Núna, núna!
17.4.2010 | 14:14
Merkilegur þessi afríski tími. Ég botna hvorki upp né niður í honum. Línulaga, hringlaga, hvernig sem það er. Leja getur ekki skilið að það sé ekki góð hugmynd að ferðast 500 km. út úr borginni á sunnudegi, þegar hún á að vinna á mánudegi. Sunnudagur er sunnudagur og þá er frí. Enda er áætlanagerð víða ábótavant. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig ástandið er á iðnaðarmönnum, sem hafa þetta einstæða tímaskyn sem iðnaðarmenn um allan heim deila, þegar svo afríski tíminn bætist þar ofaná.
Útkoman úr grunnskólaprófunum var hrikaleg, þrátt fyrir að vonir stæðu um að útkoman yrði örlítið skárri en í fyrra. Hún var sérstaklega slæm í Kavango héraði þar sem héraðsstjórinn kom í sjónvarpinu og var sérstaklega búinn að greina ástæðurnar. Það þyrfti að gera sérstakt átak í því að láta kennara, og svo líka nemendur mæta í skólann. Takið eftir að kennararnir koma fyrst. Sama vandamál er hér á háskólastigi. Kennararnir geta ekki mætt, og kenna margir afrískum tíma um.
Afrískur tími kemur einnig fram í talmálinu. Hér er aðeins öðruvísi skilningur á "núna". Það er ekki núna eins og við þekkjum. Ef þú ætlar að segja núna í Namibíu, þá segirðu frekar "núna, núna", eða "now, now". "Ég er að fara núna núna". Það þýðir frekar núna, ekki á eftir, ekki í kvöld, ekki á morgun, ekki seinna, ekki einhvern tímann.
Vinkona mín var að koma úr brúðkaupi nú rétt áðan. Mætti í kirkjuna á settum tíma og var að undra sig á hvað fáir væru mættir (hún er þýsk, svo að þið getið ímyndað ykkur andstæðurnar). Svo leið og beið í þrjár klukkustundir, og ekki var brúðurinn mætt. Brúðguminn var reyndar mættur á staðinn, svo að þetta mjakaðist allt í rétta átt. Vinkona mín hvarf frá vegna svengdar og ákvað frekar að fá sér hádegismat með eiginmanninum, sem hafði ætlað að fara til Evrópu en flugið hans frestaðist vegna eldgossins okkar. Brúðurinn var á leið til kirkju þegar vinkona mín var að fara frá kirkjunni.
Við höfum fylgst agndofa með fréttum frá Fróni. Á flugvelli einum í Bretlandi var tekið viðtal við önnur nýbökuð brúðhjón. Brúðirin hékk hágrátandi (hryllileg sjón, grátbólgin og vælandi, það hvarflaði að mér að manngarmurinn hlyti að vera með smá bakþanka) utan á eiginmanninum, en þau höfðu átt bókað flug til Mexíkó til að fara í brúðkaupsferð. Núna núna. Fólk er orðið svo vant því að nútímatæknin færi því allt sem það vill núna núna, og á bágt með að skilja að móðir Náttúra fari enn með völdin. Generation now, eins og segir í laginu góða. Þetta eru trúlega hinar öfgarnar við hinn afríska tíma. Á Íslandi var annað hljóð í fólki. "Þetta eru náttúruhamfarir og ekkert við því að gera". Það er ágætt að Íslendingar haldi enn tengslum við veruleikann.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:30 | Facebook
Athugasemdir
Eg vaeri samt alveg til ad komast heim NUNA en ekki vera fost med enga peninga i kuala lumpur.
Magga fraenka (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 06:27
Já, þetta er erfitt ástand fyrir marga, en þú gætir nú verið á verri stað. Skelltu þér bara til Tioman í nokkra daga í afslappelsi á yfirdrætti, getur líka nýtt köfunarkunnáttuna og workað tanið...
Erla perla (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 10:31
Svo rétt Erla og þörf áminning. Vel skrifað, alveg dásamlegur penni þú ert
Inga Dagmar (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 14:05
Hehe i wish tharf ad vera herna i borginni ef teir skyldu allt i einu akveda ad fljuga. Annars vaeri eg enntha a ko phi phi i taelandi. Vid erum ad gista herna i kakkalakka holu i tessari borg sem eg er buin ad fa mig fullsadda af, vaeri nuna frkar til i ad vera i laugardalnum minum bara held eg...
Magga (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 07:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.