Íþróttir og annað

Morguninn er búinn að vera annasamur. Halli fór fyrst að spila fótboltaleik með liðinu sínu og svo fórum við á íþróttadag hjá Alþjóðaskólanum, sem strákarnir þrír ganga í. Þar var keppt í ýmsum greinum, en skólanum er skipt í þrjú lið, ljón, hlébarða og blettatígra. Þessi lið kepptu sín á milli, og einnig var keppt á milli bekkja. Halli keppti í hindrunarhlaupi, fótbolta og lekandi rörapípuburði. Ekki einu sinni spá í hvað það er. Dabbi lagði hlébörðum lið í reiptogi, tapaði einu og vann eitt. Þetta er mikil stemning, ég stefni á 60 metra hlaup á næsta ári, verð að byrja að þjálfa markvisst ekki seinna en strax. Annars ræður íþróttaandinn ríkjum og heldur minni keppnisandi en heima. Smá slagsmál í fótboltanum, en það var nú bara á milli keppenda í sama liði, svo það var ekki svo alvarlegt.

Minnstu börnin, þ.e. Óskar og Stefán voru með íþróttadag í gær og kepptu af mikilli leikgleði. Sonur hans Frankie Frederics sem er helsta íþróttahetja þeirra namibíumanna er í sama bekk og þeir. Hann var heimsmeistari í 200 metra hlaupi árið 1993 og var upp á sitt besta þegar Michael Johnson var að hlaupa sem mest og var þá annar hraðasti maður veraldar. Náði 4 ólympíumeistaratitlum og á því væntanlega margar medalíur. Frúin hans kom í skólann að sýna krökkunum medalíur og við Halli vorum græn og gul af öfund að fá ekki að sjá medalíurnar. Óskar var nú ekki hjálplegur við að segja okkur fréttir af þessum atburði. Svo erum við þrjú búin að vera að spila scrabble núna um eftirmiðdaginn, en það þjálfar Halla mikið í íslenskum orðaforða. Annars er það að frétta að Stefán er að standa sig mjög vel í koppamálunum og mun væntanlega henda bleyjunni á næstu vikum. Leja var einmitt að dáðst að honum og sagði mér af vinkonu sinni sem á þriggja ára strák sem bleytir alltaf buxurnar. "Svo ber hún hann svo mikið þegar hann pissar á sig. Og ég var að segja henni að hún ætti kannski ekki að berja hann alveg svona mikið, að hann myndi kannski frekar koma til ef þú myndir berja hann aðeins minna?" - Við vorum alveg sammála um þetta, við Leja.

Leja 1

Kunnugir vita nú að Leja er einn helsti máttarstólpi heimilisins. Hér er mynd af henni, þar sem hún var á milli hárgreiðslna og því með höfuðklút. Hún er í gamalli íþróttapeysu af mér, en hún fær allt sem til fellur á heimilinu, gömul föt og mat í massavís. Ég segi ykkur nú söguna af Leju seinna.

Við keyrðum hana heim í gær, með tvo plaststóla fyrir heimilið í skottinu. Hún býr í sæmilegu hverfi (miðað við allra fátækustu hverfin) í kofa sem er opinn út í báðar áttir, með strákunum sínum tveimur. Hún hefur hafið framkvæmdir við að loka honum, en gerir það smátt og smátt eftir því sem hún hefur ráð á, með aðstoð frá okkur. Hún er mjög klár og sér um fjölmarga hluti á heimilinu.

Veðrið er orðið fullkomið, ég gat reyndar ekki sofnað fyrir hita um daginn og hélt að ég væri farin að þjást af taugaveiklun því ég rauk upp í svitakófi um það bil sem ég var að festa svefn og varð að fara fram til að kæla mig. Kom svo ekki í ljós að Stebbi hafði verið að fikta við ofninn, sem er enn uppi eftir veturinn og hafði sett hann á fullt og af þeim sökum var kæfandi hiti í svefnherberginu. Dabbi svaf eins og ungabarn.  

Nú mallar osso bucco í hvítvíni á vélinni og Halli horfir á fótboltann í kassanum. Leiktímabilið er hafið en við höfum ekki keypt áskrift af fótboltarásunum og því tapaði ManU í dag fyrir Liverpool, af því að Halli gat ekki veitt þeim fjarstuðning í gegnum kassann. Heimur íþróttanna er flókinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að fylgjast með lífinu í Afríku. Les reglulega bloggið þitt en er hins vegar ekki dugleg að kvitta. Verð að taka mig á.
Hafið það gott. Bestu kveðjur Lóla

Lóla (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 11:24

2 identicon

kúl að sjá alvöru medalíur, man nú bara eftir því þegar pabbi sýndi mér aðgöngumiða á leik juventus og einhvers annars liðs, mér fannst það stórmerkilegt.  Vona að það sé slökkt á ofninum og þið blómgist vel í sumrinu, knús

Brynja (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 05:55

3 identicon

Halló Erla!

Var í borginn um daginn og datt í hug að heimsækja þig og komst þá að því hvar í heiminum þú og fjölskyldan eruð núna. Gaman að geta fylgst með hvað þið eruð að bardúsa og á eftir að halda því áfram.

Kveðja, Helga Berglind

Helga Berglind (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 13:16

4 identicon

Góða helgi Erla perla og kó og takk fyrir kommentin þín, hlakka til að sjá næstu færslu hjá þér.

ps:Nei sko er þetta þú Helga Berglind á Dalvík? Endilega ef þú ert með blogg eða facebook sendu það á mig

Brynja (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 16:22

5 Smámynd: Erla Hlín Hjálmarsdóttir

Hæ, Helga Berglind. Gaman að heyra frá þér! Synd að ég var ekki við til að baka handa ykkur vöfflur, þið verðið bara að skella ykkur til Afríku í staðinn. Sendu mér póstfangið þitt svo ég geti sent þér línu!

-Jú, og auðvitað er gaman að heyra frá ykkur líka, Lóla og Brynja, og það yljar að fá línur á bloggið!

Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 27.9.2008 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband