Nafnið skapar manninn, eða hvað?
19.2.2010 | 06:10
Ég var niðri í ráðuneyti í gær að spjalla við mann og útskýra fyrir honum íslensku mannanafnahefðirnar. Honum fannst þetta alveg fyrirtak en jafnframt undarlegt að við hefðum þrjú fjölskyldunöfn í fjölskyldunni. Eitthvað af Owambofólkinu hefur svipaða hefð, svo að þetta kemur Namibíumönnum ekkert spánskt fyrir sjónir. Þessi umræða kom einnig upp í kvennaboði sem ég sótti eitt kvöldið í vikunni. Þar koma saman konur, baktala eiginmennina, spila hópspil og eta og drekka (nema náttúrulega ég sem er í vínbindindi og sú ólétta). Vegna þessarar óléttu var mikið talað um barneignir, og svo nafngiftir.
Tvær eru giftar mönnum af Owambo ættbálki. Önnur er bresk og hin er bandarísk. Hjá Owambo ræður afinn nafninu á barninu, foreldrarnir fá ekkert um það ráðið. Þetta er dálítið snúið fyrir vestrænar konur.
Fyrst fengum við söguna hjá þessari bresku. Eftir 20 tíma hríðir án verkjalyfja hvíslar eiginmaðurinn að henni (og hefur væntanlega haldið að hún myndi deyja) að hún fái bara alveg sjálf að ráða nafninu á barninu. Og svo kom barnið í heiminn og fékk drengurinn viðráðanlegt nafn.
Sú bandaríska hins vegar fæddi sitt barn og var stuttu síðar stödd í París þegar hún fær hringingu frá eiginmanninum.
Hann: elskan, ertu búin að heyra hvað drengurinn okkar á að heita?
Hún: nei, hvað?
Hann: N"#$$%#$&%&&/%"!#$$%& (ég get hvorki með neinu móti munað nafnið né skrifað það)
Hún: ha??? Heyrðu, þú verður bara að stafa það fyrir mig, sendu mér það í tölvupósti.
Hann: ehhh, umm.... ég veit ekki alveg.... heyrðu, ég verð að spyrja mömmu. Mamma, mamma! Hvernig skrifarðu...
Við hlógum að þessu vel og lengi, en sú breska hvað mest. Loksins gat hún stunið upp, þetta er einmitt nafnið sem minn strákur átti að fá!
Kemur nú umbeðin skýrsla af sölumanninum. Salan gekk svona glimrandi vel í gær. Halli sagði að Alex hefði nú verið betri sölumaður, ég er svona more like a business man. Þetta hefur hann væntanlega frá föður sínum, móðirin hefur nú smá sölugen í sér. Reyndar heyrðum við líka sögur af honum þar sem hann var að skamma Alex fyrir að halda sér ekki að verki. Hvaðan koma þau gen eiginlega? Krakkarnir voru með ótrúlegt úrval af vörum, allt frá baðsalti til gjafakorta, almanaka, póstkorta, taskna til leikfanga. Allt gekk vel.
Við erum að fara niður á strönd á eftir. Ég er með kvíðahnút í maganum eftir að þjálfarinn gaf mér hraðatölur, mér líður eins og ég sé aftur komin í barnaskóla að fara í landafræðipróf. Hún er reyndar fjarri góðu gamni, er á vetrarólympíleikunum í Vancouver. Ég er búin að vera að leita að nýjum hlaupaskóm, en þeir gömlu eru margrifnir um sólann og flatir eins og pönnukökur. Í stærstu búðinni var nokkuð úrval af hlaupaskóm fyrir konur. Í stærðinni 40,5 til 43. Ég sagði ásakandi við sölumanninn að þeir fengju bara afganga og rusl frá Suður Afríku. Þetta væri jú fyrir tröllvaxnar konur. Hann varð mjög sár, þvertekur fyrir þetta og segir að Angólamennirnir kaupi allt upp. Allt Angóla að kenna.
Í þessum aðstæðum hugsa ég alltaf til Villa sem segir bara huggandi, þú ert nú í Afríku, Erla mín. Ég hleyp bara á þeim gömlu, sumir hlaupa jú berfættir, svo að ég er nú ekkert of góð fyrir þetta.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:39 | Facebook
Athugasemdir
.....heyrðu já og það ku vera svona svakalega gott að hlaupa berfættur - við vesturlandabúarnir höfum nú samt allskyns úrræði til að hlífa dekurtáslunum okkar - ég fann allavega agalega fínar hosur í Bandaríkjunum, sem eru til þess ætlaðar - mér finnst þetta voðalega spennó - maður sleppur víst við megnið af stoðverkjum með því að hlaupa berfættur eða hérumbil !!!
ég henti mér by the way út að hlaupa í gær - mjakast aðeins í réttu áttina :D
Ása Dóra (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.