Lyfjaglaði læknirinn

Ég er búin að liggja flöt með einhvern magavírus síðustu daga. Eftir því sem maður verður veikari, finnur maður í huganum nýja sjúkdómsgreiningu, þetta byrjar frekar rólega og vindur svo upp á sig; gubbupestin (sem Óskar var með í síðustu viku) - taugaveiki - kólera - malaría - lifrarbólga (eftir munn-við-munn aðferðina og útrunnar bólusetningar) - einhver hræðilegur óþekktur sjúkdómur sem ég náði í eftir spítalaheimsóknina með allt dauðvona fólkið þar.... (Munið  að maður hefur rökhugsunina ekki alveg í lagi, og því hafa einkenni ekkert með greininguna að gera). Ekki bætti úr skák að eftir hræðilega nótt og erfiðan dag fór ég að horfa á þáttinn um lækninn House.  Þar er fólk gjarnan sett inn á spítala með minniháttar einkenni, sem margfaldast næstu sólahringana og þarf svo ítrekað að ganga í gegnum vítishvalir áður en lækning er fundin, nema hvað sumir deyja.  Ekki er hollt fyrir sjúkt fólk að horfa á slíkt.

Þetta bjargaðist nú allt hjá mér því að ég fór til lyfjaglaða læknisins okkar, sem er rauðhærður nörd sem er af þýsku bergi brotinn. Hann sérlega áhugasamur um allt sem íslenskt er, og finnst íslenskan t.d. vera sérstaklega heillandi. Íslendingar tali líka svo mörg tungumál. Ég jánka því með semingi, því að hann tjáir sig jöfnum höndum á afrikaans, þýsku og ensku, auk fleiri tungumála sem ég kann ekki að nefna. Hann gaf mér býsnin öll af lyfjum, auk þess að reka sprautu í mjöðmina á mér sem rak alla ógleði út á hafsauga. Setti mig reyndar líka í hlaupa- og líkamsræktarbann í heila viku, en ég var svo veik að ég var ekki viss um að geta hvort eð er hreyft mig nokkuð framar í lífinu, svo að ég var ekkert of miður mín vegna þess. Hann var náttúrulega mjög hrifinn af því að hafa eldgos á eyjunni okkar í alþjóðafréttunum.

Dóttir vinkonu okkar fékk einnig magapest þegar hún fór heim til Portúgal síðast. Ohhh, þessir vestrænu læknar.. sagði vinkona mín. Þeir eru svo hamingjusamir að fá ný tilfelli og sérstaklega fólk sem kemur frá Afríku að þeir hreinlega titruðu af spenningi. Greindu hana undireins með kóleru og settu í sóttkví. Ég þurfti að fara sjálf inn á deildina og segja þeim að taka sér tak, og tók hana svo bara með mér heim.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

oh kannast við þetta, á við svipað Munchausen syndrome að etja. Ég var í praktík á hjartadeild í síðustu viku, og er "búin að fá" milljón blóðtappa í hjartað síðan!!!! 

God bedring søde ;)

Dísa (IP-tala skráð) 30.3.2010 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband