Gaman úti í garði

Halli var með vin sinn í sleepover í nótt. Fyrst fóru þeir í afmæli hjá bekkjarfélaga sínum. Það var búningapartý og Halli fór sem draugur og vinur hans Erik sem kúreki. Ég málaði Halla í framan og hann var frekar ógeðslegur með blóðið lekandi úr enninu. Einhver bekkjarfélaginn var spurður, ertu kúreki? - Hann svaraði, nei, ég er fornleifafræðingur! - Hér er bara eitt bíó og vanalega bara ein barna- og unglingamynd sem sýnd er á hverjum tíma. Nú standa yfir sýningar á Indiana Jones, sem hefur vakið mikla lukku meðal bekkjarfélaga. Það er óvenjulegt að fræðigreinar séu settar á slíkan stall í dægurmenningu nútímans.

Svo var horft á mynd um kvöldið og kveikt upp í arninum og við átum grillaða sykurpúða af hjartans lyst.

Stebbi í stuði

Í morgun fór Davíð út á flugvöll að sækja íslenskan gest í tengslum við starfið og Óskar fékk að fara í bíltúr með honum. Á meðan Halli og Erik horfðu á morgunsjónvarpið vorum við Stefán úti í garði að sleikja morgunsólina.

 

Hér er litli prinsinn í morgunsólinni. Hann er í mikilli framför með að tala, er farinn að segja fullt af orðum, þó að erfitt geti reynst að skilja hann á stundum.  Hann er voða duglegur og gefur ekkert eftir í baráttunni innan heimilisins en getur gólað ógurlega, eins og oft er sagt að yngstu fjölskyldumeðlimirnir geri.

 

 

 

Stebbi í rólunum

Rólan og rennibrautin sem við keyptum vekja enn mikla lukku  hjá drengjunum. Síðan fórum við Halli og Erik á Indiana Jones sjálfan og skiluðum Erik svo til síns heima.

 

 

 

 

 

Í gær fórum við og keyptum skeljar í garðinn (eina undir og eina til að loka), til að geta gert sandkassa fyrir drengina. Davíð notaði tækifærið á meðan við vorum í bíói, og fyllti skelina af vatni svo að drengirnir gætu sullað í sólinni. 

 

Sull í garðinum

Hér eru drengirnir alsælir að sulla. Því miður sést það ekki á myndinni en ég tók mig til og klippti þá í fyrradag. Ég hafði verið að spá í að taka þá á hárgreiðslustofu, en ákvað að prófa sjálf. Ef illa tækist til, gæti ég alltaf snoðað þá báða. Vopnuð rakvélinni hans Dabba og gömlum eldhússkærum var lagt til atlögu. Ekki held ég nú að Gudda hefði verið ánægð með útfærsluna, en þeir líta þó betur út en áður. Það er í raun ekki svo erfitt að klippa hár á viðunandi hátt ef að viðfangið er til friðs og kyrrt, en því er ekki að heilsa á þessum bæ. Ég snyrti Óskar meira að segja aðeins til í gær, en það voru lokkar sem stóðu út í loftið hér og þar. Hann var hins vegar alsæll með klippinguna og sagðist bara líta út eins og prins.

Nú eigum við bara eftir að redda sandi í skelina, en það ætti ekki að vera erfitt í landi sem er að miklum hluta eyðimörk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að sjá hvað það gengur vel hjá ykkur. Ekki laust við að maður sakni ykkar, þess vegna var gaman að heyra í Dabba á talhólfinu mínu í dag. Vonandi gerið þið aðra tilraun til þess að hringja. Ég þarf annars að ganga í þetta skype mál. Hef aldrei skoðað það.

Með kærri kveðju.

Einar

Einar Skúlason (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband