Sumarsól

Nú er sumarið víst að skella á heima á Fróni. Hér er farið að kólna, þó að það hafi hlýnað aðeins núna eftir kalda viku. Nú virðist regntímabilinu vera lokið og himininn er heiður og blár. Nú verður ekki skýjað fyrr en regntímabilið nálgast aftur. Nú er veðráttan mjög góð hjá okkur.

Helgin er byrjuð hjá okkur og allir í afslöppun. Óskar horfir á Tinna í sjónvarpinu og Stefán er að gæða sér á snúð úr bakaríinu. Hér er mikið um bakkelsi og bakaríisgotterí. Berlínarbollurnar eru mjög vinsælar á heimilinu og eplaumslög einnig. Dabbi situr úti í sólinni og les eitthvert vitsmunalegt fóður fyrir sálina.

Ég kíki við og við á fréttir úr nágrenninu, þær eru nú oft með öðru sniði en heima:

http://www.namibian.com.na/2008/April/national/08FD3C6558.html

Það er mikið á blessuð börnin lagt þegar þau búa við kröpp kjör. Svo er nú áhyggjuefni að fótbolti er í krísu í Nabibíu, en þeir hafa ekki leikvang til að hafa heimaleiki í forkeppni að heimsmeistarakeppninni sem verður í Suður Afríku árið 2010. Þeir hafa heldur ekki fjármuni til að halda leikina í nágrannalöndunum, svo að þetta er snúið mál. Og svo voru einnig mótmæli gegn kínverjum og vopnflutningum þeirra. Það vantar víst tól til þróunar, en ekki stríðstól segja þeir. Um þetta og margt fleira er hægt að lesa í The Namibian.

Leia er að ganga frá og búast til heimferðar. Hún býr nokkuð frá og tekur leigubíl heim, en strætó í vinnuna á morgnana. Strætisvagnarnir eru oft troðnir á álagstímum, og Óskar fylltist áhuga þegar við vorum að fara í búðina um daginn og strætó fór hjá. Örugglega um 100 manns í honum. Óskari fannst tilvalið að skella sér þó að ég væri ekki alveg jafn áhugasöm. Svo þegar við vorum að koma út, var einn slíkur að renna út af stoppistöðinni og Óskar sagði með rósemd. "Jæja mamma, við erum víst búin að missa af stætó núna. Við verðum bara að taka hann seinna." Mér létti nú við að sjá hann hverfa. Við munum víst hafa nógan tíma til að plana strætóferð.

Svo af heimilismálum, mér urðu á þau leiðu mistök um daginn að kaupa einfaldan klósettpappír, við litla hrifningu. Ég streittist á móti þegar átti að kaupa nýjan sem væri tvöfaldur og mjúkur og hvítur eftir því, enda sparsöm og nýtin að eðlisfari. Það var ekki fyrr en Óskar sagði, eftir að móðir hans hafði skeint honum, "Hryllilefa eretta óþæfilett", að ég keypti aðra tegund sem hentaði betur botnum heimilisfólks.

Óskar er nefninlega mjög skýrmæltur og skýr í alla staði, segir err og ess með glans en honum hættir hins vegar til að setja "f" í stað "g" þegar hann talar. Hér kemur samtal úr baksætinu á milli Halla og Óskars frá Íslandi:

Ó: Hvar á amma heima?
H: Það heitir Sogavegur
Ó: Sofavefur?
H: Nei, Sogavegur
Ó: Já, Sofavefur
H: Sogavegur!!
Ó: É safði þa
H: SEGÐU SO-GA-VEG-UR
Ó: So-fa-vefur. Sofavefur!

Halli greyjið gafst upp. Annars er þetta bara gott nafn á götu, gæti verið tilvalið fyrir letihauga og svefnsjúklinga. Eða sólardýrkendur. Gleðilegt sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

heyja heyja

 Hann Óskar má nú vera stoltur af sinum framburði með það fagurhljómandi R sem hann kann að bera fram. 

 Bannað að stríða svona snjöllum dreng!

harpa rut (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 14:28

2 Smámynd: Erla Hlín Hjálmarsdóttir

Já, börnin eru öll snillar á sinn hátt, en það er um að gera að sjá skoplegu hliðina á því sem þau eru að brambolta. Það sem er virkilega hægt að hlægja að þessa dagana er að Óskar er búinn að þroska með sér þennan fína húmor og er farinn að búa til brandara á ólíklegustu tímum sem eru bráðfyndnir og við hlægjum okkur öll máttlaus. Maður er búinn að gleyma hvað þriggja ára aldurinn er mikill brillaaldur, og það er gaman að upplifa svona þroskabreytingar alveg upp á nýtt.

Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 28.4.2008 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband