Hvar varst þú þegar íslenska ríkið riðaði til falls?
11.10.2008 | 11:05
Í morgunsárið á fimmtudaginn horfðum við hjónin á flóðhestana mara í Kavango ánni þegar bandarískir kunningjar okkar í næsta tjaldi kölluðu á okkur. Þau höfðu með sér ferðaútvarp og náðu BBC fréttum. "Ísland er í fréttum, það er að koma aftur.." - Við drifum okkur til að ná fréttunum. Og viti menn. Fyrstir í fréttum var landinn. Búið að þjóðnýta þriðja bankann og landið rambar á barmi gjaldþrots. Konan horfði vorkunnaraugum á okkur og fræddi Dabba á því að þróunarstarfsmenn væru alltaf fyrstir til að fara. "Annars þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur, með doktorsgráðu og svona". Svo spurðu þau "hvernig í ósköpunum getur heilt land orðið gjaldþrota??" -Það er hægt að ropa einhverju upp úr sér um smæð hagkerfa, aðgang að lánum, skuldbindingar og fjárfestingar .... ehemm... það verður nú annars fátt um svör.
Nú þarf maður sem Íslendingur á erlendri grundu ekki bara að standa fyrir svörum um hvalveiðar og lundaát, heldur einnig fyrir fjármálakreppu á heimsvísu. Þegar við náðum heim var Ísland ennþá fyrst í heimsfréttunum og svo virtist sem kreppan ætti allar sínar rætur á skerinu. Allir virtust vera búnir að gleyma því að það eru bankar að fara á hausinn um allan heim. Reyndar er hlýlegt að fá kjarngóðan, íslenskan hreim á skjáinn, en hlýjan náði nú ekki mikið lengra en það. Á leiðinni heim fórum við að hugsa til íslenskra ferðalanga sem eru að þvælast bara með kortin að vopni og íslenska námsmenn erlendis, en þeir eru í erfiðri stöðu þegar gjaldeyriskreppan er svo alvarleg. Nú væri gott að fá Tom Jones eða Elton John til að hughreysta landann, þeir félagar hafa nú glatt bankageirann áður á góðri stundu.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú nett hillaríus allt saman. Magnað að upplifa umræðuna hætta að snúast um upphækkanir á innanbæjarjeppum og sushí í morgunmat yfir í það að nú er fólk að borga með jeppanum sínum bara ef einhver er til í að yfirtaka lánin og enginn talar um annað en lifrarpylsu, lifur, hjörtu og bjúgu. Það er sérstök sláturtökubiðröð í Hagkaup.
Allavega er bara partý hjá mér í kvöld og hef ég aldrei kynnst öðrum eins partýþorsta en ákkúrat í dag.
Hafið það sem allra best.
LUv
Harpa
Harpita frá Bólivíu (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 14:48
Ég er náttúrulega bara ánægð ef að Íslendingar fara að borða innmat aftur (ekki gleyma nýrunum, maður þurfti að panta þau sérstaklega í Nóatúni á sínum tíma), sama hver ástæðan er - allt til að styrkja þjóðareinkennin! Ég vildi að við værum hjá þér til að kynda undir partýþorstann, en mér sýnist að það sé nú kannski engin þörf á því. Við verðum bara hjá ykkur í anda (Dabbi segir "týpískt að halda partý þegar við erum ekki á landinu!!")
Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 11.10.2008 kl. 15:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.