Færsluflokkur: Ferðalög

Ægifegurð Epupa fossa

Við vorum mjög spennt þegar við fórum að skoða Epupa fossa í Kunene ánni, enda fræddi leiðsögubókin okkur á því að mörgum finndust fossarnir fegurri en Viktoríufossar sjálfir, sem eiga þó að vera eitthvert mesta náttúrundur Afríku. Ég á enn eftir að sannreyna það, en hins vegar eru Epupa fossar dýrðlegir eins og sjá má. Við Íslendingar köllum nú ekki allt ömmu okkar í fossamálum, en hafa ber í huga að ekki hefur rignt jafn mikið í 80 ár og því var mjög mikið í Kunene ánni á þessum tíma. Þarna steypist vatnið niður í óteljandi litlum fossum, en ekki er nokkur leið að ná öllum fossunum á eina mynd. Það má kannski segja að þetta séu Hraunfossar hundraðfaldir. epupa falls

Það er yndisleg gönguleið meðfram fossunum, og fáir ferðamenn á þessum tíma. Þeir hafa nú þótt vera lítt aðgengilegir til þessa, en nú er verið að gera stíflu vestan fossanna og því er búið að bæta veginn og auðvelt að komast að þeim. Reyndar eru fjarlægðir miklar, en það fylgir nú alltaf pakkanum í Namibíu.

epupa 8

Epupa 9

Maðurinn á gististaðnum gaf okkur lítilsháttar leiðbeiningar til að finna réttu leiðina. Og bætti svo við.. ég myndi ekki mæla með því að þið færuð að baða ykkur þarna. Einmitt, maður sæi sig í anda fara í sullferð með börnin í þessar ógurlegu flúðir. Enda hafa tveir látið lífið í fossunum síðan við vorum þar.

Epupa 10

 Það sem er svo skemmtilegt er að fossarnir eru auðsjáanlega í hitabeltisumhverfi, þarna má sjá gríðarstór baobab tré á vatnsbakkanum sem hafa staðið vaktina við fossinn um hundruðir ára, og verða vonandi þar um ókomna tíð.

Epupa 12

Epupa 13

 

Epupa 6

Það getur verið erfitt að ganga í hitanum.
Epupa 7

Og því er gott að leggja sig smá inn á milli.

EpupaHalli er reyndar íðilsvalur eins og alltaf.
Epupa 4

Og mæðginin saman.
Epupa 2
Hreinsi allt í einu staddur í myrkviðum Afríku.
Epupa 3

En daglegt líf heldur áfram, hér er verið að þvo þvotta fyrir ofan fossana.

Upp úr aldamótum var ætlunin yfirvalda að byggja stíflu í ána, sem átti að vera sú hæsta í Afríku, og þar með færu fossarnir undir lón. Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök tóku höndum saman við Himbana við að mótmæla þessum fyrirætlunum, sem beindi alþjóðlegu kastljósi að Himbunum. Sú barátta vannst, og er unnið að gerð stíflu neðar í ánni, þar sem minna rask verður fyrir mannfólk og náttúru.


Þorpsheimsóknir


Village visit 5
Í Rundu fengum við að fara með í þorpsheimsóknin þar sem ætlunin var að fá innsýn inn í stöðu og líf heyrnarlausra barna. Hópnum var skipt upp í tvennt og var svo haldið í þorp þar sem fjölskyldur með heyrnarlaus börn bjuggu.
 
Fyrri fjölskyldan sem við heimsóttum átti heima í Rundu, og hér situr teymið undir tré að tala við móðurina, með hjálp túlks. Með í heimsókninni, auk ICEIDA, voru einnig fulltrúar frá menntamálaráðuneyti Namibíu, félagi heyrnarlausra og frá frjálsum félagasamtökum sem vinna með heyrnarlausum í héraðinu. 
Litli gaurinn sem situr þarna eins og ljós á stól er fjögurra ára og er heyrnarlaus.
 
 
Village visit 4
Drengurinn notar ekkert táknmál og hefur því lítil sem engin samskipti við heiminn. Feðurnir yfirgefa gjarnan mæðurnar þegar kemur í ljós að börnin eiga við einhverja fötlun að stríða og því er staða þeirra oft enn erfiðari. Svo var í þessu tilfelli en eins og þið takið eftir var húsið þeirra hins vegar mjög veglegt.
 
Drengirnir mínir voru nú ekkert að velta sér upp úr slíkum vandamálum, heldur fóru að leika sér við krakkana í hverfinu, sem komu og voru forvitnir að sjá hvaða gestir væru komnir. Reyndar voru nokkrir fullorðnir einnig forvitnir og héngu utan á girðingunni til að fylgjast með því sem fram fór.



Village visit 3

Hér eru strákarnir komnir í góðan félagsskap.












Village visit 6
Krakkarnir vilja gjarnan láta taka myndir af sér, og elska að skoða þær í myndavélinni eftirá.












Village visit
Seinni heimsóknin var í þorp fyrir utan Rundu, enda sjáið þið strákofana í baksýn. Fundarstaðurinn er klassískur, undir tré. Hér er 11 ára, heyrnarlaus stúlka, en þau nota heimatilbúið táknmál sem er reyndar ótrúlega þróað.
 
Hér er lífið ekki létt, og svo sannarlega ekki þegar fólk á við fötlun að stríða því að erfitt er að fá viðeigandi stuðning, bæði frá hinu opinbera og frá samfélaginu. Þessi stúlka er hins vegar heppin að því leyti að fjölskylda hennar er góð við hana og leitar allra leiða til að greiða götu hennar.
 
Víða býr fólk í hreysum í Namibíu, en gjarnan er fólk vel búið og hreint. Hér virðist fátæktin hins vegar vera ívið meiri því að fólk gengur í götóttum fötum og margir eru óhreinir. Namibía er oft kölluð Africa light, og er þá verið að vísa til þess að þú sért ekki kominn í hjarta Afríku, heldur í vestræna útgáfu af álfunni. Ég hygg að sú tilvísun sé réttmæt fyrir þá fjölmörgu sem koma til Windhoek, ferðast í fína leigujeppanum sínum, eða í loftkældri rútu, gista á lúxushótelum úti á landi með her þjóna og fara svo heim með mynd af gíraffa í farteskinu. Þó að skoðanaferðir í fátækrahverfið séu vinsælar, ná fæstir hins vegar að upplifa og skilja hve lífskjör fólks eru bág víða á landsbyggðinni. Hér er erfitt að skilja Africa light.

Sossusvlei


soss 5
Sossusvlei er vinsælasti ferðmannastaður Namibíu. Þetta er saltslétta í Namib eyðimörkinni og þarna eru sandöldur af öllum stærðum og gerðum. Þær eiga einnig að vera þær stærstu í heimi.
 
Sossus á að þýða staðurinn sem enginn snýr til baka frá og vlei þýðir sandalda.  Flestir reyna að koma þangað í dagrenningu að sjá sólaruppkomuna í þessu ótrúlega umhverfi. Við vorum nú ekki svo metnaðarfull, heldur slöppuðum af í náttstað og komum um miðjan morgun. Hér verður efalaust óbærilega heitt yfir sumarið, því að þó að það væri hávetur, þá var ansi heitt, og sérstaklega þegar við fórum að brölta upp sandöldur.
 
 
 
soss 4
Við byrjuðum á einni nettri sem hér sést. Eða ætti ég að segja að strákarnir byrjuðu á einni. Hér eru Halli og Hrafnkell á leiðinni upp. Við hin tókum nestispásu og horfðum á kappana klífa fjallið.
 









soss 2
Þessir félagar fóru líka í smá sandöldugöngu, hér eru Gunnar og Óskar á leiðinni upp....
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
soss 1
...og svo tóku þeir smá pásu, og lágu sem dauðir væru í sandinum.
 
Fyrir utan þessa fjóra og Kára að auki sem fór upp á topp, ákvað doktorinn að klífa ölduna góðu. Hann lagði af stað þegar eldri strákarnir voru komnir upp, og sagðist ætla að "kíkja upp líka". Hann stökk af stað eins og springbok í blóma lífsins. Þegar hann var kominn svona fjórðung leiðarinnar dró vel af honum og hann líktist frekar öldnum nashyrningi. Í millitíðinni hafði bandarísk fjölskylda komið og hóf einnig göngu. Það leið ekki á löngu þar til lítil stelpa í yfirvikt tók fram úr Dabba greyjinu, sem auðsjáanlega hafði ofreynt sig á fyrstu metrunum.
  
 
 
soss 3
Við hin fylgdumst með og skemmtum okkur konunglega, og eins og sjá má, skín kátína úr hverju andliti.
 
Við vorum ekki alveg eins borubrött þegar við byrjuðum sjálf að klifra sandinn. Maður stígur eitt skref og sígur svo til baka. Ekki bætir úr skák að hafa barn á öxlunum. Óskar stóð sig reyndar mjög vel, klifraði af hörku og tók svo pásur inn á milli þar sem hann faðmaði sandinn og móður jörð af innlifun.
 
 
 
 
 
 
soss 6
Hér er Kári á toppnum á tilverunni. 
 
 
 
 

Join us og fleiri góðir barir

Namibía er rúmlega 825 þúsund ferkílómetrar, og í því búa rétt tæplega tvær milljónir manna. Það er því eilítið strjálbýlla en Ísland og í veröldinni allri er einungis Mongólía strjálbýlla. Það er því gott fyrir Íslendinga með sitt víðáttubrjálæði að ferðast í Namibíu. Mikill hluti landsins er ákaflega harðbýll og fáir lifa í suðurhlutanum, sem er að miklu leyti eyðimörk. 60% landsmanna búa norðan Etohsa og ef að Windhoek og svæðið norður af því er talið með, þá búa þar um 80% landsmanna.

Þegar komið er norður fyrir Etosha, er komið í Owamboland sem er kallað menningarlegt hjarta Namibíu. Þegar við fórum þarna um var orðið mjög líflegt að keyra í gegn, og margt fólk að fara meðfram veginum í ýmsum erindagjörðum. Sumir voru bara í stuði og dönsuðu með vegarkantinum. Sumir voru að sækja vatn, aðrir að gæta geita, og enn aðrir að koma af fótboltaleik. Við fórum í gegn á sunnudegi og keyrðum framhjá þremur fótboltaleikjum, en það virðist auðsjáanlega vera afþreyingin á sunnudögum. Mikill fjöldi fólks var þar samankominn, og við sáum smá eftir að hafa ekki stoppað til að fylgjast betur með. 

asni

Svo er náttúrulega mikið af dýrum sem fara yfir veginn eins og þetta asnagrey. Einnig má sjá ummerki regntímans, en það var mikið af vötnum hér og þar, og margir sem voru að veiða fiska með tágakörfum sem þeir setja yfir fiskinn niður í vatninu. Fiskurinn er svo seldur við vegarkantinn, hengdur þar upp í greinar.

 

 

 

bar1

Skondnustu húsin og of þau sem mest er lagt er í, eru barir. Þá er að finna mjög víða við veginn. Það sem einnig vekur athygli er að nafngiftin á börunum er oft mjög skrautleg, eins og Come Happy Bar (vonandi fer maður ennþá meira happy). Ég tók nokkrar myndir til að sýna barina, hér er t.d. Toola Silver Mines Bar...

 

 

bar2

..þessi heitir This Night Bar..

 

 

 

 

 

bar3

..og þessi bar heitir Join Us Bar, hvernig er hægt að standast slíkt boð?


Þjóðhátíðarheimsókn í skóla

Skóli 3Leiðsögumanninum leist svo vel á okkur að hann bauð okkur í óvænta heimsókn í skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Þarna skröltum við uppi á palli öll tíu í meira en hálftíma eftir hálfgerðri vegleysu. Við komum að skólahúsi sem hafði einu sinni verið kirkja og þar fyrir utan voru allir nemendurnir, sitjandi á klappstólum í sandinum. Skólinn var fyrir nemendur í fyrsta til fjórða bekk, en aldur nemendanna var mismunandi, allt upp í 15 ára aldur.

 

 

 

Skóli 2

Við heilsuðum upp á krakkana sem voru náttúrulega spennt að fá gesti. Það er örugglega ekki oft sem sex ljóshærðir strákar koma í skólaheimsókn þarna.

 

 

 

 

 

 

Skóli 1

 Himbakrakkarnir ganga í skóla með hinum, þó að skólagangan sé stundum rysjótt.

 

 

 

 

 

 

 

 


Skóli 4

Svo farið í kennslustund og við fengum að fylgjast með kennslu, en eina greinin sem kennd er á ensku er stærðfræði. Kennarinn var að fara yfir tvisvar sinnum töfluna með fjórða bekk. Halli var nokkuð imponeraður því að hann hélt í fyrstu að þau væru að fara í 12 sinnum töfluna (það var svo mikið kám á töflunni) og fannst þetta sko almennilegt. Það var mikill spenningur í bekknum og klappað ógurlega þegar einhver nemandanna kom með rétt svar.

 

 

 

Skóli 5

Það er erfitt að snúa að töflunni þegar það eru gestir frá Íslandi eru aftast í stofunni.

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 6

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 7

Svo buðu þau upp á tónleika, nokkrir nemendur komu upp á svið og sungu og dönsuðu fyrir okkur. Drengurinn í bláu skyrtunni var með ótrúlega skæra og fallega rödd. Hann var forsöngvari sem syngur fyrst og svo svarar kórinn. Tær barnsröddin fyllti skólahúsið og hefur efalaust borist langt út um sveitina.

 

 

 

 


Skóli 8

Krakkarnir voru aðeins feimin í byrjun en dönsuðu síðan skemmtilega og slógu taktinn með fótunum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skóli 9

Við ákváðum náttúrulega að reyna að gefa eitthvað til baka og fórum upp á svið. Ég er nú hrædd um að framlag okkar til tónlistargyðjunnar hafi nú ekki verið eins markvert eins og infæddu krakkanna. Við sungum um dagana og mánuðina, en allur skólinn hafði sungið um þá þegar við mættum fyrst á staðinn. Við höfðum einmitt fengið ágætis æfingu í að syngja um dagana, því að Gunnar hafði kyrjað þann söng af miklum krafti í ferðinni. Hann tók sér reyndar pásu þarna. Ég fór upp til að styðja drengina í söngnum, og sagði líka að við værum glöð að vera komin og að það væri þjóðhátíðardagurinn okkar í dag svo að í dag væru hátíðahöld hjá okkur. 

 


Skóli 10Við sungum lagið bara tvisvar og krakkarnir voru hálf hissa þegar við létum það bara nægja, því að krakkarnir höfðu sungið nokkuð lengi sjálf.

Svo skoðuðum við aðeins skólann, en á bakvið skólann var heljarinnar pottur á hlóðum með maísgrautinn mallandi. Það er mikilvægt fyrir skóla að bjóða upp á mat - sem reyndar samanstendur vanalega bara af maísgraut. Maturinn er hvati fyrir krakkana að mæta í skólann, og fyrir foreldrana að senda krakkana. Ef vel árar er sykri eða fitu bætt í grautinn. Krakkarnir elda sjálfir grautinn, og skiptast á að taka það verkefni að sér.

Svo gáfum við skólanum smá pening, og það var ákveðið að fara strax í næsta þorp að kaupa kex handa krökkunum til að halda upp á daginn. Kennarinn og elsti drengurinn, Michael að nafni, fóru í það verkefni.





Skóli 11
 
Kennarinn og Michael fengu far með okkur að næsta þorpi, Swartbooisdrift (sem var nú bara nokkrir kofar gerðir úr trjágreinum). Hér eru Óskar, Halli og Michael á leiðinni til baka.
 
Andrea tók allar þessar myndir því að myndavélin okkar bilaði kvöldið áður. Við sáum aðeins eftir því að hafa ekki tekið með okkur íslenska fána til að gefa skólanum líka, en Andrea gaf leiðsögumanninum fána þegar við komum heim á gististað til að færa skólanum við tækifæri. Kannski prýðir íslenski fáninn núna veggi skólans, hver veit?


Frá Kunene ánni

Kunene river 3Hér eru myndir frá Kunene ánni þar sem við gistum, en þarna er mjög fallegt. Dabbi er að slaka á niðri við ána.

Þarna var umtalsvert heitara en niðri í Windhoek enda við nánast komin eins norðarlega eins og mögulegt er innan Namibíu. 

Drengirnir gátu dundað sér við að skoða fjölbreytt skordýr og eðlur. Svo voru líka apar í trjánum sem vöktu lukku hjá yngri kynslóðinni. Minni hjá mér því að einn var að brölta uppi á þaki á húsinu okkar með hávaða og látum þegar ég var að reyna að sofna um kvöldið.

 

Kunene river 2

Þarna eru strákarnir með íslensku fánana á þjóðhátíðardaginn og við hin að spjalla saman eftir að hafa snætt ljúffengan morgunverð undir trjánum.

 

 

 

 

Kunene river 1

Hér er sólarlagið, hinu megin við ána er Angóla.


Til Himbanna

Nú fer ég að koma glefsum úr ferðasögunni á netið, en ég ætla að byrja á ferð til Himbanna sem við fórum á 17 júní. Þá höfðum við farið alveg upp til landamæra Angóla, til Kunene árinnar. Við ákváðum að heimsækja Himba frekar þarna uppfrá þar sem færri ferðamenn koma, heldur en í Opuwo. Himbarnir eru hópur sem hefur að miklu leyti haldið í gamla lífshætti, og er áhugavert að heimsækja. Þeir eru hirðingjar sem lifa í Kunene hérðaði í norður Namibíu. Kunene hérað, eða Kaokoland er stærra en Ísland og mikill hluti þess er mjög óaðgengilegur. Himbarnir rækta geitur og nautgripi á þessu svæði sem er mjög harðbýlt. Þeir færa sig um til að ná til beitarlands og eiga því hús á mörgum stöðum. Húsin geta verið margskonar, sumum er líkt við býflugnabú vegna þess hvernig þau eru í laginu, en önnur er gerð úr trjágreinum. Utan um þorpin er vanalega girðing og kallast þorpin homesteads.

 

Himbar 10

Himbarnir eru hvað þekktastir fyrir að konurnar smyrja sig með blöndu af litarefni (steinn eða jarðvegur, ochre), smjöri og plöntum á líkama sinn. Þetta gefur þeim fallega brúnan lit og þær fara aldrei í bað á lífsleiðinni, heldur bera á sig smyrslið á hverjum degi.

Við heimsóttum lítið þorp með tveimur fjölskyldum. Börnin voru þrjú, og var eitt þeirra enn á brjósti. 

 

 

 

Himbar 8

Hér er konan að mylja ochre fyrir litablönduna. Litinn sækja þeir yfir til Angóla, en þar þarf að grafa um 2 metra niður til að komast að litnum. Himbarnir ferðast frjálsir yfir landamærin milli Angóla og Namibíu enda eru einnig Himbar í Angóla. Þeir komu upphaflega til Namibíu frá Angóla.

Fólkið er afskaplega fallegt. Hefðirnar tengja fjölskyldurnar bæði við föður- og móðurættirnar, og gerir það að verkum að tengslanetið er víðtækara en meðal margra hópa. Það er líka talin ein af ástæðunum af hverju Himbarnir hafa lifað af í gegnum tíðina en þurrkar geta farið illa með bústofna þeirra. ÞSSÍ er m.a. að vinna með Himbunum við að bora eftir vatni. Nálægðin við Kunene ánna gerir það að verkum að vatnsskortur er ekki eins og á öðrum svæðum þar sem Himbarnir lifa.

 

 

 

 

Himbar 1

Konurnar eru ábyrgar fyrir mestri erfiðisvinnunni, að bera vatn, mjólka, elda, sjá um börnin o.s.frv. Karlarnir gæta nautgripanna og geitanna. Reyndar voru hundarnir bara úti með geitunum þennan dag að gæta þeirra. Þarna eru sjakalar sem geta verið skæðir, og svo eru krókódílar í ánni sem geta tekið geiturnar þegar þær fara niður að ánni að drekka.

 

 

 

 

 

 

 

Himbar 3

 

 

Halla fannst dálítið skrýtið að vera í kringum Himbakrakkana. 

 

 

 

 

 

 

 

 

Himbar 4

Eins og Haddi benti síðar á, í samhengi við hina dæmigerðu umræðu um villimenn í Afríku, þá fór sko ekki á milli mála hverjir voru villimennirnir hér. Litlu guttarnir þrír voru allir hressir og fundu sér allir eitthvað að gera. Gunnar nagaði geitaskít, sem var á jörðinni innan homestead á meðan Óskar var kominn lengst upp í tré. Stefán bætti um betur og réðst inn í annað húsið og harðneitaði að koma þaðan út. Eftir að hafa farið bónleiðina við drenginn þurfti ég að fara inn og sækja hann sjálf. 

 

  

 

Himbar 6

 

Óskar, Gunnar og Stefán að kanna nýjar slóðir með jafnaldra sínum úr hópi Himbanna.

 

 

 

 

 

 

Himbar 9

 

 

Hér er Óskar á leiðinni upp í tré. 

 

 

 

 

 

 

 

Ef litið er á kortið, þá virðist vera ansi freistandi að fara spottann upp að Epupa fossum, sem eiga að vera ægifagrir. Það tekur hins vegar þrjá daga að fara þessa 100 km. meðfram ánni, svo að Epupa fossar voru látnir bíða betri tíma. Hins vegar var mjög gaman að fara meðfram ánni að Kunene River Lodge, þar sem við gistum en þar var sólarlagið geysifallegt.

Leiðsögumaðurinn var alveg frábær, en móðir hans er Himbi og talaði hann tungumál þeirra. Hann var líka mjög hrifinn af okkur og bauð okkur því í heimsókn til skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Meira um það síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband