Gestir komnir óhultir úr öskuskýinu

Gestirnir okkar, Siva og Jói eru komin í hús og búin að þvælast hingað og þangað í nágrenni borgarinnar. Komu þeirra seinkaði bara um einn dag vegna ösku, og þykir það nú nokkuð gott. Þau eru að aðlagast vel, enda er veðrið svalt og lítil fluga. Siva leit vel út í morgun þar sem hún skeiðaði upp götuna með piparsprey í hendi í morgunskokkinu, og núna er parið niðri í bæ. Á morgun förum við öll í ferð til Kunene að skoða vatnsmál og þá niður til strandar, með Helgrindarströnd, en þá leið hef ég aldrei farið. Núna er ég að undirbúa brottför því að við verðum að vera tilbúin í fyrramálið.

Ég er búin að vera á hlaupum í morgun, koma drengjunum í skólann, kaupa inn fyrir heimilið, fara í frönskutíma, taka viðtal og fara með Óskar til læknis annan daginn í röð. Við hjónin erum nú byrjuð í frönskutímum til að dusta rykið af því tungumálinu. Það er bráðskemmtilegt, en kennarinn er frá Kongó. Ég var staðföst í þeim áætlunum mínum að byrja tungumálanám þegar ég flutti hingað, og svo eru tvö ár liðin áður en maður veit af, og frönskukunnáttan jafn slök og í byrjun. Nú á að bæta úr, enda eins gott því að Halli er að verða nokkuð sleipur í frönsku og þá er nú ágætt fyrir foreldrana að geta spjallað við hann með eilítilli reisn.

Í búðinni rakst ég á kunningjakonu mína sem er að fara að flytja til Mongólíu. Nú erum við búin að vera nógu lengi hér til að sjá á eftir fólki úr alþjóðasamfélaginu, en þessi hópur flytur á 2ja til 4ra ára fresti og vinnur gjarnan í ólíkum heimshlutum. Enda er hér bráðgaman í samkvæmum því að maður nær að kynnast fólki sem hefur búið á öllum útkjálkum alheimsins. Næstu vinahjón fara með sumrinu en þau flytja til Kaíró.

Halli er að gera þetta heljarinnar verkefni fyrir bekkjarsýningu í skólanum, en hann tekur fyrir Grænland, umhverfismál og endurvinnslu. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir verkefninu, enda þurfti hann að ljúka mestu nú áður en við förum í ferðalagið því að sýningin er daginn eftir að við komum til baka. Ég mun festa árangurinn á filmu. Ég hef einnig verið vakin og sofin yfir mínu verkefni, og því er slegist um tölvuna. Við vorum svo hagsýn að við endurnýjuðum bara eina tölvu af tveimur eftir að þeim var stolið, en við verðum reyndar að bæta úr því fljótlega. Ég set nú ekki inn færslur í rúma viku - óbyggðirnar kalla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

úúú næs kunene! góða ferð og góða skemmtun :)

Magga (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband