Magga komin af stað
15.1.2010 | 09:29
Jæja, nú breytist heimilislífið, Magga er komin af stað til Joburg, og fer þaðan til Dubai, og svo til London. Síðan til Malasíu í næstu viku. Spennandi tímar framundan hjá henni. Við erum hins vegar leið að sjá hana fara og eigum eftir að sakna hennar mikið.
Nú er hlaupahópurinn að mestu kominn í gang, en ég hóf daginn með hressandi hæðahlaupi í einu úthverfanna. Um síðustu helgi fórum við hjónin í 10K hlaup, þar sem ég beitti hraðastjórnun í miklum móð á Davíð í fyrstu 7 kílómetrana (með hjálp fína, fína hlaupaúrsins sem hann gaf konunni sinni í jólagjöf), og bætti hann tímann sinn um nærri fjórar mínútur. Það var hið besta mál.
Það var mikið um að vera í gærkvöldi. Við fórum út að borða til að kveðja Möggu. Svo kláraði Óskar Gagn og gaman. Mikið óskaplega var ég fegin. Þetta eru jú rúmlega 90 síður, svo að maður fær alveg nóg. Óskar fékk hins vegar verðlaun fyrir að klára bókina, og var alsæll í gærkveldi með nýjan legókassa (sem hann fékk reyndar ekki að byrja á því það var kominn háttatími). Hann fær ekki að lesa ensku fyrr en hann verður orðinn fimm ára, en þá ætti íslenskulesturinn að vera orðinn honum nokkuð tamur. Við eigum íslenskar bækur sem ættu að duga okkur fram til vors/hausts. Hann skiptir nú stundum yfir í ensku, hér er sýnishorn frá því að hann var að lesa hér rétt um daginn:
"X og Z eeeru hjjjón. Kyssaaast upp á títuprrrjón. Wow, this is freaking me out."
Og skyldi engan undra.
Halli var önnum kafinn í allan gærdag og var svo að baslast við að ljúka heimaverkefni í gærkvöldi. Krakkarnir eru að læra markaðsfræði í þessari lotu og verkefnið var að markaðssetja popp. Það gekk upp og ofan, en því lauk í morgun með því að popppokinn var kominn með sólgleraugu og glæsilegt bros. Varan hét HAPPYCORN og slagorðið var R U READY 2 SMILE? Kannski getur Halli séð fyrir foreldrunum í ellinni með því að búa til slagorð.
Framundan er verkefni þar sem þau búa til einhverja vöru, og selja svo á markaðsdegi við verslunarmiðstöðina. Markaðurinn ræður því velgengni vörunnar, og þ.m. krakkanna í lotunni. Það verður gaman að sjá það mótast. Krakkarnir eru mjög skapandi, og miklar umræður um framsetningu vöru, markhópa, verðlagningu o.s.frv. Á sama tíma eru þau að læra enskan orðaforða úr markaðsfræðinni. Halli er líka kominn í gítartíma hjá þýskum gítarsnillingi, og gengur vel. Kannski verður hann bara spilandi og syngjandi markaðsgúrú.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:59 | Facebook
Athugasemdir
Frábært að sjá allar þessar myndir frá ykkur. Hlaupin eru greinilega að skila góðum árangri því þú geislar alveg :-)
Bestu kveðjur til ykkar allra, Hlín
Hlín (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 18:38
Gaman að fá línu frá þér! Var einmitt að koma heim úr utanvegahlaupi í morgunsárið. Við getum kannski tekið hring þegar ég verð komin heim á Frón og við getum geislað saman?
Skilaðu kveðju til fjölskyldunnar, og til gengisins okkar ef þú sérð einhver andlit þaðan.
Erla perla (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 08:44
Hæ hæ
Pant vera með í svona geislahring :-) Frábært að lesa bloggið og sjá hvað þið eruð dugleg.
Knúsur
Inga Dagmar og strákarnir
Inga Dagmar (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 13:07
Ekki spurning, allir með í geislahringinn. Fer að plana hlaupahóp ekki seinna en strax!
Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 19.1.2010 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.