HM í Suður-Afríku að skella á

Nú er kominn taugatitringur í alla hérna megin á jarðarkringlunni. Niðurtalning á HM er í fullum gangi, og mikið spáð og spekúlerað. Margir hafa áhyggjur af öryggismálum, og sérstakt öryggislið hefur t.d. verið þjálfað til að sjá um enska stuðningsmannaliðið, því að sögn sýna þeir hegðun sem fólk í Suður-Afríku skilur hvorki upp né niður í, og því þarf öryggisliðið að fá sérstaka þjálfun. Það er hið besta mál. Jacob Zuma forseti hefur ítrekað beðið landsmenn um að sýna sínar bestu hliðar á meðan á keppninni stendur.

Þetta kemur í kjölfar morðsins á Eugene Terreblanche í byrjun apríl, sem var hvítur öfga hægrimaður og alræmdur kynþáttahatari. Hann stofnaði Afrikaner Resistance Movement (AWB), eða frelsishreyfingu Afrikaaner, sem vildi færa landið aftur í hendur Búa.

Ungliðahreyfing stjórnarflokksins ANC (African National Congress) var fyrir dómstólum bannað að nota baráttusöng sinn úr frelsisbaráttunni, "kill the boer" eða "kill the farmer" (boer er hollenska orðið fyrir bónda, og vísar einnig til fólks af hollenskum uppruna, eða fólks sem talar afrikaans). Vinnumenn Terreblanche hjuggu hann til bana með sveðjum þegar hann fékk sér síðdegisblund. Hann var persónugervingur hinna hvítu bænda, og margir sem töldu að baráttusöngurinn hefði fengið vinnufólkið til að taka upp sveðjurnar.

Staða hvítra hefur einnig nokkuð verið í kastljósinu, og margir sem færa fyrir því rök að kynþáttastefna haldi áfram í Suður Afríku, nú á kostnað hvíta minnihlutans sem er af hollensku bergi brotið, búanna, eða Afrikaaners. Fyrir áhugasama, þá er hér stutt heimildamynd um hvernig fátækrahverfin eru að fyllast af hvíta fólkinu sem áður var í opinberum störfum.

  

Ekki er staðan betri fyrir hvíta bændur. Fyrir nokkrum árum rannsakaði hollenskur blaðamaður stöðuna fyrir hvíta bændur í Suður Afríku, og lýsti þeim sem hópi í útrýmingarhættu, þar sem 264 af hverjum 100.000 væru myrtir, sem væri hæsta hlutfall í heiminum. Eins og víðar, hefur hugtakið hljótt þjóðarmorð verið notað yfir þessa atburði.

Ein vinkona Dabba á systur sem hefur átt býli í Suður-Afríku. Þau eru nú að gefa búskap upp á bátinn og flytja í burtu. Ástæðan er sú að vopnað lið hefur þrisvar sinnum ráðist á býlið. Þessir hópar svartra eru þungvopnaðir og skjóta á hvað sem fyrir verður. Bændurnir eru jafnframt þungvopnaðir og svo kemur hreinlega til skotbardaga eins og í bíómyndunum. Allir þurfa að grípa til vopna. Hún sagðist ekki geta boðið börnunum upp á slíka barnæsku, að þurfa að grípa til byssunnar og skjóta út um stofugluggann, til að halda lífi.

Hér er myndband sem sýnir nokkra baráttusöngva svartra, þ.m.t. sönginn fræga, úr jarðaför, alveg í lokin.

Því er ekki nema von að suður-afrísk stjórnvöld séu með áhyggjur. Nú er verið að rannsaka tölvupóst sem hefur að ganga á milli manna, þar sem hver svartur er hvattur til að drepa amk. 10 hvíta á meðan á keppninni stendur (ég hef þetta nú bara úr útvarpinu og sel ekki dýrara en ég keypti). Og það eru ekki bara innanbúðarmál sem angra stjórnvöld, því að fregnir hafa borist af áætlunum um hryðjuverk, og hafa bandarísk stjórnvöld nú varað sitt fólk við að fara á leikana.

Nú er bara að bíða og sjá hvort að allt fari ekki friðsamlega fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband