Kraftaverkabarnið vaknað
21.3.2010 | 19:08
Þá er kraftaverkabarnið hún Maureen loks vöknuð til lífsins. Hér er hún í sjúkrabeðinu. Hún var í dag flutt af Central Hospital yfir í spítalann í fátækrahverfinu Katutura. Ég fór með vinkonu minni, þeirri sem er að flytja til Ameríku, henni Liz, í heimsókn. Það fer nú ekki mjög gott orðspor af spítalanum. Þegar við komum, kom í ljós að lyfturnar voru bilaðar, en ég sagði nú huggandi við Liz, sem með léleg hné, stór um sig og komin af léttasta skeiði, að sem betur fer væri stúlkan í stofu 5A, sem myndi væntanlega þýða að hún væri á fyrstu hæð. Það kom reyndar í ljós að hún var á deild 5A, sem þýddi náttúrulega fimmta hæð. Ég var viss um að ég þyrfti að beita skyndihjálpinni á grey Liz þar sem hún var að burðast upp alla stigana. Það léttist ekkert á henni brúnin þótt að ég lýsti yfir að þetta væri hin besta æfing fyrir hjartað og meinhollt fyrir alla. Hún varð hins vegar hin kátasta þegar við fundum Maureen, því að hún er orðin hin sprækasta. Er farin að borða og drekka sjálf, talar smá, en er samt veikburða.
Við fundum einnig pabba hennar fyrir utan spítalann þar sem hann var að koma í heimsókn með fjölskyldunni. Þarna eru þau við rúmið, allir uppáklæddir að koma úr kirkjunni. Þar er mikið búið að vera við bænahöld, enda fólk strangtrúað. Maureen er yngsta barnið af fimm, en þau hafa þegar misst tvö, annað nú nýlega úr eyðni (sem var jú uppkomið svo að það kallast nú vart barn lengur). Það er mikið búið að mæða á fjölskyldunni síðustu vikuna, því að það var mjög tvísýnt með Maureen, en nú virðist hún vera á batavegi og öllum er létt. Pabbinn faðmaði mig óskaplega og brosti útundir eyru, með sínu tannlausa brosi.
Loks er mynd af okkur vinkonunum og kraftaverkabarninu. Mér var nú starsýnt á þessa fallegu stelpu, sem var svona lífleg, og svipaði ekkert til líflausa kroppsins sem við vorum að fiska upp úr lauginni fyrir rúmri viku síðan. Hún hvíslaði reyndar til skýringar í dag, að laugin hefði verið djúp. Ég hugsaði bara með mér að hún var ekki feig, blessuð stúlkan.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:38 | Facebook
Athugasemdir
Va Erla. Er buin að fylgjast mjög spennt með frasögninni af stulkunni. Var mjög hrædd um að ekki færi svona vel. En yndislegt að vita að þu hafir bjargað mannslifi með grunnskolaskyndihjalpinni þinni. Þetta er magnað. Sendi hamingjuoskir suður eftir til þin og allra sem þeirra sem malið varðar. Va!
Harpa og Adam (IP-tala skráð) 21.3.2010 kl. 22:38
Já þetta er ótrúleg saga, bara frábært að þessi gamla skyndihjálp skuli enn nýtast. Svo verðum við nú að gera eitthvað í þessu arma baki þínu þegar ég kem, gengur ekki að hafa þig annað hvort að sulla í þig pillum eða hlaupa í klukkutíma til að verða sæmileg!
Sjáumst :)
Siva (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 17:26
Harpa, ég tek hér með á móti hamingjuóskum, stúlkan er kölluð Maureen the miracle í fátækrahverfinu og kirkjunni, sem á vel við.
Siva, bakið angrar mig ekki oft en þá er það slæmt, og þá tek ég lyf. Ég er rétt að skríða saman núna, og þá verður það gott í lengri tíma. Fór til kiropraktors, sem bætir nú alltaf. Hlakka til að fá meðferð þegar þið komið!!
Erla perla (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 17:57
Frábær viðbrögð, Erla mín! Mjög góð tilfinning að vita að gerðir manns skiptu sköpum fyrir líf annars, til hamingju með þetta.
Tek undir það að skyndihjálparnámskeiðið góða þarna um árið lifir ágætlega í minningunni þótt það geti virst djúpt á því, þarna varð greinilega til undirstöðuþekking okkar sem tókum þátt. Ég losaði eitt sinn bita úr hálsi dóttur minnar sem var komin nærri köfnun með þeim aðferðum sem þar lærðust. Annars er ég sannfærð um að Kalla þætti vænt um að vita af þessu og myndi án efa nota þessa dæmisögu við leiðbeinendastörf sín!
Hanna (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 09:57
Mikið er gott að heyra að þetta virðist vera á réttri leið með hana Maureen Erla mín og örugglega góð tilfinning að hafa bjargað mannslífi!
Hafið það gott þarna syðra :)
Bestu kveðjur.
Árný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 19:54
Takk fyrir kveðjurnar. Já, þetta er alveg frábært.
Hanna, frábært að þetta hefur nýst þér vel líka. Ég sendi einmitt Kalla línu og hann notaði söguna á síðu Rauða Krossins. Man einmitt hvað það kryddaði að heyra sögur á skyndihjálparnámskeiðinu, kannski er það ástæðan fyrir því að maður man þetta svona vel. Ég sagði einmitt við manninn sem kom að á réttri stundu spurði hvort að hann ætti að hefja hjartahnoð, að hann ætti að hefja það strax og að ýta fast! (ég mundi einmitt af námskeiðinu að margar tilraunir til hjartanhoðs eru gagnslausar því að fólk þorir ekki að beita nógum þrýstingi). Og annað - það er ótrúlega líkt að blása í manneskju og í dúkkuna góðu sem við notuðum hér um árið!
Kærar kveðjur til ykkar allra
Erla perla (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.