Epago búgarðurinn

Um síðustu helgi fórum við fjölskyldan á Epago búgarðinn sem er í tveggja og hálfs tíma keyrslu norður frá Windhoek. Það var mjög gaman að komast út úr bænum og fá smá tilbreytingu. Vegakerfið er mun betra en á Íslandi svo að það er lítið mál að keyra svona langt. Allt er grænt og fagurt, enda búið að rigna vel undanfarið. Svo standa termítabú hér og þar, á þriðja metra upp í loftið. 

Aðstaðan á búgarðinum var flott, hann stóð við uppþornaðan árfarveg, með glæsilegri sundlaug og aðstöðu úti. Það er Frakki sem á búgarðinn og Frakki og Þjóðverji sem reka hann, svo að maturinn var hinn besti. Í kring voru margir veiðibúgarðar, þar sem efalaust er frábært fyrir veiðimenn að koma. Þessir búgarðar hafa gífurlegt landflæmi undir sér, Epago er með 11 þúsund hektra, og það hefði tekið okkur um 3 til 4 klukkutíma að keyra alla landareignina á enda. Þeir eru með fíla, en þeir voru t.d. of langt í burtu til að við gætum séð þá.

Strákarnir á Epago

 Hér eru strákarnir að slappa af með svaladrykki.

 

 

 

 

 

 

 

Við fórum í safarí og vorum svo heppin að fyrsti jeppinn fylltist og við fengum einn útaf fyrir okkur. Áætlað var að safaríið tæki um 3 tíma, svo að við höfðum þann kost að snúa heim á leið þegar drengirnir væru orðnir óþolinmóðir. Við fórum síðdegis, og sáum fyrst blettatígra, og svo einnig vörtusvín, gíraffa, impala og oryx antílópur, og nashyrninga.

Blettatígur Epago

 

Gíraffi á Epago

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar við vorum búin að hossast í góðan tíma, var farið að rigna og við vorum ekki með þak yfir jeppanum. Þetta var farið að minna á góðan, íslenskan sudda. Við ráðfærðum okkur því við bílstjórann sem spurði hvort við vildum snúa við. Nashyrninga gætum við séð ef við keyrðum í 2 mínútur í viðbót. Við vorum sko til í það, en þetta reyndist afrískur tími, og voru 20 mínútur. Þetta var bara stemning, og svo stytti upp og var hið yndislegsta veður. Jeremy, bílstórinn galdraði svo fram hressingu, snakk, djús og bjór. Þegar við fórum út úr jeppanum fór Halli að fíflast og stökk inn í runna með Óskar á hælunum. Fjölskyldufaðirinn gólaði á eftir þeim, og var nett stressaður yfir að nashyrningar kæmu á hæla börnunum. (Ég held nú að ef einhver hætta hafi verið á ferðum, þá hafi það verið hrópin í Dabba, enda eru nashyrningar nánast blindir en eru með prýðisgóða heyrn og lyktarskyn). 

IMG_0598

Hér er mynd af Dabba sem er búinn að róast, enda Jeremy búinn að veita honum bjór. Nashyrningarnir eru í baksýn.

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_0610

Óskar í stuði eftir að hafa dælt í sig snakki og djúsi úti í afrískri náttúru.

 

 

 

 

 

 

Þetta var alveg yndislegt, enda vorum við alein þarna úti í náttúrunni og svo var sólin að setjast á bakaleiðinni.

Safarí

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ha ha ha - vá hvað ég skil Dabba - ég væri nú örugglega pínu stressuð með púkana hlaupandi út um allt í safaríi - en þvílíkt ævintýri hjá ykkur ...........!!!!

kv. Ása Dóra

p.s. ég er greinilega orðin svona léleg í reikningi - fæ alltaf annað slagið villumeldingu um að rangt svar við ruslpóstvarnarreit ha ha ha

Ása Dóra (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband