Klifra, klifra kletta
19.1.2010 | 14:50
Það var aldrei að kynntist ekki einhverjum áhugaverðum karlmanni í ræktinni, eftir samviskusamlega mætingu síðustu tvö árin. Magga, sem skoðaði hann, taldi nú ekki heimturnar vera góðar, eftir allan þennan tíma. Þessi var aldinn Þjóðverji, sem var svo elskulegur að bjóða mér með sér í klettaklifur þar sem hann vantaði klifurfélaga.
Við drifum okkur í morgun, á gullfallegan stað sem er í 20 mín. keyrslu suður af borginni. Eftir smá gang af veginum er komið í klettaborg sem er í laginu eins og skeifa. Lóðréttir hamrar úr sandsteini og kvarts, sem eru um 25 metra háir. Þarna er sportklifur stundað, og ég fékk aldeilis að spreyta mig við klifur og aðstoð (hvaðanúheitir á íslensku). Ég hafði áður prófað klifur í c.a. 2ja metra hæð frá jörðu, í Klifurhúsinu. Sá gamli þeyttist um klettaveggina eins og kóngulóarmaður, vendilega studdur af mér á jörðu niðri, en rassinn á mér var nú umtalsvert þyngri í klifrunum. Ég fengi nú seint verðlaun fyrir klifurþokka eða glæsileika. Sá gamli var ótrúlega þolinmóður og ég náði fljótt tökum á þessu. Það hvarflaði reyndar að mér þar sem ég hékk í einhverri undarlegri stellingu þarna í háloftunum, að ég gæti eins hangið utaná einhverri þriggja hæða blokk í Grafarvoginum, með ekkert andsk... grip neins staðar.
Þetta var bráðskemmtileg reynsla, og ég væri til í að klifra öðru hvoru. Tek myndavélina með næst. Ekki eru miklar líkur til að Dabbi skelli sér með, enda með mínus áhuga, svo að hans orð séu notuð. Aðstæður þarna eru hins vegar frábærar og náttúran glæsileg. Eina sem angrar er bavíanaskítur í klettunum, en það er nú bara partur af prógramminu. Nú þarf ég bara að léttast um nokkur kíló og byrja svo hvern dag á því að taka 50 armlyftur á fingrunum. Með aðra hendi í einu, vitanlega.
Halli er með einhverja magakveisu og er heima í dag, en er bara nokkuð hress. Janúar var alltaf þindarlaus pestarmánuður heima á Íslandi, en ekki saknar maður þeirra pesta. Hér fáum við bara moskítóbit í staðinn, en það hefur rignt á hverjum degi og hefur flugan aukist að sama skapi.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.