Sossusvlei


soss 5
Sossusvlei er vinsælasti ferðmannastaður Namibíu. Þetta er saltslétta í Namib eyðimörkinni og þarna eru sandöldur af öllum stærðum og gerðum. Þær eiga einnig að vera þær stærstu í heimi.
 
Sossus á að þýða staðurinn sem enginn snýr til baka frá og vlei þýðir sandalda.  Flestir reyna að koma þangað í dagrenningu að sjá sólaruppkomuna í þessu ótrúlega umhverfi. Við vorum nú ekki svo metnaðarfull, heldur slöppuðum af í náttstað og komum um miðjan morgun. Hér verður efalaust óbærilega heitt yfir sumarið, því að þó að það væri hávetur, þá var ansi heitt, og sérstaklega þegar við fórum að brölta upp sandöldur.
 
 
 
soss 4
Við byrjuðum á einni nettri sem hér sést. Eða ætti ég að segja að strákarnir byrjuðu á einni. Hér eru Halli og Hrafnkell á leiðinni upp. Við hin tókum nestispásu og horfðum á kappana klífa fjallið.
 









soss 2
Þessir félagar fóru líka í smá sandöldugöngu, hér eru Gunnar og Óskar á leiðinni upp....
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
soss 1
...og svo tóku þeir smá pásu, og lágu sem dauðir væru í sandinum.
 
Fyrir utan þessa fjóra og Kára að auki sem fór upp á topp, ákvað doktorinn að klífa ölduna góðu. Hann lagði af stað þegar eldri strákarnir voru komnir upp, og sagðist ætla að "kíkja upp líka". Hann stökk af stað eins og springbok í blóma lífsins. Þegar hann var kominn svona fjórðung leiðarinnar dró vel af honum og hann líktist frekar öldnum nashyrningi. Í millitíðinni hafði bandarísk fjölskylda komið og hóf einnig göngu. Það leið ekki á löngu þar til lítil stelpa í yfirvikt tók fram úr Dabba greyjinu, sem auðsjáanlega hafði ofreynt sig á fyrstu metrunum.
  
 
 
soss 3
Við hin fylgdumst með og skemmtum okkur konunglega, og eins og sjá má, skín kátína úr hverju andliti.
 
Við vorum ekki alveg eins borubrött þegar við byrjuðum sjálf að klifra sandinn. Maður stígur eitt skref og sígur svo til baka. Ekki bætir úr skák að hafa barn á öxlunum. Óskar stóð sig reyndar mjög vel, klifraði af hörku og tók svo pásur inn á milli þar sem hann faðmaði sandinn og móður jörð af innlifun.
 
 
 
 
 
 
soss 6
Hér er Kári á toppnum á tilverunni. 
 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erla mín takk enn og aftur fyrir að halda úti svona góðri bloggsíðu.  Ég sit hér í kyrri blíðskapar rigningu (innandyra), spretta góð, sumarfríið hálfnað og lífið er ljúft.  Í byrjun sumarfrís vorum við Jói nokkra daga í Flatey á Breiðafirði, það var dásamlegt eins og alltaf, kannski má líta á Flatey sem nokkurskona þjóðgarð með ríkulegu fuglalífi og himneskri ró.  Renndum síðan upp á Vestfirði, sveitastelpan skilur bara hreinlega ekki hvernig mönnum datt í hug að setjast að í þessum þröngu fjörðum þar sem ekkert undirlendi er!!  Fiskurinn skipti jú líka miklu máli, en þvílíkan kjark þarf til að ýta opnum sexæringi úr vör að vetri til, það er bara með ólíkindum.  Hefurðu kannski lesið Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalmann, hún lýsir þessu vel - held ég.  Erum núna heima á Króknum, stefnum á Reykjadalinn fagra eftir nokkra daga. Öðru hverju kíkir maður í tölvuna og bloggsíðan þín er ein af fáum sem ég nenni að kíkja á, enda eru alltaf komnar nýjar og spennandi færslur.  Hvernig fór þetta með rauðu vespurnar, náðuð þið að útrýma þeim??

Siva (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 22:57

2 identicon

Heyja. Alltaf gaman að heyra af hetjudáðum doktorsins. Hélt samt að Haddi væri doktorinn þar til ég las hljóminn í orðunum!

 Er ekki mikið í tölvunni þessa dagana og hef því ekki svarað sportpóstum. Er þó að halda mér við efnið þó ég nátturulega borði meira en efni standa til. 

 Ástarkveðjur

Harpa 

harpa rut (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 13:49

3 identicon

Hæ báðar tvær! Svia, ég er svo með færslu í bígerð um landbúnað hér syðra, sérstaklega fyrir þig! Þetta er svart með vespurnar, þær koma víst aftur og aftur og gera bú á sama stað og við erum búin að fara aftur og brenna fjölmörg ný smábú. Ég vona að við losnum við þessi kvikindi að lokum.

Harpa, mér varð einmitt hugsað svo sterkt til þín þegar ég var að skrifa þetta um doktorinn, sbr. vespusöguna! Áfram svo með sportpóstinn!!

Kv.

Erla perla (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband