Á flakki meðal flóðhesta
7.9.2008 | 12:19
Er ekki alltaf málið að finna einhverja svona fyrirsögn sem með góðum hljómi og hrynjanda? Er kannski dálítið eins og séð og heyrt, eða hvað..En hvað um það, í ferðinni okkar um daginn fórum við til Mount Etjo safari lodge, sem var mjög skemmtilegur.
Umhverfið er yndislegt, en þarna er fjöldi dýra, og státa þeir meðal annars af flóðhestum, sem annars er bara að finna í Caprivi. Hér eru pelíkanar í síðdegissólinni. Við komum síðdegis og fengum okkur köku og kaffi.
Strákarnir fengu far með kerrunni sem flytur farangur gesta.
Eftir kaffið ákvað mútta að fara í smá göngutúr að kanna nánasta umhverfi og við fórum að láta renna í heita pottinn.
Þarna er mjög fallegt, eins og sést af þessari mynd sem mamma tók í labbitúrnum.
Svo sá hún líka svona krúttlegt skilti sem hún tók mynd af. Ef betur er að gáð, þá sést að þarna er verið að vara fólk við flóðhestum, en flóðhestar eru stórhættulegir og eru mannskæðustu dýr Afríku,
Það kom nefninlega í ljós að mamma hafði gengið framhjá þessu skilti á hliðinu, sem hafði verið opið þegar hún fór í síðdegisflakkið sitt. Þarna má lesa: HÆTTA, ekki má ganga handan girðingar - eða eitthvað í þá áttina.
Það hlupu allir upp til handa og fóta þegar sást til mannveru gangandi við vatnið. Björgunarleiðangur var gerður út og henni var í snatri bjargað úr þessum ógöngum. Okkur fannst þetta náttúrulega bráðfyndið, en hóteleigendum var ekki eins mikill hlátur í hug. Dabbi var svo sérstaklega beðinn um að sjá til þess að hún færi ekki á flakk aftur.
Móðir mín slapp sem betur fer óhult úr þessari lífshættu, og við gátum heyrt flóðhestana rymja og svamla í myrkrinu síðar um kvöldið.
Hér er svo mynd af strákunum að aðstoða trommuslagarann sem kallaði á gesti í mat.
Við yljuðum okkur við opinn eld fyrir matinn, og hér er aðeins farið að hitna í kolunum hjá Óskari sem tekur fyrir andlitið.
Annars er dagurinn í dag búinn að vera rólegur. Við erum búin að vera úti í garði að sulla og spila borðtennis. Ég brölti eitthvað inn í garðgeymslu og fann þar trampólín, sundurtekið. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, og dró dúkinn út til að skoða hvort þetta væri hugsanlega í lagi. Það voru kóngulær út um allt, sumar eins stórar og hnefinn á Halla. Dúkurinn reyndist svo vera rifinn á festingunum svo að það verður ekkert úr hoppi hjá okkur á næstunni.
Strákarnir vöknuðu óvenju seint í morgun, eða eftir klukkan 6. Skýringuna á því er að finna í tímanum því að í nótt færðum klukkuna fram um eina klukkustund. Nú er því aftur tveggja stunda munur á Namibíu og Íslandi.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:54 | Facebook
Athugasemdir
Alltaf gaman að heyra frá ykkur. Gott að amman endaði ekki ferðina í gini flóðhests. Hún hefði reyndar orðið svolítið fræg á Íslandi allavega. Það hefur kannski heillað hana!
Harpa Rut (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 14:10
Já, það hefði orðið alveg rosalegt. Hún hefði amk komist í Séð og heyrt, held reyndar ekki að það heilli mikið..
Erla perla (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 16:01
amma Fífí og Frissi flóðhestur á flakki, gæti verið góður titill, annars svo gaman að fá innsýn í tilveru ykkar. knús bryssan
Brynja (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 20:18
Gott að mamma þín komst heil á húfi frá þessu ævintýri. Gaman að kíkja á hvað er að gerast hjá ykkur í Afríku. Góðar kveðjur frá Ísalandi.
Lóla (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.