Snúin til baka af ströndu
19.10.2010 | 09:01
Við komum til baka af ströndinni í gær, eftir að hafa farið til Topnar fólksins hennar Katrínar, en ÞSSÍ styrkti byggingu leikskóla fyrir þennan hóp, sem Davíð fór að skoða. Topnar fólkið býr með árfarvegi Kuiseb árinnar, vestan Hvalaflóa og komu fulltrúar frá ráðuneyti kynja-, jafnréttis og velferðarmála barna með okkur. Þar hittum við höfðingjann, sem var bráðskýr karl og skartaði Gucci gleraugum. Hann gaf okkur Nara hnetur að smakka, sem er helsta uppistæðan í fæðu fólksins. Þær eru ljúffengar, með smjörlíku bragði.
Síðan var haldið í barnaskólann sem menntar um 280 börn og hittum við skólastjórann til að færa krökkunum fótbolta.
Á laugardaginn hlupum við hjónin paraþon. Eitthvað var nú tvísýnt um þátttöku vora, þar sem Dabbi hafði vikuna áður fengið flensu og ég fékk hana á mánudag. Þar sem hlaupaþjálfarinn er flutt til Þýskalands, gat Dabbi sannfært mig um að lulla þetta bara, svo að hann gæti nú farið sitt fyrsta hálfmaraþon. Hlaupaþjálfarinn leggur nefninlega strangt bann við hlaupum þegar maður hefur svo mikið sem lítilsháttar kvef, og býður fram sögur af alls kyns afreksfólki sem fær vírusa í líffæri og drepst eður lifir við örkuml. Þannig að ég sló til og hljóp í rólegheitum fyrst með þessari portúgölsku, en leiddist þófið og yfirgaf hana fljótlega. Var heilum átta mínútum á eftir upphaflegu hlaupaplani, og tók mér meira að segja lengri tíma en í fyrra, þrátt fyrir að hafa þjálfað nokkuð stíft.
En Dabbi minn fékk því að hlaupa og lauk rétt undir tveimur tímum, sem þykir nokkuð gott því að það var heilmikill mótvindur og aðstæður því fremur erfiðar. Hann var orðinn lúinn þegar hann kom í mark, enda gátum við hlegið hjartanlega að myndunum. Þar má sjá mig að skoppa með honum til að gefa drykki, og einnig uppáhalds hlaupafélaga mínum, honum Udo, sem var þarna að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Hann lauk á 4 tímum og 5 mínútum, og myndi væntanlega fara létt með að komast undir 4 tíma markið ef hann fengi að hlaupa á jafnsléttu og án mótvinds. Þau portúgölsku voru ekki búin að jafna sig að fullu eftir Berlínarmaraþonið, en stóðu sig bæði með mikilli prýði.
Síðdegis var svo sigurhátíð í íbúðinni okkar, þar sem hlaupahópurinn kom saman til að halda upp á árangurinn, enda margir að hlaupa sitt fyrsta maraþon eða hálf maraþon.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Vhá innilega til hamingju með paraþonið - þið eruð alveg frábær. Það hefur greinilega verið þokkalegur vindur í fangið á ykkur! Með kvef og hor í nös er allt hægt en ég vona að ykkur verði ekki meint af! Myndirnar eru frábærar
Ég styð Erlu Hjálmarsdóttur á stjórnlagaþing! Jipijey - mikið er ég glöð með framboðið Erla og ég veit að þú átt eftir að komast alla leið.
knús í hús
Inga Dagmar
Inga Dagmar (IP-tala skráð) 19.10.2010 kl. 15:12
Þakka þér fyrir, glaupagikkurinn minn. Þetta er óneitanlega erfiðara með hor í nös, því er ekki að neita. Við erum á lífi, en enn að jafna okkur og snýtupappírinn er á náttborðinu. Ég sem var rétt búin að lýsa því yfir að ég fengi bara aldrei nokkurn tímann kvef!
Takk fyrir stuðninginn, það eru bara um 499 aðrir sem vilja komast inn, hvað er það svosem milli vina??
Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 20.10.2010 kl. 08:23
Gott hjá ykkur að hlaupa, ertu annars nokkuð komin með vírusa í líffærin mín kæra? En það hefur greinilega verið þónokkur meðvindur, og maður þornar nú í munninum bara við að horfa á sandöldurnar !!
Siva (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 09:43
Hahaha, Davíð fær flog þegar hann les þetta. Það var hrikalegur mótvindur mestan tímann, en nú er ég að jafna mig, svo að allt er á uppleið. Átti að fara að hlaupa í fyrsta sinn í dag, en Leja mætti ekki og drengirnir veikir heima, svo að ekkert varð úr því. Það er sko mánudagur á eftir payday, og bíllinn í viðgerð, en ég fæ hann ekki fyrr en á morgun, því að það mætti enginn í vinnuna þar!
Erla perla (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 07:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.