Sár og tár
22.5.2010 | 15:58
Halli fór í gær með nesti og nýja skó í survival camp sem standa yfir helgina. Í framtíðinni mun trúlega hann byggja sér hreiður niðri í garði, lifa nakinn en málaður í felulitunum með leir úr náttúrunni, og veiða sér til matar þar og elda sjálfur við opinn eld. Kannski getur hann þá drepið hund nágrannanna fyrir Dabba, sem er lítill gaur sem er að gera alla vitlausa með gelti, en þó sérstaklega Dabba. Kvikindið verður alveg brjálað ef Dabbi er nokkuð á stjái úti við. Halli hefur margsinnis boðist til að skjóta hann með loftbyssu, en pabbi hans afþakkað pent. Loftbyssur eru vinsæl leikföng hjá krökkunum hér, en Halli hefur ekki náð að kría slíkt út úr foreldrunum, þrátt fyrir að við sjáum nú að þetta gæti nýst ágætlega. Erik vinur hans á eina, og skaut hann Halla í rassinn við mikla lukku.
Björn Páll tók rútuna til Maun í gærmorgun, með nesti en enga nýja skó. Hann fékk allra hæstu einkunn sem gestur hjá Dabba sem sagði; það er bara ekkert vesen á honum, já, bara nákvæmlega ekkert. Í Dabbalandi þykir þetta framúrskarandi.
Við Davíð erum því orðin eins og evrópsk vísitölufjölskylda og fórum með litlu gaurana tvo á kaffihús í morgun þar sem er skemmtilegt leiksvæði, til að leyfa þeim aðeins að hreyfa sig og leika. Ekki vildi betur til en að Stebbi gekk aftur á bak niður af stalli, þar sem hann hafði verið að ýta bróður sínum í rólu. Skall með andlitið í múrstein og fékk gat fyrir neðan neðri vörina. Blæddi ótæpilega.
Við æddum með hann á slysó, enda var sárið hrikalegt innan í munninum, en mun betra að utan. Fyrir eitthvað kraftaverk sluppu allar tennur og kjálkinn. Læknarnir tóku ekki annað í mál en að svæfa hann til að púsla þessu saman, og er ég því búin að eyða deginum niðri á spítala. Nú er sjúklingurinn kominn heim með merki um hendina sem á stendur "master Davidson", fjögur spor utantil og sjö innan til. Hér er mynd af honum þar sem hann reynir meira að segja að kreista fram bros fyrir ykkur, með smá tár á hvarmi. Læknarnir voru alveg frábærir og Stebbi stóð sig eins og hetja.
Nú eru verkjalyfin sumsé farin að virka, sem er nokkuð áhugavert. Hann er kominn með sólgleraugu af mér, elti Óskar um allt hús (móðirin rak lestina hrópandi: almáttugur, Stebbi, þú ert lasinn, viltu gjöra svo vel að setjast niður og slappa af!), hrakti hann upp í hjónarúm og barði hann svo eins og harðfisk. Óskar er búinn að lofa að vera góður við bróður sinn og tekur því barsmíðunum eins og fyrirmyndar píslarvottur. Stefán er kannski aðeins eins og elsti bróðirinn sem verður alveg kolvitlaus af verkjalyfjum? Ég sé aldeilis fram á áhugaverða tíma, annað hvort verður hann vælandi af verkjum eða trylltur út um allt hús.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:06 | Facebook
Athugasemdir
Æji aumingja Stebbi - eða ætti ég kannski frekar að segja aumingja Óskar hinn lúbarði? Vonandi þarf Stebbi ekki að vera marga daga á verkjalyfjum ef þau virka svona, það færi nú alveg með foreldrana líka. Og mikið skil ég Dabba vel að vilja láta vaða á nágrannahundinn, alveg óþolandi kvikindi, merkilegt að einhver nenni að eiga þetta.
Glampandi sólskin hér í dag, drifum garðhúsgögnin út í þeirri von að sumarið verði allt svona sólríkt, Jói skellti sér meira að segja úr bolnum, er annars farinn að flagna all verulega eftir brunann mikla :)
Knús og kossar til allra, Siva og Jói
Siva (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 17:45
Fjuff, þetta er rosalegt.
Harpa Rut (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 00:11
Æ, æ aumingja Stebbi. Hann á næstum alla okkar samúð hérna í Stuðlaselinu, en pínu lítið af henn fær samt Davíð. Hér í næsta hús er greinilega komið hundspott, sem geltir eða vælir í tíma og aðallega ótíma. Davíð hefur því eitthvað að hlakka til þegar hann kemur heim.
Ástarkveðjur til allra, sem ekki fá samúðarkveðjur.
Afi Bjarni (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 20:51
Takk fyrir allar kveðjurnar!
Erla perla (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.