Íþróttaafrek
7.2.2009 | 19:48
Við erum orðin nettengd á ný, þó að ný tölva sé reyndar ekki komin í hús ennþá.
Við höfum verið virk í dag, vorum með hádegisverðarboð fyrir bandaríska vini okkar og svo fór ég í barnaafmæli með litlu guttana síðdegis á meðan Halli og Dabbi skelltu sér í ræktina. Aragrúi barna mætti í boðið, og örugglega mikill hluti spænska samfélagsins í borginni. Allt fór friðsamlega fram, þó að Stefáni hafi reyndar tekist að prófa rafmagnsgirðinguna, en til að gera það þurfti hann að troða sér bakvið runna þar sem hann fann spennandi víra. Hann virðist hafa sloppið óskemmdur á líkama, en hann var hvekktur, enda geta þessar rafmagnsgirðingar verið ansi varhugaverðar. Þeir voru alsælir eftir boðið enda var búin að vera mikil tilhlökkun, búið að föndra kort og skreyta pakka í marga daga.
Á fimmtudaginn fór svo fram frjálsíþróttakeppni á fyrrum þjóðarleikvangi þeirra Namibíumanna, milli fimm skóla borgarinnar. Lítill hópur keppenda úr alþjóðaskólanum mætti til leiks. Hver mátti að hámarki keppa í þremur greinum, og Halli tók þátt í 100 m. hlaupi, hástökki og 4x100 m. boðhlaupi.
Okkar fólk hafði nú ekki mikla þjálfun, en það var gaman að hlusta á áhyggjur keppenda fyrir keppnina, því sumir höfðu einu sinni prófað sína keppnisgrein og aldrei við keppnisaðstæður. Allir höfðu þó gaman af.
Þetta er glæsilegur hópur keppenda.
Haraldur var frekar taugaóstyrkur í 100 metrunum, sem var fyrsta keppnisgreinin hans, hér er hann á fullum spretti og endaði í 4. sæti. Það gekk hins vegar vel í hástökkinu þar sem hann náði öðru sæti.
Það var mikil stemning á leikvanginum og mikil spenna fyrir boðhlaupin sem voru síðustu keppnisgreinarnar. Okkar sveit hljóp glæsilega en eftir þrjá spretti drengja undir 10 ára voru þrjár hlaupasveitir hnífjafnar, en Halli tók lokasprettinn fyrir alþjóðaskólann. Allt ætlaði um koll að keyra á leikvanginum þegar hann rauk áfram og tryggði sveitinni glæstan sigur. Hér er hann á fullum spretti að nálgast endamarkið. Síðustu þrír hlaupararnir komu reyndar ekki inn á myndina, ég setti bara myndavélina upp í loft og smellti af því það voru svo mikil læti (smella á myndina til að fá hana stærri).
Þetta var eini sigur alþjóðaskólans í keppninni og er Halli því orðinn íþróttahetja skólans. Næst eru milliriðlar þar sem keppendur í fyrsta og öðru sæti etja kappi við sigurvegara annarra skóla og eftir það er landskeppni, svo að það eru spennandi tímar framundan í íþróttamálum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju Halli og til hamingju öll. Ótrúlega flott hjá fulltrúa Íslands í Nam. Hlakka til að heyra framhaldið af þessari sögu. Halli er íþróttamaður í húð og hár og vantar ekki keppnisskapið til að fullkomna leikinn. Við erum stolt af okkar manni.
Harpsí og Adamski
Harp Rut Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 02:15
Glæsilegt, til lukku
Rósa Rut (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 14:13
Takk, takk,við vorum öll mjög hamingjusöm með þennan árangur. Framhaldinu verður komið á framfæri þegar sá tími kemur.
Erla perla (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.