Að vera eða vera ekki.... feitur

Ég fór í bókaklúbb í morgun. Nytsemi hans helgast helst af því að hér er takmarkað úrval bóka í búðunum. Ég varð ákaflega ánægð þegar mér var boðið að taka þátt, enda er slegist um að vera með. Þessi söfnuður virkar líkt og bókasafn, þar sem sífellt fleiri bókum er safnað saman, og þegar meðlimir flytja burtu, taka þeir "sínar" bækur með. Og hér eru einmitt bækur sem maður er ekki að lesa á hverjum degi; margar um Afríku, frá Afríku, eða eftir afríska höfunda. Ég fékk mér stafla af bókum fyrir jólin, en ekki varð nú mikið úr lestri. Kannski get ég eitthvað bætt úr núna, en námið tekur tíma. Ég rétt náði að garfast í gegnum leyndarlíf býflugna fyrir daginn í dag. Dabbi fær nú tvær Stieg Larsson til lestrar, enda búinn með Yrsu sína sem hann fékk í jólagjöf.

Lunganum af gærdeginum var eytt úti á íþróttaleikvangi þar sem Halli og félagar hans úr skólanum voru að keppa á small schools athletics. Liðið var ekki fjölmennt, en þau stóðu sig með mikilli prýði, krakkarnir. Margir komust á verðlaunapall. Halli varð í þriðja sæti í langstökki og boðhlaupssveitin varð í öðru sæti, en þetta voru greinarnar sem hann keppti í þetta árið. Myndavélin var með í för, en batteríislaus, svo ekki varð neitt úr myndatökum. Ég stóð vaktina í tímatökum fyrir hlaupin, og grillaðist úti í sólinni.

Nú mallar gimbrarkjöt á eldavélinni fyrir kjöt og karrý í kvöld. Ég keypti þennan heljarinnar fjölskyldupakka af kjöti úti í búð áðan. Kjöt af lambi og veturgömlu er ákaflega ljúffengt hér og ekkert síðra því íslenska. Leja fær fituna og síðustykkin. Hún er alveg vitlaus í fituna en hana saxar hún í litla bita og sýður, svo er maukinu smurt ofan á brauð. Verður væntanlega svipað og hamsarnir okkar heima. Ekki beint uppskrift fyrir danska kúrinn, eða hvað? Leja er nokkuð sver um sig, og er alltaf að stækka (þetta styður fituflakkskenninguna hennar Kristínar Ástríðar). Enda varð sveitakonunni henni móður minni að orði þegar hún hitti Leju, eftir að hafa heyrt hvursu óskapar hungur hún hefði áður liðið: "ég get ekki skilið að þessi kona hafi nokkurn tímann liðið skort"

Reyndar las ég í einhverju ritinu að það lítur út fyrir að næstu hörmungar sem ríði yfir Afríku verði sykursýki 2, en nýrík, svört hástétt færist inn í neysluvenjur svipaðar þeim sem eru á Vesturlöndum með skyndibitafæði og tilheyrandi offitu. Hér takast reyndar á mótsagnarkennd gildi varðandi líkamsvöxt. Annars vegar á kvenfólk að vera mjótt eins og vestrænar fyrirsætur, og hins vegar með "hefðbundinn" vöxt. Horað fólk er litið hornauga, enda stundum gert ráð fyrir að fólk sé langt leitt af eyðni. Ein ráðskonan sem ég þekki hefur verið að grennast mikið og ég alltaf að hrósa henni fyrir hvað hún líti vel út. Ekki tekur hún því vel, hún segir með angist "ég skil ekkert í þessu, ég reyni og reyni að fitna aftur, en ekkert gengur. Ég borða fullt og reyni að hreyfa mig sem minnst, en samt er ég að mjókka!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahahah - já það er annaðhvort of eða van......ég er einmitt eitthvað að mjakast niður sem betur fer.....hvað felst í þessari fituflakkskenningu - ætti þá einhver nálægt mér að vera að fitna??? Bahhh hvað það er vonlaust - þar sem ég er nú ein í heimili!!!

sé að það er alltaf fjör hjá ykkur - hlakka til að koma í sólina í haust - þetta heldur manni gangandi ;o)

kv. frá ekkisvoköldum klaka í dag - og dagsbirtan orðin meiri og lengri meira að segja ;o)

Ása Dóra (IP-tala skráð) 12.2.2010 kl. 00:21

2 identicon

Já, fituflakkskenningin hennar Stínu gengur út á það að fitan sé constant, svo að ef einhver er að mjókka, þá fitnar einhver á móti. Þetta skýrir að sjálfsögðu af hverju maður fitnar bara sisona án þess að hafa nokkuð til unnið!

Það verður gaman að fá þig til okkar í haust!

Erla perla (IP-tala skráð) 13.2.2010 kl. 07:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband