Hlaupið í Afríku
8.9.2010 | 19:59
Ég las áhugaverða grein í suður-afrísku tímariti um daginn um hvað þarf að varast þegar hlaupið er í Afríku. Það var mikið til í þessu. Hér þarf að huga að nokkrum þáttum þegar farið er út að hlaupa. Húfa til að skýla fyrir sólinni. Sólarvörn númer 40 hið minnsta. Húðkrabbamein er mjög algengt hér. Gleraugu til að skýla fyrir sólinni, en svona sterk sól eyðileggur augun til langframa. Piparúði til að verjast hundum og vondum köllum. Vatn á heitum dögum og í lengri hlaup. Svo þarf að verjast dýrum af öllu tagi, þ.m.t. skordýrum og guðsgróðrinum.
Í greininni var einmitt réttilega bent á að þegar farið er í fjallahlaup, þá væri gott að hafa einhvern vanan aðstæðum með sér. Í utanvegahlaupinu okkar um daginn fór fremst traustasti hlaupafélagi minn, sem er rétt sextugur karl sem er að æfa fyrir maraþon þessa dagana. Hann er hálf heyrnarlaus, svo það er fínt að hafa hann fremst því ekkert er hægt að spjalla við hann. Ég lem hann við og við til að taka bjöllur af bolnum hans, sem að bíta og geta borið með sér leiðindaflensu. Hann gefur viðvaranir við og við. Það sem helst angrar er gróðurinn, sem er þakinn þyrnum. Aftast heyri ég Dabba bölva... hvur fja.. neihh, nýji hlaupabolurinn minn... hann fer í tætlur... djö.. Erla, þú ert að gera mig blindann hérna.. þessi helv.. tré hér, í hvaða hæð eru þessar greinar eiginlega .. þetta er hannað fyrir dverga þessi sverð á þessum trjám... hvurslags gaddaflækjur eru þetta.. lappirnar á mér eru allar þaktar í þessu helv..
Hafið þetta í huga þegar hlaupin eru utanvegahlaup í Afríku.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hahahah, ég átti ekki alveg við sömu vandamál að stríða þegar ég fór út að skokka í gærmorgun. Tvennar buxur, 2 bolir og flíspeysa, eyrnaskjól og vettlingar dugðu ekki til. Stífur norðan garri, 4° og lemjandi rigningin gerðu það að verkum að ég hljóp með hendurnar fyrir andlitinu hálfa leiðina! Ekki ákjósanlegasta hlaupastellingin það :) SKil Dabba annars vel, góðir hlaupabolir eru mikils virði .
Siva (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 09:26
Fyndin lesning! Fínt að vita ef maður fer einhvern tímann að hlaupa í Afríku!!! :)
Það var nú aldeilis gaman að hitta þig í sumar!
Álfheiður (IP-tala skráð) 20.9.2010 kl. 13:26
Já, þú ættir sko að skella þér í Afríkuhlaup, Álfheiður, þú verður ekki svikin af því.
Ég er farin að kvíða kuldanum þegar við komum heim, en í morgun kom þetta þvílíka kuldakast að við vorum að frjósa í morgunskokkinu. Ekki alveg eins og hjá þér, Siva, en alveg nóg á okkar mælikvarða. Þjóðverjarnir, sem eru búnir að greina veðurfarið niður í öreindir hér, voru búnir að spá þessu, og nú sit ég í úlpu við tölvuna, í stað venjulega gallans; stuttbuxur og ermalaus bolur. Fyrir tveimur dögum var hitinn kominn upp í 28 gráður klukkan 10, svo að viðbrigðin eru mikil.
Erla perla (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.