I am from Namibia, and also from Iceland!

Í búðinni áðan spurði afgreiðslukonan okkur hvaðan við værum. Stefán svaraði "from Namibia and also from Iceland!". Hún varð að vonum ákaflega hrifin af honum. Hann hefur jú búið lengstum hér úti, svo að það verða viðbrigði fyrir hann að flytja heim á Frón. Það voru margir sem tóku okkur fagnandi þegar við snerum aftur eftir frí. Öryggisvörðurinn hjá búðinni okkar sem ég spjalla stundum við, með byssuna um herðarnar, greip hendurnar á mér og hrópaði "how are you my sister!!! It has been a long, long time!!"

Hér gengur lífið sinn vanagang. Halli er að læra marga nýja hluti í unglingadeildinni og getur uppfrætt áhugasama um controlled variables, dependent variables og independent variables í tilraunum. Skólinn er nokkuð strangur og krakkarnir fá refsistig ef þau fara útaf beinu brautinni, sem að lokum leiðir til brottrekstrar úr skóla. Einn bekkjarfélaginn var úrræðagóður í gær og klippti skálmarnar af buxunum sínum, því að hann á að koma í stuttbuxum í leikfimi. Það leið yfir aðra í science lab þar sem hún andaði að sér framandi gufum.

Við fórum niður í bæ í morgun að spóka okkur. Miðbærinn er aðlaðandi og við átum ís í grænum garði þar sem strákarnir léku sér í leiktækjum. Nú er vor í lofti og veðrið yndislegt. Engar flugur ennþá. Garðinn má sjá frá skrifstofunni hans Davíðs. Þegar ég heimsótti skrifstofuna í vikunni var þar Okavango fólk að sýna dansa og berja trumbur, sem var skemmtilegt að sjá. Annan daginn var þar predikari rammfalskur að baula bærnir og sálma í hátalarakerfi, við undirspil frá kasettutæki. Allan liðlangan daginn. Davíð var að vonum ekki eins ánægður með það.

Ex pattarnir, eða alþjóðaliðið úr vinahópnum okkar er að tvístrast út um allar koppagrundir. Argentínufólkið er að fara til Úrúgvæ, hlaupaþjálfarinn er flutt til Þýskalands, Brasilíumennirnir til Mongólíu, Portúgalarnir til Egyptalands og Pólverjarnir til Kanda. Og þá er ekki allt upptalið. Þegar maður er búinn að búa einhvers staðar í yfir tvö ár, þá sér maður þessa flutninga. Flestir eru á hverjum stað í tvö til þrjú ár. Þá er flutt aftur. Eins er með okkur, en margir sem að vilja halda í okkur. Leja á þó væntanlega eftir að sjá mest eftir okkur. Við höfum unnið í því að tryggja henni góða afkomu þegar við förum, en hún hefur kosið að koma á fót barnaheimili. Hún er þegar farin að vinna í undirbúningi þess, og mun fá stuðning frá okkur, leikföng, bækur og fleira, til að gera fyrirtækið rekstrarvænlegt.

Í þessum undirbúningi fór hún að ná í sand fyrir garðinn sinn, fyrir leiksvæði fyrir börnin. Hann var að finna í nálægum árfarvegi og fékk hún félaga sinn með pallbíl til að aðstoða sig. Þegar hlassið var komið á pallinn, birtist lögreglan. Í þessu landi er svo lítið af mörgu. En ekki sandi hins vegar. Við erum með þúsundir ferkílómetra á þúsundir ofan af sandi hér. Hún var þá sektuð fyrir að stela eign hins opinbera. Þetta fannst okkur vera nokkuð öfugsnúið. Hún þarf að mæta fyrir rétt í janúar til að borga 150 dollara. Ef hinn pólski félagi minn hefur eitthvað til síns máls, þá verða málsskjöl væntanlega týnd í janúar. Hann var ranglega handtekinn fyrir að vera með fíkniefni (sjá fyrri færslu). Hann var í dómshúsinu í tvo daga og fylgdist með. Flest málin voru felld niður því að gögn voru týnd, enda haldast saksóknarar sjaldnast í starfinu lengi og skjalastjórnun væntanlega verulega ábótavant.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl öll :)

Snilldar svar frá Stebba, gaman að vita hvað hann verður orðinn gamall þegar honum finnst hann EKKI vera frá Namibíu .... 

Var að skoða myndir síðan í vor, vildi svo að ég gæti hoppað upp i flugvél og kíkt í heimsókn til ykkar um helgina!

Knús til allra :)

Siva (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 08:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband