Að drepa eða steindrepa..
4.10.2008 | 18:22
Gestirnir eru horfnir heim á Frón og voru nokkuð brattir. Voru búnir að sjá, fyrir utan fjölskylduna, kvikindi af öllum stærðum og gerðum. Bæði spendýr, mannfólk og lindýr. Jóndi fann sporðdreka á koddanum sínum eitt kvöldið og hélt að hann væri útsaumaður í koddann. Ekki var það nú. Eftir það voru sængurföt skoðuð vandlega. Ég kom svo inn í herbergið þegar Rósa var nýbúin að eitra fyrir kónguló sem hafði sloppið undir rúm. Það ilmar vel, skordýraeitrið. Svo vel að ég hélt að hún væri búin að fá sér nýtt ilmvatn. Á úðabrúsanum stendur "kills insects dead". Ég spekúlera stundum í hvernig er hægt að drepa án þess að viðfangið verði dautt á eftir. Á þvottaefni með sótthreinsiefni stendur einnig "kills all germs dead"...
Heimsóknin var vel tímasett því að ég fékk félagsskap þegar Davíð var í tveimur vinnuferðum úti á landi. Í gær fórum við Halli svo á bílnum mínum niður á strönd því að Halli tók þátt í fótboltamóti í dag. Því miður gleymdist myndavélin heima, en Halli segir vonandi frá þessu á blogginu sínu. Það var kalt niður á strönd, en samt tókst mér að brenna í framan, venju samkvæmt. Davíð kom svo úr vinnuferðinni síðdegis á föstudaginn og við Halli snerum aftur seinni partinn í dag, laugardag. Þetta er 3 og hálfur tími í keyrslu svo að maður verður lúinn. Svo erum við öll að fara til norð-austur Namibíu á morgun og það verða 7 tímar í bílnum með alla hersinguna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Við ætlum að fara í þjóðgarð og skoða okkur um í Okavango, segi svo meira frá því seinna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:25 | Facebook
Athugasemdir
gangi ykkur vel í langa bíltúrnum, vona að Okavango sé spennandi staður....hmmm líklega ekki við öðru að búast. Innipúkadagur hér, mígandi rigning og rok
Brynja (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 09:13
Heppin þú að þurfa ekki að treysta á íslenskar krónur um þessar mundir. Við sitjum hins vegar í súpunni hérna í Bretaveldi að reyna að lifa á íslenskum krónum.
Linda (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 22:01
Já, það er ekki auðvelt að fást við íslensku krónuna um þessar mundir. Og efalaust ekki auðvelt heldur að vera Íslendingur í Bretaveldi, það er gott að þið eruð efalaust umkringd menntafólki en ekki sveitarstjórnarfólki sem hefur verið að tapa peningum, eins og þeir segja á BBC "til Íslands". Það er engu líkara en að landið sé stútfullt af enskum pundum sem ríkisstjórnin liggi á eins og ormur á gulli og neiti Bretanum aðgang..
Erla perla (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.