Þjóðhátíðarheimsókn í skóla
30.6.2008 | 14:10
Leiðsögumanninum leist svo vel á okkur að hann bauð okkur í óvænta heimsókn í skóla í nágrenninu, sem við þáðum með þökkum. Þarna skröltum við uppi á palli öll tíu í meira en hálftíma eftir hálfgerðri vegleysu. Við komum að skólahúsi sem hafði einu sinni verið kirkja og þar fyrir utan voru allir nemendurnir, sitjandi á klappstólum í sandinum. Skólinn var fyrir nemendur í fyrsta til fjórða bekk, en aldur nemendanna var mismunandi, allt upp í 15 ára aldur.

Við heilsuðum upp á krakkana sem voru náttúrulega spennt að fá gesti. Það er örugglega ekki oft sem sex ljóshærðir strákar koma í skólaheimsókn þarna.

Himbakrakkarnir ganga í skóla með hinum, þó að skólagangan sé stundum rysjótt.

Svo farið í kennslustund og við fengum að fylgjast með kennslu, en eina greinin sem kennd er á ensku er stærðfræði. Kennarinn var að fara yfir tvisvar sinnum töfluna með fjórða bekk. Halli var nokkuð imponeraður því að hann hélt í fyrstu að þau væru að fara í 12 sinnum töfluna (það var svo mikið kám á töflunni) og fannst þetta sko almennilegt. Það var mikill spenningur í bekknum og klappað ógurlega þegar einhver nemandanna kom með rétt svar.

Það er erfitt að snúa að töflunni þegar það eru gestir frá Íslandi eru aftast í stofunni.


Svo buðu þau upp á tónleika, nokkrir nemendur komu upp á svið og sungu og dönsuðu fyrir okkur. Drengurinn í bláu skyrtunni var með ótrúlega skæra og fallega rödd. Hann var forsöngvari sem syngur fyrst og svo svarar kórinn. Tær barnsröddin fyllti skólahúsið og hefur efalaust borist langt út um sveitina.

Krakkarnir voru aðeins feimin í byrjun en dönsuðu síðan skemmtilega og slógu taktinn með fótunum.

Við ákváðum náttúrulega að reyna að gefa eitthvað til baka og fórum upp á svið. Ég er nú hrædd um að framlag okkar til tónlistargyðjunnar hafi nú ekki verið eins markvert eins og infæddu krakkanna. Við sungum um dagana og mánuðina, en allur skólinn hafði sungið um þá þegar við mættum fyrst á staðinn. Við höfðum einmitt fengið ágætis æfingu í að syngja um dagana, því að Gunnar hafði kyrjað þann söng af miklum krafti í ferðinni. Hann tók sér reyndar pásu þarna. Ég fór upp til að styðja drengina í söngnum, og sagði líka að við værum glöð að vera komin og að það væri þjóðhátíðardagurinn okkar í dag svo að í dag væru hátíðahöld hjá okkur.
Við sungum lagið bara tvisvar og krakkarnir voru hálf hissa þegar við létum það bara nægja, því að krakkarnir höfðu sungið nokkuð lengi sjálf.
Svo skoðuðum við aðeins skólann, en á bakvið skólann var heljarinnar pottur á hlóðum með maísgrautinn mallandi. Það er mikilvægt fyrir skóla að bjóða upp á mat - sem reyndar samanstendur vanalega bara af maísgraut. Maturinn er hvati fyrir krakkana að mæta í skólann, og fyrir foreldrana að senda krakkana. Ef vel árar er sykri eða fitu bætt í grautinn. Krakkarnir elda sjálfir grautinn, og skiptast á að taka það verkefni að sér.
Athugasemdir
Elsku Erla
Það er ekkert smá gaman að lesa ferðasöguna ykkar. Þetta hefur verið mikil upplifun og bara svo þið vitið það þá eru fleiri að lesa en ég þó fólk sé misduglegt að kvitta fyrir sig.
Með kveðju
Harpíta
Harpa og fjölskylda (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 13:58
Ég er bara orðlaus,
þetta hlýtur að vera algjörlega ómetanleg reynsla fyrir strákana að sjá þetta, þ.e.a.s. ef þeir koma til með að muna þetta þeir litlu. Bíð spennt eftir fleiri ferðasögum, og já ég er ekki nógu dugleg að kvitta fyrir mig ;)
Knús!
Siva (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 14:24
Við erum alltaf að dást að þeim sem þó kvitta fyrir sig. Dabbi var farinn að kalla mig The Forgotten Blogger...hahahaha
Erla perla (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 14:33
Heil og sæl
Þú þekkir mig ekki neitt en ég er skólasystir Dabba úr Breiðholtsskóla, sem rambaði inn á þetta blogg. Mér finnst rosalega gaman að fylgjast með ykkur og er búin að lesa í nokkrar vikur án þess að kvitta fyrir mig
.
Bið kærlega að heilsa Dabba og ætla að halda áfram að fylgjast með ykkur og ykkar ævintýrum.
kær kveðja
Dísa úr Breiðholtsskóla (73 módel) (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 12:54
Hæ, Dísa!
Gaman að heyra í þér. Við hittum þig einu sinni þegar þú varst að fara til Indlands og varst að fá sprautur og við vorum í sömu erindagjörðum að fara til SA-Asíu. Dabbi biður að heilsa!
Erla perla (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 10:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.