Tennur á ferð og flugi

 

tennurHér eru Himbarnir sem við fórum að heimsækja um daginn. Karlinn hefur engar tennur í neðri gómi að framan. Himbarnir trúa því að þegar þeir sofi, þá fari tennurnar á flakk á næturnar og borði alls konar drasl. Því verði þær ógeðslegar og langbest að taka þær bara úr. Þær eru því slegnar úr stálpuðum strákum með hvössum steinum. Þessi skýring á því af hverju tennurnar eru fjarlægðar er að finna í menningu og hjátrú Himbanna. Nytjahyggjuskýringar eru á annan veg. Annars vegar þær að Himbarnir standa ekki mjög framarlega í tannhirðu og því séu tennurnar fjarlægðar. Skynsamlegasta skýringin er hins vegar sú að þessi hefð eigi rætur sínar að rekja til þrælatímans, og að karlar hafi síður verið líklegir til að vera hnepptir í þrældóm þegar það vantaði tennur. Þeir voru skoðaðir eins og nautgripir, með tilliti til hversu vel þeir myndu nýtast til vinnu.

Það er efalaust ekki ánægjulegt að láta slá úr sér tennurnar með steini. Einn minn besti lærdómur í viðskiptum var þegar ég seldi afa mínum augntönn fyrir pepsíflösku. Gosdrykkir voru mikið dýrindi í sveitinni, svo að það var auðvelt að múta mér með pepsí. Skrambans augntönnin ætlaði ekki að fara og var farin að vera fyrir fullorðinstönnunum sem á eftir komu. Mamma var farin að hafa áhyggjur og afi sagðist nú að hann myndi líklegast kippa tannskrattaum út. Og fyrir það átti ég að fá borgað umrætt pepsí.  Svo var farið út á hlað, afi með töng og ég gapandi undir hendinni á honum. Um leið og hann er búinn að koma tönginni fyrir á tönninni finn ég að hún er bara alveg blýföst. Og ég fór að góla að ég væri hætt við. Þarna er lærdómur númer eitt. Það er stundum erfitt að bakka út úr samningum. Og stundum alveg ómögulegt. Svo tók hann til að rykkja tönninni út, sem var eins og áður segir alveg blýföst. Ég hélt að hann myndi brjóta beinið, en tönnin kom út að lokum, og ég á hana enn. Rótin er þrisvar sinnum lengri en tönnin sjálf, því að hún kom út með rót og öllu. Eftir þessi átök lærðist önnur mikilvæg lexía, og það er að maður verður að semja um sanngjarnt verð, því að jafnvel þegar tönnin var farin fannst mér ég hafa samið allhrapalega af mér að fá bara eina pepsíflösku fyrir tönnina og þennan sársauka. En ég er amk með beinar og fallegar tennur í dag. Himbastrákarnir líta trúlega á það sem manndómsmerki þegar það er kominn tími til að láta slá úr sér tennurnar en eru efalaust jafnframt fegnir þegar athöfnin er yfir staðin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

athyglisverð trú hjá Himbum og þeir fá ekki einu sinni pepsi fyrir áfangann þó karlmennskan sé sönnuð með tannleysi.  Sagan um augntönnina er hrikaleg, sé þig fyrir mér og ég ætla rétt að vona að pepsíið hafi verið sérstaklega gott.

Brynja (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 19:31

2 identicon

íííjúúúúú

Systa (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 20:30

3 identicon

Frábær saga þó svo einhvernveginn fái hún mann til að brosa með samanherptar varirnar, les þig alltaf reglulega þó svo ég kvitti sjaldan, gaman að fá að fylgjast með þér og strákahópnum þínum

kossar

Rósa Rut

Rósa Rut (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 21:23

4 identicon

Gaman að heyra frá ykkur dömur. Ég get sagt ykkur dömur að pepsíið bragðaðist ekki einu sinni rosalega vel, og að ég hef harðneitað að láta draga úr mér endajaxlana, svo fremi sem þeir skemmist ekki. Hmmm ... skrýtið?

Erla perla (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 13:28

5 identicon

Dásmleg saga um afa sem gefst ekki upp :)

Og en og aftur - bráðskemmtileg síða!  Bestu kveðjur.

Siva (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband