Ólympíuleikar og fleira úr daglega lífinu

Halli fór í skólann í morgun eftir að hafa verið heima í viku í flensu. Loksins þegar hann var orðinn hitalaus og átti að fara aftur, ældi hann vinstri og hægri um nóttina, svo að ekkert varð af því að hann fór þá. Það vill svo skemmtilega til að það eru teppi á gólfunum í svefnherbergjunum, svo að þrif standa enn yfir. Þegar Óskar fékk gubbupesti stuttu eftir að við komum, var það þó enn verra því að þegar það er heitt eru maurarnir svo viðbragðsfljótir að maður á í mesta basli með að ná subbinu upp áður en maurarnir eru komnir í gúmmelaðið. Ég segi bara eins og amma, ojsembarasta.

Ég hef ekki verið heldur fullkomlega hress núna síðustu tvo dagana, svo við mæðginin höfum tekið því rólega saman og m.a. horft þónokkuð á sjónvarpið. Ólympíuleikarnir hafa aðeins sett mark sitt á heimilið, og það er eins og alltaf, að manni finnst allt þetta afreksfólk taka þessu svo létt, amk. lítur það þannig út á skjánum. Ég stóð sjálfa mig að því í gær, eftir að hafa horft á frábæra íþróttakonu frá Ástralíu vinna þríþraut kvenna, að spekúlera í af hverju maður hefði bara ekki farið að æfa þríþraut, þetta væri svo asskoti skemmtileg íþróttagrein. Eftirá að hyggja er það náttúrulega alveg út í hött því að ég er og hef ætíð verið afspyrnuléleg að hjóla og er í þokkabót einnig slök í sundi. Svo kemur róður á skjáinn og maður er með sömu spekúlasjónir þar, þó að maður hafi ekki beint slegið í gegn í þau skipti sem maður fór í róður í den tid.  Það eru ekki þessar hefðbundnu íþróttagreinar sem eru að slá í gegn hér á heimilinu. Við erum helst búin að fylgjast spennt með dýfingum annars vegar og borðtennis hins vegar (og stóru strákarnir náttúrulega með þessu dæmigerða, strandblaki kvenna).  Borðtennisinn hefur kannski átt sérstöku brautargengi að fagna því að við höfum fjárfest í borðtennisborði sem við settum upp úti í garði. Þetta er mjög skemmtilegt sport, en Halla fer mjög ört fram og við hjónin keppum nánast á hverjum degi. Við erum nú kannski ekki alveg búin að ná varnartaktíkinni sem Kóreustúlkurnar á ólympíuleikunum búa yfir, en það er hins vegar gaman að fylgjast með svona góðum spilurum. Nú er Davíð farinn í fjögurra daga vinnuferð út á land og við Halli erum búin að plana æfingabúðir allan tímann því svo á að taka Dabba í bakaríið þegar hann kemur til baka. (Kannski get ég þá farið að láta mig dreyma um brautargengi Halla á ólympíuleikum í staðinn fyrir sjálfa mig... hahaha).

Leja er bara hress, en ákvað í morgun að fara að koma fyrr í vinnuna, sérstaklega til að taka annan strætó, en þessi sem hún hefur verið að taka hefur verið einn og hálfan tíma á leiðinni. Þar að auki keyrði hann á blaðasala í morgun sem að klesstist upp að framrúðinni og allir í sjokki. Enginn vissi hvort að hann var lífs eða liðinn þegar rútan fékk leyfi hjá lögreglunni til að halda rúntinum áfram.

Annars er allt við það sama, Stefán er með þreifingar í gangi varðandi það að sleppa því að ganga með bleyju. Það verða mikil tímamót og lýkur þá þriggja og hálfs árs stanslausum bleyjuskiptingum á þessu heimili (nb. Óskar var enn á bleyju þegar Stefán fæddist).  Nú er Stefán líka að ná þroska til að taka þátt í leikjum með bróður sínum, okkur foreldrunum til mikillar ánægju. 

Það eru ótrúlega margir sem spyrja hvort að yngri bræðurnir séu tvíburar. Mér finnst það skrýtið því að stærðarmunurinn er þónokkur og svo er Stefán dekkri yfirlitum með grænu augun sín, og Óskar svo ljós með himinblá augu. Maður á sjálfur erfitt með að greina á milli þeldökks fólks, þó að það komi nú smám saman. Ég sá það fyrir mér í byrjun að það yrði algjör hörmung ef ég ætti að benda á þeldökkkan sakborning í uppröðun eftir að hafa orðið vitni að smáglæp. Ég gæti eins átt að lýsa bílategund (ekki lit, ég yrði afbragðsgóð í því), eða þekkja hross. Ég man líka eftir þessu í Asíu, mér fannst allir líta eins út. Dabbi bara hló að mér og gat, eftir að hafa búið í ár í Tælandi, með léttum leik greint hvaðan fólk var. Ég yrði reyndar örugglega áræðanlegra vitni nú en fyrst þegar ég kom til Afríku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erla þú ert nú soddan jaxl, hefðir meikað það á ÓL ef þér hefði gefist færi :) Náðuð þið að horfa á handboltaleikinn í gær?

Linda (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 12:58

2 identicon

Jæja, segðu..

Við náðum ekki leiknum í sjónvarpi, en föttuðum að hann var í gangi þegar hann var hálfnaður, enda var ég að keyra strákana heim úr skólanum. Fylgdumst dauðspennt með á mbl.is, ég og Halli, en netsambandið er svo lélegt að við gátum ekki hlustað á útvarpið. Dabbi var svo að keyra heim úr vinnuferð í einhverja 10 tíma og ég essemmessaði honum af og til. Við erum hins vegar í startholunum fyrir fyrramálið því að úrslitaleikurinn er sýndur í tellanum og við erum náttúrulega að brjálast úr spenningi.. Núna bíður mín borðtenniseinvígi úti í garði við Dabba.... Sendi kveðjur til Bretaveldis.

Erla perla (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 15:01

3 identicon

Ha ha við tókum nú nokkur borðtenniseinvígin Erla mín. Fannst eiginlega skemmtilegra þegar við spiluðum saman tvíliða og rústuðum drengjunum hérna í Varmahlíð í denn. Páll klikkaði bara á því að senda okkur í keppni einhvers staðar. Dabbi á ekkert í þig Náðum ekki heldur að horfa á leikinn vegna einhverra tæknilegra örðugleika hjá RÚV að senda hann út í útvarpinu. Frekar svekkt hérna í útlandinu það augnablikið . Náðum hins vegar að horfa á tapið rétt áðan. Var frekar sátt þegar franska markverðinum var vísað af velli.

Linda (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 09:43

4 identicon

Já, það var gaman í borðtennis í den en alveg jafn gaman núna. Maður er aðeins hægari en þá, en þetta fer allt að koma. Æfingin skapar meistarann og allt það - þetta er bara svo skemmtilegt sport. Þú verður að koma hérna út til að taka einn snúning á móti mér og strákunum.

Silfrið í handboltanum var bara ljúft, maður er bara sáttur, enda sá franski markvörðurinn alveg um þetta fyrir Frakkana. Íslendingar áttu t.d. fleiri skot að marki og allt eftir því. Þetta var bara glæsilegt og gaman að fá að spila um gullið en mér fannst nú Frakkarnir bara vel að því komnir.

Erla perla (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 15:56

5 identicon

Algjörlega sátt við silfrið

Linda (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband