Vettvangsferð til Omaheke héraðs
4.6.2010 | 06:26
Við Björn Páll fórum í vettvangsferð til Gobabis í Omaheke héraði um daginn þar sem ég ræddi við fólk á skrifstofu vatnsmála, heimsótti skrifstofu úti í sveit og skoðaði að auki eitt vatnsból. Við fórum með yfirmanni þeirrar deilda starfsmanna sem starfa með fólkinu að vatnsmálum. Sá var bráðskemmtilegur og dældi upp úr sér fróðleik á meðan við keyrðum út í sveit. Hann er Herero, sem halda búfénað. Hann var óskaplega ánægður að ég skyldi vera úr sveit. Svoleiðis fólk hlyti að skilja hvað skepnur væru mikilvægar, svo að við sameinuðumst í kærleik okkar til búfénaðar og bárum saman búskaparhætti milli Namibíu og Íslands. Hann hafði margt skemmtilegt fram að færa.
"Sko, Oshiwambo fólkið, það er ekki eins þróað og við Herero. Við erum með nautgripina okkar, við elskum nautgripina okkar. Og við virðum konur. Ekki eins og Oshiwambo, sem lætur konurnar gera alla vinnuna. Þannig að við erum miklu þróaðri en þeir." Það kom upp úr kafinu að Herero með sjálfsvirðingu á að eiga amk. einn nautgrip fyrir hvert ár sem hann lifir, þannig að fimmtugur maður á að eiga amk. fimmtíu nautgripi. Ekkert minnst á konur núna. Eftir að hafa ýtt á hann, sagði hann mér að hann ætti um 90 nautgripi. "Ég verð að fara að slátra, það er heldur ekki gott að eiga of mikið. Betra að eiga peninga í bankanum sem fólk veit ekki um, þá er maður ekki að sýnast um of." Þetta er efalítið dæmi um stjórnun náttúruauðlindar af hefðasamfélaginu, þar sem menning takmarkar ofnýtingu auðlinda; ef fólk safnar ekki búfénaði (sem er merki um stöðu þína í samfélaginu) út í hið óendanlega, þá getur allt samfélagið nýtt vatn og beitarland í sameiningu. Kynslóð eftir kynslóð.
Í héraðinu eru einnig semfélög og hópar San fólks, eða búskmanna. Gæslumaður vatnbólsins sem við heimsóttum var einmitt San, sem brosti út að eyrum svo að skein í brúnar tennurnar, þegar ég sýndi honum myndirnar sem ég var búin að taka af honum. Konan á myndunum er formaður vatnsnefndar. Þau voru mjög ánægð að fá að svara spurningum, og stolt af vinnunni sinni. Ég spurði vin minn frá vatnsmálaskrifstofunni spurninga, hann talaði við konuna á Herero, og hún spurði svo gæslumanninn á San tungumáli. Hér koma svo myndirnar.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.