Laugardagsmorgunn
17.5.2008 | 16:20
Nú er laugardagur og Dabbi fór út í búð í morgun og keypti nýbakað brauð fyrir okkur í morgunmat. Svo fórum við öll í fyrsta skipti á laugardagsmarkaðinn, þar sem við keyptum ákaflega ljúffengan, heimagerðan ost og ólvívur. Í framtíðinni getum við keypt þar grænmeti og annað ljúfmeti fyrir heimilið. Svo keypti heimilsfaðirinn sólblómablómvönd handa elskunni sinni á 70 kall, sem var reyndar orðinn hálf laslegur þegar heim var komið. Hann prýðir samt matarborðið úti núna. Svo fjárfestum við í kubbakassa handa litlu drengjunum sem er heimagerður, með stafi og tölustafi og þessháttar og hægt að snúa kubbunum og raða saman í orð og reikningsdæmi. Hann kostaði 1000 kall. Davíð hélt að hann væri gerður á einhverju sambýli en strákurinn sem var að selja hann hafði reyndar gert hann sjálfur. Þetta er mjög sjarmerandi leikfang sem við erum öll ánægð með, og kemur sér efalaust vel við lestrarkennslu í náinni framtíð.
Svo var farin ferð í leikfangaverslun og allir drengirnir fengu dót, lego og baðdót. Við tókum nú ekki of mikið með okkur frá Íslandi, en getum kannski fengið sent með ferðalöngum sem leggja leið sína hingað til okkar.
Eftir að hafa stússast í smá framkvæmdum hér innan húss, og litlu drengirnir farnir að sofa, fórum við þrjú í vist og Haraldur vann eins og hans er vani. Nú sitjum við hjónin hér úti í sólinni og bíðum eftir að litlu drengirnir vakni.
Leja missti barnapössunina sína síðustu helgi. Vinkona hennar sem hafði passað Santiago, fjögurra ára son hennar, var barin illa af eiginmanni sínum, og m.a. reif hann m.a. úr henni eyrnarlokk í gegnum eyrað. Sú hafði áður haft langt, flott hár og hafði svo fengið sér ofurstutta hárgreiðslu til að hann gæti ekki dregið hana á hárinu. Eftir þessa uppákomu ákvað hún að skilja við manninn sinn og flytja til systur sinnar. Leja var eyðilögð, en heimilsofbeldi er mjög algengt hér. Við höfðum nú rætt um að það væri bara hollt fyrir Santiago að fara á leikskóla, en hún hafði ekki haft efni á því. Hann byrjaði á föstudag og við borgum leikskólagjöldin. Við vorum búin að ræða að gera það hvort eð er, en þau eru 1850 kr. á mánuði. Manni finnst það nú bara vera skítur á priki á íslenskan standard, en það er heilmikið fyrir fólk sem varla hefur til hnífs og skeiðar.
Við vorum einmitt að ræða fjármálin hennar í vikunni og hún sagðist vera ákveðin í því að kaupa líftryggingu handa fjölskyldunni þegar hún hefði meira svigrúm, c.a. eftir svona þrjá mánuði. Hún á líka strák sem heitir Lionel og er 21 árs gamall. Hún orðaði það svo sérkennilega: Hvernig á ég að borga fyrir kistuna og svona ef að Lionel deyr? - Maður er ekki vanur því að foreldrar séu að spá í dauðdaga barns sem er bara 21 árs gamall. Hér er veruleikinn annar en heima á Fróni og það er áhugavert að fá innsýn inn í líf fólks, enda finnst mér mjög gaman að spjalla við hana, Hún er ótrúlega dugleg og er mjög glöð að fá vinnu eftir tæplega fimm ára atvinnuleysi. Enginn er glaðari en ég yfir því samt. Nú var verksmiðja að loka sem rekin var af malasíumönnum og um 5000 enn eru atvinnulausir og upplitið er dauft yfir heimamönnum.
Nú eru dregirnir vaknaðir og ég verð að þjóta.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Já Erla, greinilega ekki illa staddar konurnar þarna í kringum þig þegar þær eiga þig að. Eða alla vega skár staddar! Bið að heilsa.
Berglind (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 09:56
Já það er frábært að þið getið lagt réttu megin á vogarskálar þessa óréttlætis. Hugsa sér að vera að spá í hugsanlegan dauðdaga 21 árs manns, hvað er meðal lífaldur fólks þarna?
Brynja (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 21:29
Það er aðeins mismunandi hvað lífslíkur eru skráðar en flestar alþjóðastofnanir telja það vera 52 ár í Namibíu. Hins vegar er misskiptingin svo mikil, að þegar tölurnar eru brotnar upp fyrir human development index, þá er hvítur minnihluti hér sem situr á toppinum á lífsgæðum á heimsmælikvarða, og þar koma lífslíkur m.a. inn og þessi hópur hækkar því meðaltalið. Á móti kemur að San fólkið hér er á botninum þegar litið er á heiminn allan, svo að það er dálítið villandi að horfa á heildartölur fyrir landið allt. Það eru t.d. tæplega 40% líkur að þú lifir ekki yfir fertugt ef þú fæðist hér, og tæplega 20% af fólki á aldrinum 15 til 49 ára eru HIV smitaðir. Þessar tölur eru efalaust einnig mjög mismunandi eftir þjóðfélagshópum hér. Það er því ekkert skrýtið að Leja sé að spá í þessa hluti, því að líkurnar eru ekki í hag fólki í hennar aðstæðum.
Sjáðu svo Santiago, strákinn hennar sem er fjögurra ára og er jafn stór eins og hálfs árs íslenskum strák. Þessir krakkar eru svo vannærðir fyrstu ár ævinnar að þau hljóta óbætanlegan skaða. UNICEF t.d. var að fókusa á leikskólamál í norðurhéruðunum en þeir hurfu frá þeirri stefnu og einbeittu sér þess í stað að 0 til 3ja ára því að börnin voru orðin svo sköðuð þegar þau komu á leikskólaaldur að það var talið skynsamlegra að beina aðstoðinni að þessum allra yngstu.
Erla perla (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 11:07
Jahérna, já það er misjafn raunveruleikinn sem mannskepnan býr við. Mér finnst ótrúlega fallega gert af ykkur að greiða leikskólagjöldin fyrir blessað barnið.
Arnheiður Fanney Magnúsdóttir, 25.5.2008 kl. 10:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.