Glæpavaktin

Í hlaupunum var alltaf fastur liður að gefa stöðu mála af glæpum borgarinnar, á mánudagsmorgnum. Hér eru sífelld innbrot, enda er mikill viðbúnaður, alls staðar rimlar fyrir gluggum, gadda- og rafmagnsgirðinga, þjófavarnarkerfi og stundum vaktmenn. Ein vinkona mín var með einn slíkan, enda er eiginmaðurinn mikið að ferðast og hún ein heima með tvö stálpuð börn. Þegar hún var búin að koma að honum þrisvar þar sem hann var að nýta sér útisturtuna um miðja nótt, þá var vaktmanninum sagt upp. "Hvernig á hann að vera að handsama innbrotsþjófa, svona berrassaður og allur löðrandi í sápu?" Það eru kannski ekki margar góðar sturtur í fátækrahverfinu, svo að hann hefur verið glaður að nýta sér tækifærið og fá sér góðan þvott. 

Það eru margir sem að telja að öryggisfyrirtækin séu gjarnan veikasti hlekkurinn í öryggi borgaranna, þeir vakti húsin og viti staðhætti. Þetta fyrirtæki sem hafði sent gæslumanninn til vinkonu minnar hefur nú verið lagt niður, þar sem tveir starfsmenn skutu eigandann og drápu þegar hann var að koma með útborgunina fyrir mánuðinn til að borga út.

Önnur kona sem ég frétti af var orðin langþreytt á innbrotum, enda búið að brjótast þrisvar sinnum inn í húsið hennar á jafn mörgum vikum. Og eiginmaðurinn alltaf í burtu. Sú fór og fjárfesti í byssu. Gleymdi reyndar að fá kennslu í að skjóta. Og viti menn, þá var brotist inn um miðja nótt og hún réðst til atlögu við þjófinn sem átti fótum fjör að launa. Nú getur hún stolt sýnt gestum holur í veggjum eftir byssukúlur, sem eru reyndar ekki í neinu samræmi við för þjófsins. Maðurinn hennar gerði byssuna samstundis upptæka, og þakkaði reyndar fyrir að frúin hefði ekki verið betur þjálfuð því að hún hefði efalaust murkað líftóruna úr einhverjum ógæfumanni úr fátækrahverfinu þar sem hann var að flýja út garðinn.

Það er skeinuhætt að vera yfirmaður. Vinur okkar átti ekki í baráttu við innbrotsþjófa, heldur við undirmenn sína. Hann er yfir starfsemi alþjóðlegs námufyrirtækis í Namibíu sem stendur í leit að góðmálmum. Hann hafði tekið eftir að undirmennirnir voru fingralangir, og var farinn að skrá hvað hvarf og þess háttar til að safna gögnum til að geta skotið málinu til lögreglu. Undirmennirnir fengu hins vegar pata af þessu og vildu náttúrulega redda málum. Þeir stungu maríhjúana undir bílsætið hjá honum þegar hann var á leið til borgarinnar. Hann vissi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið þegar floti lögreglumanna tók á móti honum á næsta lögreglustoppi (starfsmennirnir höfðu sumsé hringt í lögregluna til að vera vissir um að dótið myndi finnast). Honum var stungið í fangelsi, og var ansi brugðið, og lætur sé þó fátt fyrir brjósti brenna. Málinu er nú að ljúka með lítilli sekt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband