Aftur í Windhoek
11.10.2008 | 15:38
Eins og athugulir lesendur hafa tekið eftir, þá erum við komin heim til Windhoek. Við ákváðum að keyra alla leiðina heim frá vestur Caprivi í gær, í stað þess að gista á leiðinni og lögðum að baki yfir 900 km. á einum degi. Stemningin í bílnum var bara góð, eins og sjá má.
Það var hins vegar mjög gott að komast í eigið ból og allir fegnir að komast á áfangastað.
Okavango héraðið í vesturhluta Caprivi (eða Kavango, kallað það jöfnum höndum) er sárafátækt en húsin eru flott. Hér eru strákofar af öllum stærðum og margir listilega gerðir (smellið á myndina til að sjá húsin almennilega). Umhverfið minnir fyrst aðeins á söguna um grísina þrjá, en flest húsin eru úr stráum, nokkur úr leir en aðeins örfá úr múrsteinum.
Við fórum í nágrannabæinn Divundu þegar ljóst var að ekki var hægt að nota íslensku kreditkortin, og að símasamband var að auki ótryggt, svo að ekki var tryggt að við gætum notað namibísku debitkortin til að nota innistæðuna okkar þar til að borga gistinguna. Í bænum var ein bensínstöð, stórmarkaður (sem var eins og heildsölumarkaður fyrir búðirnar í sveitunum). Svo voru bara strákofar út um allt.
Vonin var að finna hraðbanka, en svo var nú ekki. Svo komst símasamband á eftir nokkra bið og við gátum borgað fyrir okkur og haldið heim á leið.
Hér er vatnsból, en mikið af vinnunni gengur út á það að bera vatn heim í hús, svo að krakkar og konur eru sífellt að bera vatn. Aldrei sjást karlmenn að bera vatn. Hér eru einmitt krakkar í bakgrunninum að koma að sækja vatn í brunninn.
Færslur úr ferðinni koma á næstu dögum, en hér í Windhoek er orðið ágætlega heitt, um 35 gráður í skugga og við höfum okkur hæg um hádaginn. Spiluðum Hornafjarðarmanna í dag við Halla á meðan strákarnir sváfu á spil frá kvenfélaginu Baugi í Grímsey. Þær verða glaðar að heyra hvað hróður þeirra berst víða.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
ágætlega heitt já 35 gráður, mikill dugnaður er í ykkur að bruna 900 km á einum degi, hefði samt alveg viljað vera með milli sæta og virða fyrir mér ævintýrin á leiðinni. Vona að kortin ykkar séu farin að virka.
kreppuknús
Brynjalilla
Brynja (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 07:49
Ég býst við því að við verðum að fá okkur namibísk kreditkort í stað hinna íslensku - hver hefði getað spáð því?? Maður getur ekkert vitað hvað gengið er þegar maður notar kortin, svo að það er ekki þorandi ennþá.
Nú er kominn yfir 30 stiga hiti í svefnherbergjunum á kvöldin og grey Halli var farinn að halda að hann væri haldinn krónískum vírus, leið alltaf svo illa á kvöldin þegar hann var kominn í bólið. Dabbi gaf honum panódíl, umhyggjusemi og vorkunn fyrsta kvöldið en svo var viftan sett á og vandinn leystur..
Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 13.10.2008 kl. 18:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.