Jólahald var með hefðbundnum hætti í Windhoek
26.12.2008 | 19:58
Jólahald var með hefðbundnum hætti í Windhoek, amk. á okkar heimili. Jólatréð kom vel út þegar allir pakkarnir voru komnir undir hann en gestirnir komu hlaðnir góðum gjöfum frá ættingjunum á Íslandi. Glugginn var skreyttur með hvítu spreyi til að koma smá snjóstemningu inn á heimilið, en það er kannski dálítið erfitt með pálmatré í bakgrunninum.
Aðfangadagur var góður, Halli var að leika með vini sínum og fór í bíó, litlu drengirnir sváfu vært eftir hádegi til að safna kröftum fyrir kvöldið. Við Davíð fórum í eftirmiðdagsdrykk til kunningja okkar (eplacider og namibískur bjór undir stráþaki) á meðan Halli svamlaði um í lauginni þeirra með vini sínum. Ég held að Halli hafi sagt að þetta væri einmitt "perfekt" aðfangadagur!
Hér er öndin komin á matborðið og Erla og Bjarni tilbúin að hefja borðhald.
Við mæðginin að sporðrenna öndinni. Það er alveg frábært að geta borðað svona úti undir beru lofti í yndislegu umhverfi.
Drengirnir og jólatréð hvíta (n.b. að einhver hafði tekið það úr sambandi kvöldið áður þannig að það var í talsverðu stuði).
Eftir borðhald las Bjarni jólaguðspjallið fyrir okkur hin. Eftir lesturinn var hátíðleg þögn sem Stefán rauf með því að segja: Nú, auðvitað!
Stefán fékk vélmenni frá foreldrunum, ég er í bakgrunni með þennan fína safaríhatt að setja saman bílabraut sem Óskar fékk frá langömmu sinni.
Óskar fór í föt sem hann fékk frá ömmu Möggu og stillti einnig upp legói frá afa Bjarna og Erlu. Það voru allir komnir í nýjar múnderingar þegar leið á kvöldið. Það tók marga tíma að taka upp pakkana og við tókum pásu um mitt kvöld til að fara út og fá okkur heimatilbúna ísinn.
Þegar ég sagði Óskari að jólin væru alveg að koma og að hann þyrfti því að koma í fínni fötin, þá hljóp hann út að glugga til að vera viss um að sjá þegar jólin sjálf kæmu til okkar. Svo þegar jólin voru komin, þá var hann hálf skrýtinn og hélt að ég væri að reyna að plata hann því að hann hafði staðið góða vakt við gluggann. Hann varð svo bara sáttur og um kvöldið sofnaði hann með plastgrís í fanginu sem var sparibaukur sem Rósa systir og fjölskylda höfðu gefið honum. Það er gott að setja sparnað í öndvegi á þessum krepputímum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:15 | Facebook
Athugasemdir
Gleðileg jól elsku Erla og Dabbi. Vona að jólin ykkar í Afríku verði ánægjuleg og mikil lífsreynsla eins og annað sem þið hafið reynt á árinu sem er að líða. Ég er búin með prófin öll nema eitt sem ég tek í byrjun jan. Fékk fínar einkunnir allavega í fyrstu einkunn með allt svo ég er stolt. Var að blogga og setja inn myndir kíktu endilega á þær. Kveðja til allra og knús til stubbanna þín Þórdís
Þórdís Arnardóttir (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 21:09
Þau bæði hljóma og lúkka hreint unaðslega þessi jól hjá ykkur þarna fyrir sunnan miðbaug. Drengirnir fallegir og snyrtilegir og móðirin svo mjó að það er spurning hvor vegur þyngra hún eða frumburðurinn. Juminn eini hvað þú ert aðdáunarverð kona!
Ástarkveðja til ykkar allra með þökk fyrir frábæra sendingu.
Harpa ogfamily
Harpa Rut (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 00:38
Elsku þið báðar - gleðileg jól, gaman að fá línur að heiman. Ræktin er auðsjáanlega að skila sér fyrir bæði Halla og mig sjálfa. Ég sá í fréttum í gær að einhver merkismenni heima á Íslandi hefðu farið í ræktina í gær. Æsifréttapressan á Íslandi hefur auðsjáanlega ekki náð því að við Dabbi fórum bæði í ræktina í gær og er ég bæði undrandi og smá svekkt yfir að þeir hafi misst af þessum atburði. Fréttamennska á Íslandi fer auðsjáanlega dalandi...
Erla perla (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 07:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.