Óboðnir gestir
19.1.2009 | 19:05
Við erum búin að læra heilmikið um öryggismál á undanförnum dögum enda var brotist inn í húsið okkar á laugardagsnóttina á meðan við sváfum blítt og rótt. Tölvurnar okkar voru báðar teknar og myndavélin líka, svo að ég mun þá væntanlega ekki deila með ykkur myndum úr síðasta ferðalagi. Nú er kannski einhver í Katutura læra að lesa með því að hlusta á stafakarlana (sem voru í annarri tölvunni). Reyndar eru tölvurnar trúlega orðnar tómar og á leiðinni upp til Angóla í endursölu.
Við uppgötvuðum stuldinn á sunnudagsmorguninn þegar við vorum að gera okkur klár í ræktina. Rimlar fyrir gestaherberginu/skrifstofunni höfðu verið sagaðir í sundur og farið inn um glugga. Öryggisfyrirtækið sendi fulltrúa og svo kom lögreglan og gerði þessa fínu skýrslu.
í lögregluskýrslunni stóð orðrétt... and certainly I did not give anyone permission to break into my home and take my belongings... Dabbi var náttúrulega hjartanlega sammála þessu snilldarlega orðuðu skýrslu og skrifaði undir án nokkurs fyrirvara.
Þjófarnir tóku líka lyklasett og aðgang að öryggiskerfinu svo að í gærkveldi sat öryggisvörður hér úti í bílskúr sem maulaði þennan meinholla kvöldmat sem hann fékk frá okkur, ofnbakaðan fisk, hýðishrísgrjón og salat. Trúlega ekki oft sem þeir fá svona hollustu í kvöldmat. Þessi vaktaði húsið okkar fyrir glæponum með lyklavöld.
Svo skiptum við um alla lása í dag og síðan kom öryggissérfræðingur til að gera tillögur til að gera húsið öruggara. Sá bar skambyssu í belti og fræddi okkur á því að hann hefði tvisvar lent í skotbardaga, en að hann hefði haft allt of lítið af skotfærum. Nú væri hann farinn að vera með tvö magasín og svo box með 50 skotum til vara. Það er gott að hafa varann á, ekki satt? Svo væri þetta aukna ofbeldi eiginlega allt Suður Afríku að kenna því að glæponar horfðu á fréttaþætti þar sem fjallað væri um nýjar brellur sem notaðar eru í glæpabransanum í Suður Afríku (og víst er að af nógu er að taka þar), og þetta smitaðist allt saman hingað. Og jafnvel frá Botswana. (Þetta er reyndar ágætis tilbreyting, því flestir kenna Simbabwe um allt sem aflaga fer. Auknir glæpir - glæponar sem koma frá Simbabwe. Atvinnuleysi - svo margt fólk sem kemur frá Simbabwe. Sjúkdómar .. o.sfrv.)
Annars erum við orðin vön eftir að það var brotist inn í húsið okkar heima á Íslandi, svo við tökum þessu nokkuð létt. Reyndar verður að segjast að namibísku þjófarnir voru mun háttvísari að því leyti að þeir voru ekki að rústa neinu, heldur tóku bara nokkra vel valda hluti og hurfu svo á brott án þess að hrófla við neinu öðru.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:10 | Facebook
Athugasemdir
úff hvað þetta hlýtur að vera óþægilegt, gott að þið samt fenguð að sofa áfram ljúfum svefni. Ég vona að bófarnir náist og að þið séuð nú með öruggara kerfi sem vaggar ykkur ljúft inn í öruggan svefn.
Brynja (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 22:32
Þetta er rosalegt að heyra, ágætt að þið hafið verið í æfingu frá borg óttans - Reykjavíkinni. En er ekki málið að fá sér hund?
Disa (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 19:55
Enn óhugnalegt að einhverjir hafi verið að hnýsast um á meðan þið og strákarnir sváfu.
Vona að þetta eigi ekki eftir að eiga nein eftirköst. Hugsa til ykkar
Rósa Rut (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 22:43
En ótrúlega glatað maður. Þetta er náttúrulega alveg ömurlegt og ekki síst ef þið sváfuð bara meðan menn völdu það verðmætasta úr eigum ykkar.Það hefði sennilega ekki verið betra að vakna við þetta.
Frábært saga þegar Namibískur túlkur verður farinn að túlka fyrir Íslendinga eftir að hafa lært íslensku af stafakörlunum. Góður sölupunktur fyrir Bergljótu Arnalds.
harpa (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 22:31
Það er hið besta mál að hafa sofið, einmitt alveg kjörið. Og ég held að stafakarlarnir geti boðið upp á marga möguleika í starfi og leik fyrir steluþjófa. Hundar eru vanalega málið, en við erum nú ekki ofhrifin af þeim, enda þarf að ganga með þá og þjálfa ef þeir eiga að verða að fullu gagni sem þjófavörn. Setjum málið í nefnd.
Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 22.1.2009 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.