Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Klifra, klifra kletta
19.1.2010 | 14:50
Það var aldrei að kynntist ekki einhverjum áhugaverðum karlmanni í ræktinni, eftir samviskusamlega mætingu síðustu tvö árin. Magga, sem skoðaði hann, taldi nú ekki heimturnar vera góðar, eftir allan þennan tíma. Þessi var aldinn Þjóðverji, sem var svo elskulegur að bjóða mér með sér í klettaklifur þar sem hann vantaði klifurfélaga.
Við drifum okkur í morgun, á gullfallegan stað sem er í 20 mín. keyrslu suður af borginni. Eftir smá gang af veginum er komið í klettaborg sem er í laginu eins og skeifa. Lóðréttir hamrar úr sandsteini og kvarts, sem eru um 25 metra háir. Þarna er sportklifur stundað, og ég fékk aldeilis að spreyta mig við klifur og aðstoð (hvaðanúheitir á íslensku). Ég hafði áður prófað klifur í c.a. 2ja metra hæð frá jörðu, í Klifurhúsinu. Sá gamli þeyttist um klettaveggina eins og kóngulóarmaður, vendilega studdur af mér á jörðu niðri, en rassinn á mér var nú umtalsvert þyngri í klifrunum. Ég fengi nú seint verðlaun fyrir klifurþokka eða glæsileika. Sá gamli var ótrúlega þolinmóður og ég náði fljótt tökum á þessu. Það hvarflaði reyndar að mér þar sem ég hékk í einhverri undarlegri stellingu þarna í háloftunum, að ég gæti eins hangið utaná einhverri þriggja hæða blokk í Grafarvoginum, með ekkert andsk... grip neins staðar.
Þetta var bráðskemmtileg reynsla, og ég væri til í að klifra öðru hvoru. Tek myndavélina með næst. Ekki eru miklar líkur til að Dabbi skelli sér með, enda með mínus áhuga, svo að hans orð séu notuð. Aðstæður þarna eru hins vegar frábærar og náttúran glæsileg. Eina sem angrar er bavíanaskítur í klettunum, en það er nú bara partur af prógramminu. Nú þarf ég bara að léttast um nokkur kíló og byrja svo hvern dag á því að taka 50 armlyftur á fingrunum. Með aðra hendi í einu, vitanlega.
Halli er með einhverja magakveisu og er heima í dag, en er bara nokkuð hress. Janúar var alltaf þindarlaus pestarmánuður heima á Íslandi, en ekki saknar maður þeirra pesta. Hér fáum við bara moskítóbit í staðinn, en það hefur rignt á hverjum degi og hefur flugan aukist að sama skapi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Magga komin af stað
15.1.2010 | 09:29
Jæja, nú breytist heimilislífið, Magga er komin af stað til Joburg, og fer þaðan til Dubai, og svo til London. Síðan til Malasíu í næstu viku. Spennandi tímar framundan hjá henni. Við erum hins vegar leið að sjá hana fara og eigum eftir að sakna hennar mikið.
Nú er hlaupahópurinn að mestu kominn í gang, en ég hóf daginn með hressandi hæðahlaupi í einu úthverfanna. Um síðustu helgi fórum við hjónin í 10K hlaup, þar sem ég beitti hraðastjórnun í miklum móð á Davíð í fyrstu 7 kílómetrana (með hjálp fína, fína hlaupaúrsins sem hann gaf konunni sinni í jólagjöf), og bætti hann tímann sinn um nærri fjórar mínútur. Það var hið besta mál.
Það var mikið um að vera í gærkvöldi. Við fórum út að borða til að kveðja Möggu. Svo kláraði Óskar Gagn og gaman. Mikið óskaplega var ég fegin. Þetta eru jú rúmlega 90 síður, svo að maður fær alveg nóg. Óskar fékk hins vegar verðlaun fyrir að klára bókina, og var alsæll í gærkveldi með nýjan legókassa (sem hann fékk reyndar ekki að byrja á því það var kominn háttatími). Hann fær ekki að lesa ensku fyrr en hann verður orðinn fimm ára, en þá ætti íslenskulesturinn að vera orðinn honum nokkuð tamur. Við eigum íslenskar bækur sem ættu að duga okkur fram til vors/hausts. Hann skiptir nú stundum yfir í ensku, hér er sýnishorn frá því að hann var að lesa hér rétt um daginn:
"X og Z eeeru hjjjón. Kyssaaast upp á títuprrrjón. Wow, this is freaking me out."
Og skyldi engan undra.
Halli var önnum kafinn í allan gærdag og var svo að baslast við að ljúka heimaverkefni í gærkvöldi. Krakkarnir eru að læra markaðsfræði í þessari lotu og verkefnið var að markaðssetja popp. Það gekk upp og ofan, en því lauk í morgun með því að popppokinn var kominn með sólgleraugu og glæsilegt bros. Varan hét HAPPYCORN og slagorðið var R U READY 2 SMILE? Kannski getur Halli séð fyrir foreldrunum í ellinni með því að búa til slagorð.
Framundan er verkefni þar sem þau búa til einhverja vöru, og selja svo á markaðsdegi við verslunarmiðstöðina. Markaðurinn ræður því velgengni vörunnar, og þ.m. krakkanna í lotunni. Það verður gaman að sjá það mótast. Krakkarnir eru mjög skapandi, og miklar umræður um framsetningu vöru, markhópa, verðlagningu o.s.frv. Á sama tíma eru þau að læra enskan orðaforða úr markaðsfræðinni. Halli er líka kominn í gítartíma hjá þýskum gítarsnillingi, og gengur vel. Kannski verður hann bara spilandi og syngjandi markaðsgúrú.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jólastuð í Kuneneferð
13.1.2010 | 14:19
Fyrst ég er nú búin að uppgötva kosti picasa, þá skelli ég inn myndasýningu hér neðar frá Kunene ferðinni, þar sem við fórum inn í hjarta Kaokolands. Magga á frasa ferðarinnar: "ég er bara í sjokki, þetta er svo fallegt". Hvað finnst ykkur?
Reyndar vorum við akkúrat þá að keyra í gili frá Pourros, í vesturátt þar sem náttúrufegurðin er gífurleg. Við vorum að leita að ljónum, sem reyndust svo hafa farið alveg niður að strönd, en þau fara stundum niður á Helgrindarströnd til að gæða sér á selum og hvalreka.
Kunene er hérað í norðvestur Namibíu sem er þónokkuð stærra en Ísland, og þar telst vera síðasta ósnortna víðerni Afríku og þó víðar sé leitað. Við rákumst ekki á neitt ferðafólk, enda er nú ekki fjölfarið þarna. Við fórum eftir vegaslóðum sem eru eins og draumur jeppaferðalanga (er búin að finna hlaupaleið sem yrði kjörin fyrir hlaupafólk í ævintýraleit, bara ekki svona á heitasta tímanum). Við vorum þríbíla en ferðafélagar okkar voru frá vatnsmálaráðuneytinu og frjálsum félagasamtökum sem hafa unnið við beitarstjórnun á svæðinu í marga áratugi. Þeir voru staðkunnugir, enda eins gott því að þarna er auðvelt að villast. Einn bíll fór útaf einu sinni, og svo lentum við ofan í árfarvegi þegar við vorum búin að skilja við ferðafélagana. Við vorum svo glöð að sjá vegamerkingu að við fylgdum henni í blindni með ofangreindum afleiðingum. Það fór nú allt vel að lokum. Í myndasýningunni má sjá marmaranámu, húsið á hæðinni, rauðtunnu, fjölskylduna, en síðast ekki ekki síst náttúruna og mannlífið. Ferðin tók viku og gekk í alla staði hið besta.
Samveran í bílnum gekk glimrandi vel. Við fórum með jólalögin með okkur og sungum við raust við Baggalút. Þar var líka mikið spjallað og sumir að berjast við bílveiki í hristingnum.
Magga: ég get svarið það, ég held að þessir tveir séu minnst bílveikustu börn í heiminum
Óskar: Magga, sjáðu hér í Gagn og gaman... Tóóótii hnerrar oog hnnerrar
Stefán: Magga, Magga, Magga, sjáðu kúkabókina - hver á þetta spor, sjáðu, þetta spor?
Magga: úfff strákar, það er ekki hægt að lesa í svona hristingi, það getur það enginn. Ég sver það, þeir eru ekki eðlilegir. Halli, þú er hvítur í framan. Varstu að spila gameboy? Ekki vera í svona kuðung. Það er ávísun á bílveiki. Hallaðu þér bara aftur, svona, og reyndu að anda rólega.
Hitinn úti er um 40 yfir daginn, og er það eins og að ganga inn í ofn þegar maður opnar bílhurðina til að fara út. Sólin er yfir hvirfli manns þegar hún er í hádegisstað. Þá ríður á að finna skugga. Himbarnir láta sér fátt um finnast og teyga það sem dýrmætast er af öllu dýrmætu á þessum slóðum; vatnið.
Nú fer að líða að því að Magga fari til Malasíu, reyndar fyrst til London. Suður afrískur réttur í kvöldmatinn af því tilefni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Desember í Afríku
12.1.2010 | 06:35
Eins og nokkrir hafa bent á, þá er ég komin ansi langt á eftir í færslum. Á eftir Zimbabwe og Botswana ferð, Kunene ferð, Etosha ferð og jól og áramót.
Hér er smá sýnishorn af því sem við vorum að bralla í desembermánuði. Eins og sjá má voru Magga Dísa og mamma með okkur yfir jólin. Við nutum lífsins, fórum í matarboð og héldum matarboð, fórum til Lake Oanob yfir nótt, hlupum og fórum í ræktina, og mamma og Magga fóru með strákana í safarí.
Svo er smá pistill um jólin í Namibíu í veftímariti Þróunarsamvinnustofnunar.
Gleðilegt nýtt ár!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Íðilfagra Kunene
21.12.2009 | 08:50
Tímasetning okkar á Kuneneferðinni var alveg fullkomin. Þegar við komum á hótelið í Opuwo var nýbúið að bera áburð á grasflatirnar svo að allt ilmaði vel af skít. Alveg eins og heima, nema fnykurinn var rétt farinn að dala þar. Annars tók Kunene á móti okkur iðagræn og íðilfögur, eins og vanalega. Hér koma nokkrar myndir frá byrjun ferðarinnar, en við komum til Opuwo eftir átta og hálfs tíma akstur.
Hér er verið að reyra farangur á þakið fyrir brottför. Það eru ekki margir sem skella sér í minipils og skríða upp á þak til þeirra erindagjörða.
Laugin er alltaf góð í Opuwo, drengirnir allir orðnir syndir, enda fara þeir í sundtíma í skólanum.
Spilin eru tekin með fyrir háa sem lága.
Annars er það að frétta af okkur að mamma er komin til jóladvalar og jólaundirbúningurinn er kominn í gang. Ég las þessa fínu, íslensku jólasveinabók sem Rósa frænka sendi strákunum. Þar vöktu jólakötturinn og Grýla mikla athygli. Þarna lá ég í rúminu með Stefán á aðra hönd sem benti á tvenninguna og sagði "þessi er vond og þessi er vondur. Þau koma að taka Óskar." Hann taldi sjálfan sig vera nokkuð hólpinn þar sem hann er ekki eins baldinn og bróðir sinn, og því eðlilegt að hann yrði betri kostur fyrir þá sem koma og taka óþekk börn. Sá lá við hina hlið mína, skjálfandi og sagði eins og Baktus forðum "ó, ég er svo hræddur, óóó hvað ég er hræddur".
Svo er netið nánast alveg búið að liggja niðri undanfarna daga, svo ég hef ekki getað sett inn færslur, en vonandi stendur það til bóta.
Nú eru flestir í hlaupahópnum farnir í frí úr borginni, svo að ég fór klukkan 6 í morgun með Davíð við annan mann út að hlaupa, en skrifstofan hjá Davíð opnar klukkan 7:30. Þetta er langbesti tíminn til hlaupa þar sem sólin er ekki farin að baka mann. Hitinn er frá 35 til 42 stig yfir daginn og erfitt að hlaupa í hitanum eftir klukkan 8 á daginn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komin heim úr óbyggðum
13.12.2009 | 13:15
Við vorum að skríða í hús eftir viku ferð til Kunene í norðvestur Namibíu, sem var alveg geggjuð. Búin að skrölta eftir þeim mestu fjallvegum sem ég hef séð í lífinu. Bullbarinn á bílnum er við það að skröltast af, og númeraplatan fór alveg, en annars stóð bíllinn sig bara mjög vel. Sáum enga ferðamenn dögum saman, og reyndar ekki annað hvítt fólk, ef út í það er farið. Náttúran er ótrúleg, óbyggðirnar víðfemar og fólkið litríkt. Allt gekk eins og í sögu, einn ældi bara einu sinni í bílinn en annars var bílveikin bara temmileg. Ég hugsa að maður gæti vel villst þarna árum saman ef ekki væru staðkunnugir að leiðsegja. Yfir hádegið liggur sólin í hvirfilsstað, svo að ekki er hægt að notast við hana þegar maður er að reyna að ná áttum.
Ég reyndi ítrekað að setja inn færslu áður en við fórum, en netið var óstöðugt svo að það hafðist ekki.
Windhoek tók á móti okkur með yfir 40 stiga, brakandi þurrum hita. Sem er svosem alveg indælt, en sumum heimilismeðlimum þótti nóg um. Sýni ykkur myndir frá ferðinni þegar um hægist.
Karlinn kýs
29.11.2009 | 19:05
Það var náttúrulega þrælgaman í matarboðinu í gær og farið út um víðan völl í samræðum. Hér er smá sýnishorn:
"....hahaha, eru Íslendingar virkilega svona fáir? Þetta eru jafn margir og búa í blokkinni minni í Buenos Aires!!!"
"Margrét, Laos er verulega yndislegt land sem þú ættir endilega að heimsækja. Passaðu þig bara á lao-lao (heimabruggi), lao (bjórnum), og jú og svo jarðsprengjum"
"..já, blessaður vertu, Íslendingar eru búnir að fá orðspor sem heimsins mestu listasvindlarar, þeir fara þar fremstir í flokki og svo rétt á eftir koma Nígeríumenn"
Svo var kosið í Namibíu um helgina. Ég hitti vinkonu mína í síðustu viku og spurði hvort hún ætlaði ekki að kjósa. Sú er menntuð, klár og í góðri stöðu. Það þarf vart að taka fram að ég er langt í frá búin að jafna mig á svarinu, sem var: "nei, maðurinn minn kýs fyrir mig"
Hlaup og staup
28.11.2009 | 13:18
Dagurinn byrjaði vel hjá okkur hjónunum. Við fórum út fyrir bæinn í býtið og hlupum 10 km. í hlaupi sem hlaupaklúbbur Windhoek stóð fyrir. Dabbi, sem hleypur vanalega á brettinu í ræktinni afsannaði rækilega þá lummu að það væri auðveldara að hlaupa á bretti en úti í náttúrunni. Hann og Carla, hlaupafélagi minn, hlupu nánast hönd í hönd í markið, mjög sæt. Ég var mjög stolt af þeim báðum, og þau á góðum tíma. Ég blómstraði ekki alveg, en rétt náði mínu lægsta takmarki, og þá er bara að gera betur í næsta hlaupi. Magga gerði þetta mögulegt með því að passa drengina fyrir okkur, og skellti sér svo í ræktina þegar við komum heim. Operation six pack er sumsé enn í fullum gangi.
Talandi um blóm, nú er skammdegið með því besta á Íslandi. Hér eru nokkrar myndir úr garðinum okkar af blómunum sem ég tók hér eitt kvöldið, bara til að koma smá litum inn í líf ykkar heima á Fróni.
Fegursta blómið í garðinum þetta síðkvöldið var að sjálfsögðu hann Stefán.
Ég eyddi gærkvöldinu niðri í skóla að fæða góða gesti, en nú er haldið íþróttamót fyrir alþjóðaskóla í sunnanverðri Afríku, svo að það koma keppendur frá SA, ZIM, Sambíu og Botswana. Mikið fjör í skólanum þessa dagana.
Við erum svo öll að fara í matarboð síðdegis hjá vinum okkar, og fengum okkur í staup til að halda upp á hlaupin. Magga verður dedicated driver (jú, og designated líka), og hittir svo væntanlega vini sína í kvöld til að fara út á lífið þegar við gamla liðið drögum okkur í hlé.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Já, lýðræði er skrýtið æði
23.11.2009 | 13:12
Namibía fékk ekki eins góða einkunn á spillingarlista Transparency international og vonir stóðu til. Þetta er stjórnvöldum til mikils ama, sem telja, skv. málgagni þeirra, að þetta mat sé bara huglægt bull og byggt á villu. Vilja fremur nota afríska spillingarkvarða sem láta landið líta betur út.
Ég les nú sjaldan blað stjórnvalda, en kíkti í það um daginn. Á forsíðu eru þrír vaskir kappar með hnefann á lofti, vel í holdum og líta að auki út fyrir að vera komnir vel yfir fertugt. Þar eru komnir forystumenn ungliðahreyfingar Frelsishreyfingar Namibíu, sem hefur töglin og haldirnar í stjórmálum og stjórnkerfi. Ástæðan er sú að atkvæði í utanþingstaðakosningu eru komin inn og hafa verið talin. Hér eru bara tveir hópar sem geta tekið þátt í utanþingstaðakosningu, diplómatar og sjómenn. Ein vinkona mín var sárreið að fá ekki að kjósa, enda verður hún utanlands á kjördag. Aðrir koma heim til Namibíu til að kjósa. Almenningur verður bara að passa sig að vera á réttum stað á réttum tíma.
Þessir ungliðar héldu fund fyrir fjölmiðla og heimtuðu að tilteknir diplómatar í þjónustu ríkisins yrðu kallaðir heim, því að þeir væru ekki fulltrúar Flokksins. Niðurstaða utankjördæmakosninganna var nefninlega sú að Flokkurinn fékk bara helming atkvæða. Félagarnir spyrja í forundran: "Hvað er svona merkilegt við þetta fólk sem bregst vonum okkar þegar við getum fundið betra fólk í okkar Flokki? Af hverju erum við svona blind gagnvart þeim sníkjudýrum sem éta í sundur innviði okkar megnuga Flokks?" - Flokkurinn mun væntanlega fá mikinn meirihluta atkvæða í komandi kosningum, svo félagarnir taka vonandi gleði sína á ný. Svo er að lokum lagt til að í mars muni verða endurskipað í allar æðri stöður hins opinbera, í samræmi við manifesto Flokksins.
Hin forsíðufréttin er af lögreglustjóra í Caprivi sem er ásakaður um að berja lögregluþjón og að tæta í sundur búninginn hans. Stjórinn hefur látið lögregluþjónana gæta geitanna sinna, sem eru minnst 100 talsins. Einnig hafa þeir sótt börnin hans til borgarinnar við og við, sem er 2 600 km. langferð. Meintur lögregluþjónn ku hafa mótmælt þessu og viljað fremur stunda hefðbundin lögreglustörf. Lögreglustörf eru, eins og allir vita, mjög áhættusöm starfsgrein.
Margir eru efins og ringlaðir varðandi lýðræðisferilinn. Aðspurð flissar Leja, og ætlar að sjá til eftir 5 ár, í næstu kosningum. Kannski kjósa þá. Ekkert breytist, hvort eð er. Aðrir eru hræddir um að þeir verði spurðir út í hvað þeir hafi kosið. Betra að kjósa bara ekki neitt. Ég bíð spennt til að sjá hver kosningaþátttakan verði í ár.
Namibía lenti í 56. sæti spillingarlistans hjá Transparency International í ár, með einkunnina 4,5 sem gefur því einkunnina "highly corrupt". Þetta er hrap frá einkunninni 5,7 árið 2002. Ég get frætt áhugasama lesendur um það að Ísland er í því glæsilega sæti númer 8 (einu ofar en Noregur) með einkunnina 8,7. Enda er kosningaþátttaka á Íslandi líka með því besta sem gerist í heiminum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jólasveinninn kominn til Windhoek
21.11.2009 | 17:49
Í hádeginu var hið árlega jólaboð fyrir starfsfólk ICEIDA. Dabbi var vopnaður myndavél og hér er afraksturinn. Jólasveinninn mætti á svæðið, hlaðinn gjöfum fyrir börnin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)