólatréð kom vel út þegar allir pakkarnir voru komnir undir hann en gestirnir komu hlaðnir góðum gjöfum frá ættingjunum á Íslandi. Glugginn var skreyttur með hvítu spreyi til að koma smá snjóstemningu inn á heimilið, en það er kannski dálítið erfitt með pálmatré í bakgrunninum.
Aðfangadagur var góður, Halli var að leika með vini sínum og fór í bíó, litlu drengirnir sváfu vært eftir hádegi til að safna kröftum fyrir kvöldið. Við Davíð fórum í eftirmiðdagsdrykk til kunningja okkar (eplacider og namibískur bjór undir stráþaki) á meðan Halli svamlaði um í lauginni þeirra með vini sínum. Ég held að Halli hafi sagt að þetta væri einmitt "perfekt" aðfangadagur!
Hér er öndin komin á matborðið og Erla og Bjarni tilbúin að hefja borðhald.
Við mæðginin að sporðrenna öndinni. Það er alveg frábært að geta borðað svona úti undir beru lofti í yndislegu umhverfi.
Drengirnir og jólatréð hvíta (n.b. að einhver hafði tekið það úr sambandi kvöldið áður þannig að það var í talsverðu stuði).
Eftir borðhald las Bjarni jólaguðspjallið fyrir okkur hin. Eftir lesturinn var hátíðleg þögn sem Stefán rauf með því að segja: Nú, auðvitað!
Stefán fékk vélmenni frá foreldrunum, ég er í bakgrunni með þennan fína safaríhatt að setja saman bílabraut sem Óskar fékk frá langömmu sinni.
Óskar fór í föt sem hann fékk frá ömmu Möggu og stillti einnig upp legói frá afa Bjarna og Erlu. Það voru allir komnir í nýjar múnderingar þegar leið á kvöldið. Það tók marga tíma að taka upp pakkana og við tókum pásu um mitt kvöld til að fara út og fá okkur heimatilbúna ísinn.
Þegar ég sagði Óskari að jólin væru alveg að koma og að hann þyrfti því að koma í fínni fötin, þá hljóp hann út að glugga til að vera viss um að sjá þegar jólin sjálf kæmu til okkar. Svo þegar jólin voru komin, þá var hann hálf skrýtinn og hélt að ég væri að reyna að plata hann því að hann hafði staðið góða vakt við gluggann. Hann varð svo bara sáttur og um kvöldið sofnaði hann með plastgrís í fanginu sem var sparibaukur sem Rósa systir og fjölskylda höfðu gefið honum. Það er gott að setja sparnað í öndvegi á þessum krepputímum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jólaundirbúningur..
23.12.2008 | 15:07
Ekki er seinna vænna að birta fréttir af jólaundirbúningi. Við fórum út að borða niðri í bæ í hádeginu og Dabbi sér svo um sjávarrétti í kvöld. Ég er að gera jólaísinn, sem að þessu sinni er með kirsuberjum. Jarðarberin eru horfin úr verslunum og kirsuberjauppskeran er komin svo það er alveg tilvalið að prófa eitthvað nýtt.
Kunnugir fullyrtu að borgin ætti að vera nánat mannlaus yfir jólatímann, en hér er allt fullt af fólki í verslunum og á veitingastöðum.
Við fórum fyrir nokkru og fjárfestum í hvítu jólagervitré sem nú stendur í stofunni.
Hér er Davíð með Óskari í byrjun jólaverslunarferðarinnar. Sést hvað Óskar er spenntur, og Davíð enn ekki farinn á taugum.
Stefán situr glaður og hress í innkaupakerru.
Og Óskar enn að hressast.
Allir komu heilir undan innkaupaferð, og við fórum heim með þetta fína, hvíta tré í farteskinu.
Það var gaman að fá jólin inn í húsið, hér er Halli byrjaður að skreyta tréð.
Stefán lagði líka lið við það verkefni.
Svo tók nú tímana tvo að finna seríu sem passaði við tréð, því að við þurftum með hvítum snúrum. Eftir mikla leit kom Davíð með eina Osram seríu heim sem var með marglitum, blikkandi ljósum, og við þurftum að sætta okkur við. Stofan var eins og diskótek frá áttunda áratugnum og við foreldrarnir við það að fá flogakast, en drengirnir ákaflega hrifnir.
Svo reyndist þetta vera hin besta sería því að hún er mjög vitræn og róast þeim mun lengur sem hún er í sambandi. Eftir svosem þrjá daga skartar hún bláum, róandi ljós. Nú er bara að sjá hvort að við getum tryggt að enginn fari að fikta við það að taka hana úr sambandi fyrir jól, annars höldum við upp á diskójól annað kvöld.
Hér eru svo bræðurnir með félaga sínum, honum Rúnari Atla við tréð.
Svo bíðum við bara spennt eftir jólunum. Aðfangadagur verður með aðeins öðru sniði, Davíð fer í ræktina og ég fer að taka viðtal við doktor í stjórnmálafræði fyrir ritgerðina mína. Sá á matsfyrirtæki í þróunargeiranum og ég gat náð af honum núna eða ekki fyrr en í apríl þar sem hann er þeysast milli Líberíu og Rúanda að vinna matsverkefni.
Svo hafa jólasveinarnir komist hingað til Namibíu, Óskar fékk reyndar einu sinni kartöflu í skóinn og fór með hana sem mesta dýrindi, og sofnaði með hana í fanginu um kvöldið. Svo ef bróðir hans gerir eitthvað af sér, setur hann sönnunargögn í gluggann hans Stebba til að jólasveinninn sjái örugglega hver er sá óþekki á heimilinu.
Kerti og spil
22.12.2008 | 20:38
Nú er mikið spilað hér á bæ, enda komnir nógu margir í húshaldið fjögurra manna kana og jafnvel einn skiptimaður til. Þetta er því algeng sjón þessa dagana.
Við erum komin til baka úr þriggja daga ferð sem ég segi ykkur frá næstu daga. Svo erum við náttúrulega að undirbúa jólin í hitanum líka. Það er hins vegar lítið um kerti hér því að þau eiga það til að bráðna niður í hitanum.
Jólasnjórinn kominn!
5.12.2008 | 08:39
Þar sem ég snæddi salatið mitt í hádeginu í fyrradag með fjölskyldunni var ég að hugsa hvað loftslagið er nú fullkomið hér. Um 25 stiga hiti og skýjað, svo að það er hvorki of heitt, né of kalt. Akkúrat mátulegt. Þá opnuðust gáttir himins fyrirvaralaust og jólasnjórinn dembdist niður á okkur með offorsi. Það var hagl úr háloftunum, og svo regn í bland.
Hér sjáið þið stærðina á haglinu, þar sem Óskar heldur á einu í hendinni sinni.
Og hér er svo matarborðið okkar, þar sem ég sat svo makindalega með salatið mitt fyrir stundu.
Það brast á með þvílíku óveðri að það var ekki viðlit að vera úti við. Hér eru Halli og Óskar, en í skjóli undir þakskegginu.
Snjórinn entist nú ekki lengi, kannski í 10 mínútur og nú er allt orðið samt aftur, vart skýhnoðri á lofti. Við búumst nú ekki við miklum snjó aftur fyrir jólin, svo að þetta verður væntanlega að duga okkur sem jólasnjórinn þetta árið.
Jólaboð
30.11.2008 | 20:08
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.12.2008 kl. 05:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Árbítur og selbítur
26.11.2008 | 12:26
Á föstudaginn var haldinn international breakfast hjá bekknum þeirra Óskars og Stefáns. Við deildum gestgjafahlutverkinu með einni móðurinni frá Namibíu. Við buðum m.a. upp á graflax með sósu (laxinn var reyndar frá Noregi, en góður samt) og ávaxtasalat sem var eins og broddgöltur, með haus og gadda með fullt af ávöxtum. Nú er uppskera af melónu og það hafa verið svo mikið af ávaxtaflugum á þeim að Suður Afríka hefur ekki viljað taka við melónum frá Namibíu, svo að þær eru allar seldar á heimamarkaði. Ekki verður þverfótað fyrir melónum í búðum, vatnsmelónum er t.d. raðað á gólfin svo að erfitt er að komast um með innkaupakerrurnar.
Hér eru strákarnir að prófa nýjan höfuðbúnað eftir árbítinn.
Það er nóg að gera í félagslífinu, en þegar ég kom fyrst hugðist ég finna mér gott áhugamál og horfði vongóð til þess að læra að fljúga. Hér er ekki ský á himni mánuðum saman, svo ég komst að þeirri niðurstöðu að það myndi henta mér vel að læra að fljúga hér, amk. myndi ég sjá ef ég væri að fara að klessa á. Dabbi tók bara vel í þetta, en gaf nú reyndar ekki mikið út á hvort að hann myndi treysta sér upp í vél með mér. Svo var þessu nú frestað eins og gengur og ég kíkti aðeins út í flugskóla með Jónda þegar hann var hér. Hann taldi mér trú um að það væri bara bull og vitleysa að læra að fljúga hér, allt aðrir staðlar en í Evrópu svo að ég fengi ekki að stíga upp í vél þar. Svo væri maður eiginlega fljótari í ferðum keyrandi heldur en fljúgandi, svo að ég hætti snarlega við. Dabbi var manna fegnastur, enda höfðu átta einkavélar hrapað hér á tveimur mánuðum, svo að tölfræðin var manni nú ekki í hag. Veit ekki nema að viðhaldinu sé ábótavant.
Svo er nú ágætt að ég fór ekki út í að stunda brimbretti. Nú í vikunni voru tveir brimbrettagaurar að stunda íþrótt sína við Cape Cross, og hvað haldið þið, nema að kolvitlaus urta réðst á annan þeirra og var rétt við að murka lífið úr honum þegar félaginn kom honum til hjálpar. Hún réðst á hann líka og þeir náðu við illan leik í land, en hún réðst á þá alveg þangað til að þeir höfðu fast land undir fótum. Það er þekkt að hákarlar ráðast á brimbrettafólk, en ekki selir. Hún beit þá mjög illa í höfuð, hendur og fætur. Beit part af eyra af. Þeir voru nú voða umburðalyndir þegar tekið var viðtal við þá og sögðu að þetta hefði bara verið einn morðóður einstaklingur af fjöldanum, það væri ekki hægt að dæma seli yfirleitt eftir þessu. Svo var verið að álykta að urtan hefði verið utan við sig af skelfingu eftir selaslátrun frá 15 nóvember en þá lauk veiðitímabilinu með blóðbaði. Spurning hvort hægt sé að dæma mannskepnuna eftir þessu?
Ég held mig því við þá öruggu og heilsusamlegu iðju að lyfta lóðum í ræktinni. Þetta er orðið hluti af fjölskyldulífinu en við hjónin förum saman á föstudagseftirmiðdögum og öll fjölskyldan á sunnudögum þar sem Óskar og Stefán eru í barnapössuninni og Halli í þreki með móður sinni. Ræktin getur verið dálítið skrautleg. Hér eru lakkskór mjög vinsælir, enda mjög praktísk kaup þegar maður á bara eitt par. Á tónleikum um daginn var aðalsöngvarinn t.d. klæddur í rapparalegan fatnað og mjög skæsí.... og í lakkskóm. Rósa systir var ekki að komast yfir þetta. Hún ætti að sjá kappana í ræktinni sem hoppa sprækir um í íþróttasokkum og lakkskónum góðu. Mér finnst það mjög heimilislegt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vatn, vatn, vatn
18.11.2008 | 07:26
Ég hef sýnt ykkur myndir úr sveitinni þar sem lífið hjá konum og börnum snýst um vatnsburð og fólk gangandi langar vegalengdir með vatnsdunka og ílát. Hér í borginni er lífið einfaldara. Vatnið er drykkjarhæft úr krönum, en við leggjum reyndar ekki í það með okkar viðkvæmu, íslensku maga. Við fáum því senda heim 5 gallona vatnsdunka fyrir 400 kr. sem við tengjum við kæli.
Á myndunum eru strákarnir léttklæddir að svala þorstanum við dunkinn góða.
Nú er farið að hitna aðeins og hitinn vel yfir 30 stig í herbergjunum þegar við erum að fara í bólið á kvöldin. (Strákarnir eiga þessar forlátu klukkur sem eru með hitamæli) Strákarnir taka þessu nú bara vel, en við eldri kynslóðin og Halli eigum erfiðara með að sofna, en loftkælingin í herberginu okkar er biluð. Við Halli vorum að metast um í hvoru svefnherberginu væri heitara, og Halli var sigri hrósandi í gærkveldi þar sem hann hafði fengið blóðnasir þegar hann var kominn í bólið og kenndi hitanum alfarið um. Þarna var komin beinhörð sönnun um að herbergið hans væri það heitasta í húsinu og það varð fátt um svör hjá mér. Nú bíð ég spennt eftir að viðgerðarmenn komi að kíkja á kælinguna og við höfum þá alltaf þann kost að færa Halla inn til okkar.
Mér finnst reyndar ósköp notalegt að hafa góðan hita. Nú er spáð rigningu og þá mun kólna lítisháttar aftur. Moskótóflugurnar eru komnar aftur og maður er alltaf með bit hér og þar, en ekkert sem hrjáir um of.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tatamm, jólin eru að koma..
11.11.2008 | 10:19
Já, dýrtíðin..
8.11.2008 | 13:19
Ég var að skoða okursíðuna og hryllti mig yfir hvað allt verð er að hækka á Íslandi. Hér tekur maður aðeins eftir því, en verðið er yfirleitt mun þolanlegra hér. Heima er þetta nánast glæpsamlegt. Sem leiðir mig að öðrum punkti.
Davíð fékk fyrir rukkun í heimabankann sem hann kannaðist ekki við, frá innheimtufyrirtækinu Borgun ehf. Kom í ljós að hann hafði tekið lán í Elko fyrir sjónvarpi upp á 300 þús. krónur. Sem hann hafði auðvitað ekki gert því að hann var þegar fluttur til Afríku. Það sem er kannski merkilegast í þessu er að það kom í hlut Dabba að sanna að hann hefði ekki tekið lánið, en ekki fyrirtækjanna að sýna fram á að þau hefðu verið að misnota kennitölu sárasaklaus manns sem bjó erlendis. Pabbi hans Dabba setti ómældar vinnustundir í málið sem og Dabbi héðan frá Namibíu. Pabbi hans Dabba þurfti sumsé að fara til lögreglunnar til að kæra málið. Þá var gaga aflað, og þegar samningurinn var skoðaður kom í ljós að hann var óundirskrifaður (hefði kannski ekki verið eðlilegt í byrjun að kíkja á samninginn, þ.e. af annað hvort Elko eða Borgun, þegar látið var vita af þessu í byrjun??).Eftir langt stapp kom í ljós að einhver hafði gefið kennitöluna hans Dabba upp þegar viðkomandi var að ganga frá lánasamningi og sagðist svo þurfa að skreppa út í bíl að ná í veskið sitt þegar hann átti að framvísa skilríkjum. Samningurinn var hins vegar engu að síður sendur til Borgunar, óundirskrifaður, og sendur í innheimtu um hæl. Þetta eru nú viðskiptahættir til fyrirmyndar, en sýnir kannski ágætlega hversu auðvelt var að fá lán á Íslandi!
Aftur að verðlaginu. Um daginn var 750 ml. flaska af ágætis hvítvíni frá Suður Afríku á tilboði á 150 kr. Hvað kostar svo hálfs líters kók á Íslandi?
Hér er, geri ég ráð fyrir, mikil eftirspurn eftir ódýrasta kjötinu af því að það eru svo margir fátækir. Þetta veldur því að kjöt er nokkuð undarlega verðlagt. Það sem annars staðar er ódýrasta kjötið, eins og súpukjöt, er á 450 kr. kg. Síðan er kjötið sem vanalega er mjög dýrt eins og nauta sirloin og fillet bara á 700 kr. kg. Það er sumsé mjög lítill verðmunur á milli ódýrasta og dýrasta kjötsins. Verð á kjötvöru hefur einnig verið að hækka undanfarið. Leja á kjötsög og vann sér m.a. inn pening með því að saga kjöt og skrokka fyrir fólk. Nú segir hún að kjötið sé orðið svo dýrt að enginn eigi kjöt til að láta saga fyrir sig.
Svo verður nú að taka fram að margar vörur eru afspyrnu dýrar hér, og gefa Íslandi ekkert eftir. Þetta eru munaðarvörur og leikföng, svo eitthvað sé nefnt.
Húsdýragarðurinn
7.11.2008 | 09:49
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)