Fótboltamót

Í gær fórum við fjölskyldan á fótboltamót með Halla, en það var spiluð heil umferð í deildinni hans. Það er gott að fá tilefni til að fara eitthvað út af heimilinu með skarann. Því var nesti pakkað niður í kælibox og við fórum á tveimur bílum. Ég keyrði litlu drengina og kom aðeins seinna en Halli og Dabbi og fór einnig fyrr heim til að þeir fengju að sofa heima í bólunum sínum.

Við sáum svo fótboltalið koma á staðinn úr fátækrahverfinu, en það var á ævagömlum mözdu pallbíl. Allt heila liðið var uppi á palli, 10 stykki strákar. Mótið var mjög skemmtilegt, en það er ekki jafn fjörugt á áhorfendapöllunum og á Íslandi. Á síðasta leik voru búar bakvið mig og afrikans er svo hljómlík íslenskunni að ég sneri mér margsinnis við til að athuga hvort að það væru Íslendingar mættir á svæðið. Svo er fólk bara í rólegheitum í skugganum og borðar nestið sitt og slappar af.

Hádegissólin er ansi sterk. Við bárum sólaráburð af kappi á Halla, en hann er samt smá brunninn í framan og á hnésbótunum þar sem sokkunum sleppti. Hér mættu líka lið utan af landi og af ólíkum uppruna. Þau voru því ákaflega ólík liðin, Halla lið sem að mestu er skipað krökkum af þýskum uppruna og margir glókollar eins og hann, og svo t.d. lið utan af landi og annað úr fátækrahverfunum. Maður var svo upptekinn að sjá um drengina að lítið var um myndatökur. Fer í það á næsta móti, en við erum strax farin að hlakka til að fara út á land að keppa. Það væri frábært að fanga stemninguna, en þeir eru nýbyrjaðir með krakkabolta og -deild hér.

Sumir eru líka betur búnir en aðrir, sum liðin eru í fínum búningum og önnur í áprentuðum stuttermabolum. Þeir eru lika ansi smávaxnir margir í þessum liðum, einn drengurinn var vart mikið stærri en Óskar, þó að hann væri trúlega 8 ára og bolurinn náttúrulega allt of stór, og þá voru fótboltskórnir einnig a.m.k. þremur númerum of stórir. Þeir eru dýrmætir og ganga frá einum til annars. Og leikgleðin er nú ekki síðri. Þetta lið sigraði einn af sínum leikjum og allt ætlaði um koll að keyra af fögnuði. Okkar menn, eða okkar krakkar öllu heldur stóðu sig vel (það er ein stelpa í A-liðinu) og enduðu í þriðja sæti.

Þetta var mjög gaman og allir, þó sérstaklega Halli, voru sólbrenndir og þreyttir eftir daginn. 

Glókollurinn á mótsstað

 Hér er glókollurinn Halli á mótsstað. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnheiður Fanney Magnúsdóttir

Til hamingju með Óskar um daginn :o)

Arnheiður Fanney Magnúsdóttir, 20.4.2008 kl. 22:24

2 identicon

Sama hér til lukku með hann Óskar. Þetta er nú meiri ævintýraheimurinn sem þið búið við þessa dagana og það er frábært að fylgjast með þessu öllu. Vona bara að maður hafi sig í að koma og heimasækja ykkur....

Þórdís Arnardóttir (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 13:21

3 identicon

æ og hér eru amk tvenn fótboltskópör sem stráksi er vaxinn upp úr

Brynja (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 21:28

4 identicon

Sæl og blessuð Erla og Davíð.  Loksins sest niður til að skrifa smá línu.  Ykkar er sárt saknað héðan, búin að ætla að fara til ykkar nokkrum sinnum ha ha.  Jón Pétur færði mér gleðifréttir í dag er hann sagði mér að Halli væri á leið til Íslands.  Við hlökkum mikið til að sjá hann og vonum að hann fái að vera eitthvað hjá okkur.  Hamingjuóskir með Óskar, gæinn bara orðinn 2ja ára, ansi líður tíminn.  Saknaðarkveðjur, Paloma

Paloma (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 23:08

5 identicon

Djé hvað þetta hljómar allt spennandi. Held að það hljóti að vera skylda að senda börnin sín í fótbolta. Það sýnir sig alltaf betur og betur hvað hann er mikið félagshjálpartæki. Drengurinn bara dottinn inn í svaka stemningu, rétt eftir að hann lendir í hinum exótíska heimi. Er svolítið heilluð af þessu.

 Meira seinna og jafnvel á öðru sviði. 

kveðja

Harpa skarpa 

Harpa stuð (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 23:56

6 identicon

Gaman að lesa fréttir af ykkur og gott að þetta gengur vel. Við feðgarnir höfum verið að kíkja á Atlasinn öðru hvoru og þeim finnst alltaf jafn spennandi að skoða hvar þið búið og hvað það eru mörg ólík dýr sem finnast í landinu. Spyrja líka mikið um eyðimörkina. Af okkur er annars allt gott að frétta. Sótti dekkin í bílskúrinn og kom þeim í geymslu. Er að fara til Spánar í laugardaginn í golf, mikil tilhlökkun, verður bueno ferð. Hefði þurft að komast á intensiv námskeið hjá Hörpu í spænskunni, svona til að geta slegið um mig. Það verður bara næst. Síðasta kvöldið þarna úti ætla ég einmitt að fylgjast með United slá Barcelona út úr meistaradeildinni. Það verður ekki ónýtt.

Hasta la vista

Einar

Einar alþjóðlegi (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 07:21

7 identicon

Sælt veri fólkið,

svoooo gaman að fylgjast með blogginu, vona bara að þið hafið það gott og njótið í botn! Verð samt að segja Erla mín að ég er á bandi Dabba varðandi köngulærnar, þær reka þó öll hin kvikindin í burtu - ehhh en samt má drepa þær ef þær hlaupa hratt, mér finnst það alltaf doldið skerí ....  og ok ég hef ekki kynnst mörgum útlenskum köngulóm nema þeim sem bjuggu hjá okkur í eldhúsinu í Mont og þær voru rólyndisskepnur :)

Siva (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband