Af árstíðum og eldi

Það er mistur yfir borginni, en í nágrenninu eru skógareldar sem eru óvenju lífsseigir. Gróðurinn er þurr, en hér hefur ekki rignt síðan í apríl. Hins vegar er gróðurinn gisinn og lítill matur fyrir eld, svo að eldar slokkna vanalega af sjálfu sér eftir stuttan tíma, svo að þetta er óvenjulegt. Afleiðingin er hins vegar sú að mistur hangir yfir borginni og við sólarupprás hékk sólin blóðlituð yfir sjóndeildarhringnum, eins og hún væri á leiðinni niður en ekki upp. Í morgunhlaupinu stóðum við og horfðum á reykjarbólstrana teygja sig til himins, rétt sunnan borgarinnar. Um eftirmiðdaginn á leiðinni heim úr skólanum var eins og fína forsetahöllin væri orðin kolaofn gubbandi reykjarbólstrum upp í loftið. Fjalllendið bakvið höllina verður með öðru sniði næst þegar við hlaupum þá leið. 

Þjóðverjarnir greina veðurfarið niður í öreindir. Þeir hafa reynst óskeikulir til þessa. Spáin var sú að eitt kuldakast væri eftir þangað til að sumarið gengi endanlega í garð. Það gekk eftir. Í síðustu viku stóðu litlu drengirnir úti á plani í morgunsárið og horfðu á hvernig andardrátturinn varð að gufu. Þetta þótti þeim merkilegt og stóðu gapandi og skríkjandi þess á milli. Þeir verða glaðir á Íslandi. Nú er þó aðeins farið að hlýna svo að kuldakastinu er væntanlega að ljúka. Sumarið fer því að ganga í garð með hlýnandi veðri.

Annað er það helst í fréttum að portúgalska hlaupavinkona mín, sem hafði skráð sig í Berlínmaraþonið, hafði hlotið meiðsl í vor og gat því ekkert æft af ráði. Hún er búin að jafna sig og skokkaði með okkur 18K um daginn, sem var það lengsta sem hún hafði hlaupið og hugðist hlaupa hluta leiðarinnar í maraþoninu fyrst að hún væri nú skráð, en eiginmaður hennar er að hlaupa líka. Við ræddum náttúrulega hvort að hægt væri að skröltast heilt maraþon án almennilegrar úthaldsþjálfunar. Hún sannaði að það er vissulega hægt og lauk sínu fyrsta maraþoni með stíl um helgina.

Fyrstu önninni er að ljúka í skólanum og nú erum við að undirbúa norðurferð, sem verður væntanlega okkar síðasta. Það verður gaman að kveðja norðurhéruðin áður en við höldum heim til Íslands. Við eigum von á góðum gestum frá Íslandi en Maggi, Signý og Árni eru væntanleg í vikunni til að ferðast með okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æij skilaðu kveðju til norðursins frá okkur :)

Undarlegt að hugsa til þess að maður á sjálfsagt aldrei eftir að fara þangað aftur ...

Siva (IP-tala skráð) 28.9.2010 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband