Africa Day

Helgin var óvenjulega löng hjá okkur því að á mánudaginn var Africa Day og því frídagur. Við ákváðum að brjóta helgina aðeins upp með því að fara út fyrir bæinn og fórum á búgarð í hálftíma keyrslu í burtu. Þar eru dýr í aðlögun áður en þeim er hleypt út í náttúruna aftur, og ef það reynist ekki hægt, þá í umsjón manna. Við fórum sérstaklega að sjá matargjöf til ólíkra dýra og gerðum okkur í hugarlund að þarna gætum við farið í svona hálftíma ökuferð og svo borðað hádegismat í rólegheitum á búgarðinum. Það var öðru nær og fórum við í þriggja tíma maraþontúr með leiðsögumanni frá Hollandi sem var afskaplega hægmæltur og sagði flesta hluti aftur og aftur og aftur. Að því slepptu var þetta hin besta ferð. Þarna sáum við bavíönum gefið, hlébörðum, blettatígrum, ljónum og afrískum villihundum, en þeir eru mjög merkileg dýr sem eru í mikilli útrýmingarhættu.

Því miður var myndavélin batteríislaus og því koma engar myndir af þessari ferð. Eftir alla þessa keyrslu var ljúft að komast í hús aftur og snæða hádegismat. Við vorum örugglega jafn svöng og ljónin.  

Búgarðurinn er með fjöldan allan af sjálfboðaliðum sem koma alls staðar að úr heiminum og vinna þarna í skemmri og lengri tíma. Með okkur var sjálfboðaliði frá Írlandi sem hafði stúderað dýrafræði í háskóla og hugðist eyða þremur mánuðum í Namibíu við sjálfboðastörf. Þarna gefst þeim tækifæri til að kynnast villidýrum sem eru sem næst í náttúrulegum aðstæðum. Mörgum dýranna er ekki hægt að sleppa út í náttúruna aftur, þar sem þau hafa kynnst manninum og geta því reynst hættuleg. Bavíanar verða t.d. nokkuð stórir og geta með léttum leik drepið fólk. Flestir eru hins vegar hræddir við mannsskepnuna, en þarna ala sjálfboðaliðarnir þá upp, fæða og kúra með litlu krílin á næturnar. Þeir hætta því að vera hræddir við fólk og geta ráðist á það þegar þeir verða eldri. Þeir verða því að bera beinin innan girðingar. 

Í gær var svo líka frí í skólanum hjá Halla og við mæðginin skelltum okkur í fyrsta skipti hér í Windhoek, í bíó.  Maður hefur heldur aldrei í lífinu farið svona snemma í bíó, en sýningin byrjaði kl. 9:15 (að morgni!), sem hentaði okkur reyndar vel því að litlu guttarnir voru á leikskólanum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er allt svo mikið ævintýri hjá ykkur mikið langar mig að upplifa svona og hver veit kannski einn daginn. Hér er vorið komið og búið að vera nokkuð gott þó svo það vanti hitann sem er á Akureyri og fyrir austan en þar er búið að vera um 20 stig og sól furðulegt í maí. Ég vona að þú kíkir inn á bloggið mitt við og við mættir alveg kvitta fyrir hlakka svo bara til að heyra meira af ykkar daglega lífi í Afríku.

Þórdís Arnardóttir (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 09:20

2 identicon

Frábært að fara í bíó 9:15. vona að skilyrðin hafi verið betri en evrovision útsendingin.  Takk fyrir að deila ævintýrunum með okkur, alltaf spennandi og ófyrirsjáanlegt hvað kemur næst á bloggið.  Alveg magnað líka að fá myndir Erla mín af ykkur og öðrum. Knús frá Sverige

Brynja (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 07:58

3 identicon

Hæ, gaman að fylgjast með ykkur og greinilega nóg við að vera í Namibíu. Við erum að venjast lífinu á klakanum, þrátt fyrir að það geti verið erfitt þegar ísbirnir spranga um í Skagafirði í byrjun júní ;) Höfum það annars gott á Akureyri eins og er, en gott væri að komast aftur í hlýjuna þrátt fyrir blíðu hér fyrir norðan að undanförnu ;) Biðjum að heilsa strákunum Freyja og Orri

Freyja og Orri (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband