Brunabolti
5.8.2008 | 15:45
Nú segi ég blogghléi lokið. Mútta og Halli komu saman frá Íslandi við mikla lukku fjölskyldunnar. Við höfum verið önnum kafin við að ferðast og fara í skoðunarferðir og þess háttar. Ég set inn myndir frá því við tækifæri. Annars gengur lífið sinn vanagang, drengirnir þrír eru allir að byrja í alþjóðaskólanum á morgun. Um helgina var spiluð heil umferð í deildinni hans Halla og við fórum öll á völlinn. Davíð og Halli fóru rúmlega sjö þegar mæting var, en ég mætti aðeins seinna með allt liðið. Veðrið hefur tekið stakkaskiptum og er orðið fullkomið. Það var mjög gaman að horfa á leikina, þó að fjölskyldumeðlimir hafi verið mislíflegir. Stefán var ekki sáttur við hitann og gólaði svo að undirtók í öllum leikvöngunum. Okkur var ekki orðið um sel, því að fólk var farið að gefa okkur auga, líkt og við værum að pynda barnið. Óskar tók svo við þegar Stebbi tók sér pásu. Það hlýtur að vera góðs viti að börnin geti unnið svona vel saman. Davíð var svo elskulegur að bjóðast til að fara með þá heim, sem ég þáði með feginshug. Hér er herra gólmundur í stuði á vellinum. Hann er með íslandshúfu sem afi Bjarni og Erla gáfu honum frá Íslandi.
Halli spilaði með B liðinu því hann hefur ekki mætt á æfingar í sumar - hér er sko þýskur agi. Þeir lentu í fimmta sæti, og efstir af B liðunum. Svo var Halli líka varamaður með A liðinu og spilaði með þeim í undanúrslitum. Einn leikmaðurinn þar varð hálf slappur í sólinni.
Halli, sem er hér í B-liðs búningnum, var eins og eldhnöttur í framan og fékk vænt lag af sólarvörn. Móðirin gleymdist hins vegar, og ég brann ferlega. Var í þokkabót eins og pandabjörn í framan því að ég var með stór gleraugu allan daginn. Nú er þetta reyndar farið að skána og ég er orðin fallega brún, fyrir utan hálfgert sár á annarri kinninni. Maður passar sig vanalega mjög vel á sólinni, og heldur sig í skugga eða er með hatta og góða vörn. Enginn hafði séð eins fölan dreng og Halla þegar hann kom heim til Íslands frá Afríku.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:48 | Facebook
Athugasemdir
Það er líklega bara gott fyrir íslenska villiketti að læra eitthvað af þýskum heraga. Þeir hafa þó ekki staðist að setja hann í A liðið þó það væri þvert á prinsippin.
Gott að vita að bloggfríi sé að ljúka. Hlakka til að fá að fylgjast með. Þið vitið að ég er aðdáandi nr. eitt.
Luv
Harpíta
Harpa sport (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 16:54
.......og ég nr. tvö.......hehehe hrikalega gaman að skoða bloggið hjá þér........og ég er búin að vera að leggja höfuðið vel í bleyti varðandi það að kíkja í heimsókn til ykkar..........og held ég sé hreinlega komin með frábæra niðurstöðu.........heyri betur í þér varðandi það.........
hlakka til að sjá myndir af ferðum ykkar síðustu daga með mömmu þinni........
Ása Dóra (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.