Gamla Ródesía, nýja Zimbabwe

Ég skokkaði í morgun með vinkonu minni sem skilgreinir sig sem Ródesíumann. Hún ólst upp í Ródesíu, og flúði þaðan árið 1981 með fjölskyldu sinni, stuttu eftir sjálfstæði landsins. Yfirvöld gerðu upptæk vegabréfin þeirra, en foreldrarnir eru báðir fatlaðir. Þau tróðu sem mestu af sínu hafurtaski inn í fjölskyldubílinn og keyrðu suður á bóginn til Suður Afríku, sem þá var stjórnað af hvítum undir aðskilnaðarstefnu. Þar fengu þau hæli sem flóttamenn og síðar vegabréf. Hún er með fyrirtaks menntun, og er um þessar mundir að ljúka mastersgráðu í barnasálfræði. Hún stjórnaði leikskóladeildinni hjá Stefáni og Óskari þegar þeir komu til Alþjóðaskólans  með einstakri fagmennsku. Í Ródesíu gekk hún í almenningsskóla, en skólakerfið þar var fyrirtak og einnig nokkuð fram yfir sjálfstæði.

Menntakerfið í Zimbabwe hafði orð á sér að vera eitthvert það besta í sunnanverðri Afríku. Hér er oft sagt að ef að Zimbabwe eigi eftir að ná sér á strik, eigi heilbrigðiskerfið í Namibíu eftir að falla eins og spilaborg, því að það byggist að miklu leyti á hæfu vinnuafli frá Zimbabwe. Zambía hafi tekið duglegum hvítum bændum opnum örmum, sem kunnu búskaparhætti, og í kjölfarið hafi landbúnaðarframleiðsla þar stóraukist.

Hvort sem að þetta mat á heilbrigðiskerfinu hér á við rök að styðjast eður ei, þá má finna hér mikið af hæfu fólki sem hefur flúið frá Zimbabwe. Ég spjallaði við nýjan þjálfara í ræktinni í vikunni, sem er einmitt þaðan. Hann flúði fyrir þremur árum, en er hámenntaður í íþrótta- og þjálfunarfræðum. Í þessi þrjú ár hefur hann unnið í Suður Afríku, en segist nú vera smátt og smátt að færa sig heim á leið, kominn hálfa leið, núna til Windhoek. Svo taka við tvö ár hér í borg og þá á að sjá til hvort að ástandið hefur eitthvað batnað heima fyrir.

Ekki vildi vinur okkar sem eyddi viku í Harare núna um daginn gera mikið úr því að ástandið væri eitthvað að batna í Zim. Reyndar starfar hann fyrir peningaþvættisskrifstofu Sameinuðu Þjóðanna og hefur nú ekki mjög bjarta sýn fyrir hönd Afríku. Það má hins vegar efalaust færa fyrir því sterk rök að þarna hafi einhver mesta "afþróun" eða samfélagslegt niðurrif átt sér stað í veraldarsögunni. Samkeppnin er reyndar nokkuð hörð í Afríku. Annað kunningjafólk okkar var lengi í Zim rétt eftir sjálfstæði, en þá kepptust Vesturlönd um að koma þróunarfjármagni inn í landið.

Ég er að lesa mjög áhugaverða bók um þessa atburði sem alveg má mæla með. House of Stone eftir Christinu Lamb er tilvalin lesning fyrir þá sem hafa áhuga á nútímasögu Zimbabwe.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erla þetta hjómar í alvörunni bara eins og bull fyrir okkur vesturlandabúana, bara svona eins og menn væru allt í einu farnir að halda því fram aftur að tunglið væri úr osti!  Maður tekur því bara sem gefnu að standardar haldist bara og geti ekki hrunið aftur til hins verra - en því miður er það eflaust samt satt.

Siva (IP-tala skráð) 28.9.2010 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband