Komin í kuldann
5.5.2010 | 10:59
Við erum komin aftur til kuldans í Windhoek, en á ströndinni var að mestu leyti bara sæmilega heitt. Þar vorum við í þrjá daga, en við gistum í íbúð á Lönguströnd, sem er byggð milli Walvis Bay og Swakopmund. Við hjónin fórum út að hlaupa í hálfkaraðri byggð, þar sem mörg húsanna standa mannlaus eða eru til sölu. Svo eru söluskilti á mörgum lóðum og á einstaka stað myndir af háhýsabyggð sem einhvern tíma hefur verið áætluð en ekki komið til framkvæmda. Við fengum hálfgerða heimþrá.
Siva og Jói héldu síðan áfram niður til Soss og við til borgarinnar þar sem vinna og skóli beið allra. Þeirra ferð var sumsé tveimur dögum lengri. Ferðin var ánægjuleg í alla staði, við fjölskyldan eyddum einum degi að fylgjast með vatnsborun ekki langt frá Opuwo, sem var alveg geggjað (þ.e. ef fólk hefur áhuga á vatni). Á meðan fóru Siva og Jói í ferð til Epupa falls. Svo var farið í vatnsferð til Himbanna og ég tók kostulegt viðtal við starfskonu Rauða Krossins í Opuwo fyrir rannsóknina mína, sem ég var að ljúka við að hlusta á.
Svo keyrðum við niður allt Damaraland þar sem við sáum fíla, sebrahesta og antílópur úti í guðsgrænni náttúrunni. Þaðan var farið til Helgrindarstrandar og keyrt niður hana alla leið til Swakop. Ansi var hún strembin dagleiðin sú. Vinafólk okkar er að fara þessa leið eftir tvær vikur og hefur boðið okkur með. Við erum nú ekki mjög spennt fyrir því, enda verður fólk að vera með brennandi áhuga fyrir eyðimörk til að njóta þriggja tíma keyrslu þarna í gegn. Eina sem braut upp daginn var að það sprakk á bílnum hans Dabba, og hjólbarðinn tættist nánast af. Enda er það algeng sjón með vegum landsins sundurtættir hljólbarðar.
Ég set inn myndir við tækifæri. Nú sit ég heima við, við vinnu, og í kvöld er umhverfissýningin hjá bekknum hans Halla. Hann er búinn að útbúa kynningu sem á að fá heimsbyggðina til að hætta að menga, til þess að bjarga öllum ísbjörnum jarðarkringlunnar.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:05 | Facebook
Athugasemdir
Æ hvað það er nú alltaf gaman að fylgjast með lífinu ykkar þarna fyrir sunnan Erla mín. Bestu kveðjur til ykkar í kuldann - úr ausandi rigningu og 7 stiga hita hér í Þýskalandi.
Árný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 06:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.