Cape Cross
12.8.2008 | 13:21
Við keyrðum upp ströndina frá Swakopmund í Skeleton Coast þjóðgarðinum. Hér er algjör eyðimörk og engin byggð ef undan eru skildir örfáir bæir sem reyndar fara ört stækkandi. Hér er gert út á veiði af ströndinni, bæði til matar og sem skemmtun fyrir ferðafólk.
Fátækrahverfin eru gífurlega stór, enda flyst fólk þangað á hverjum degi til að leita tækifæra, þó að erfitt sé að skilja hvernig fólk á að ná að brauðfæða fjölskylduna í þessu berangurslega umhverfi.
Vegurinn frá Swakop til Cape Cross var ljómandi góður og víða hefur athafnafólk safnað steinum sem boðnir voru falir. Varningurinn var sýndur á tunnum við veginn og átti að skilja eftir pening eftir að kaupin höfðu farið fram.
Á Cape Cross er einhvert stærsta selalátur Namibíu og þarna er hægt að komast í návígi við selina til að skoða. Hér eru mikil læti og hræðilegur óþefur.
Hér má sjá drengina þrjá með selina í bakgrunni.
Það eru mikil afföll af selunum, en svart-baks sjakalar og brúnar hýenur gera mikinn usla. Um fjórðungur kópanna drepast á fyrsta árinu. Við sáum allnokkra sjakala en engar hýenur.
Selirnir eru þarna þúsundum saman, og takið einnig eftir hausunum sem eru í öldunum. Selurinn lifir á fiski sem mikið er af því að Benguela straumurinn liggur þarna upp eftir ströndinni. Namibíumenn nýta selinn og veiða hann frá apríl til nóvember þegar ferðafólk er ekki að góna á hann. Hann er býsna vel nýttur, feldurinn fer á markað í Evrópu, kynfærin á Asímarkað, kjötið til Taívan go afganginum er breytt í mjöl sem notað er í dýrafóður. Reyndar sagði einn þjóninn þar sem við gistum að kjötið væri notað í biltong, er þurrkað kjöt í pylsum sem allir hakka í sig hér. Það má kannski líkja því við harðfiskinn fyrir okkur Frónbúa, því krakkarnir koma með biltong í skólann sem nesti.
Staðurinn dregur nafn sitt af krossi sem fyrsti Evrópumaðurinn sem til Namibíu kom, reisti árið 1485 til heiðurs Jóns fyrsta Portúgalskóngi. Þýskur sjóari reif krossinn niður árið 1893 og fór með heim til Þýskalands. Þjóðverjar létu svo reisa eftirmynd strax árið eftir. Árið 1980 var krossinn svo endurnýjaður, sem stendur á sama stað og upprunalegi krossinn sem reistur var á 15. öld.
Hér stendur Halli svo við krossinn góða.
Um kvöldið gistum við í skála við Cape Cross sem var aldeilis frábær. Við vorum eiginlega hætt að telja hvað strákarnir fóru oft og blotnuðu í sjónum. Hér eru þeir að leika sér við sólarlagsbil.
Þegar maður er svona útúr, eins og í eyðimörkinni eða á ströndinni er næturhimininn ægifagur, enda engin ljós til að spilla fyrir útsýninu. Það er eins og maður detti inn í Vetrarbrautina. Við Davíð sátum og góndum til himins um kvöldið. Ég sá hvorki meira né minna en sjö stjörnuhröp og vona að óskirnar mínar rætist allar sem ein.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:15 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg magnaður fjöldi sela... Efast ekki um að óskirnar rætist;o)
Arnheiður Fanney Magnúsdóttir, 12.8.2008 kl. 21:28
Vó hvað þið lifið frábæru lífi þarna. Mér finnst eiginlega að ég ætti að koma til ykkar sem fyrst og upplifa með. Boltaleikur við sólarlag er ógó kúl mynd og svo náttúrulega gangster myndin af Stefáni er geggjuð.
Þið eruð mest svöl.
Harpa (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.