Skálkaskjól
27.5.2010 | 07:37
Maður spekúlerar stundum í hvernig sé að vera eftirlýstur glæpamaður. Jafnvel íslenskur. Hvert á að flýja arm réttvísinnar þegar maður á nóga peninga? -Í bíómyndunum eiga glæponarnir oft ánægjulegt ævikvöld í Brasilíu, sem ku vera hinn besti staður til að búa á við góð efni. Ísland er hins vegar nýbúið að framselja til Brasilíu forhertan glæpamann. Er ekki hægt að búast við því að Brasilía geri hið sama fyrir íslensk stjórnvöld? Einhvert annað þyrftu íslenskir glæponar að fara. Kannski til Namibíu?
Einhver kunnasti hvítflibbaglæpon heims notar Namibíu sem skálkaskjól. Ein kunningjakona mín hér er eiginkona hans, en hann náði þeim stórmerka árangri að velta Osama Bin Laden úr sessi sem efsta manni á lista alríkislögreglunnar yfir eftirsóttustu glæpamenn í Bandaríkjunum. Hann hefur reyndar klifrað niður listann síðan (svo eru þeir reyndar með sér lista fyrir hvítflibbaglæpi), en er engu að síður mjög þekkt nafn. Sá er ísraelskur sem kom undan gífurlegum fjárhæðum áður en til hans náðist. Hann flúði heim til Ísrael. Framsalssamningur er í gildi milli Ísrael og Bandaríkjanna og því getur hann ekki þrifist þar. Þá kom hann til Namibíu með fjölskyldunni, en namibísk stjórnvöld neita að framselja hann til þeirra bandarísku, sem eru ekki par hrifin. Hann verður að halda sig innan landsins, en gefur reglulega fé til hinna fátækari, eins og með styrktarsjóði fyrir námsmenn í tækni og vísindum. Hann er líka með fyrirtæki hér, og byggir ódýrt húsnæði handa hinum tekjuminni.
Hér er gott veðurfar, flest nútíma þægindi og sveigjanleg stjórnvöld. Hins vegar hygg ég að það verði frekar einhæft að eyða öllu lífinu hér. Það er hægt að ferðast hér innanlands í nokkur ár, en það verður dálítil lumma þegar til lengdar lætur. Hins vegar er auðvelt að koma krökkunum til mennta og dunda sér við ólík verkefni, og efalaust betra en að eyða ævikvöldinu í bandarísku alríkisfangelsi. Það þarf bara að gera svona meðogámóti lista ef að staðan kemur upp. Amk er Namibía betri kostur en margir aðrir staðir á jarðarkringlunni.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.