Guavauppskeran komin í hús
26.3.2009 | 12:26
Nú er guavatréð í garðinum okkar komið með tugi eða jafnvel hundruði aldina sem allir eru sólgnir í. Ávaxtaflugur, ávaxtabjöllur og fuglar gæða sér á uppskerunni, en Leja er þó afkastamest. Strákarnir eru í fríi í skólanum og því hjálpuðu Stefán og Óskar mér við að tína aldin og koma þeim í poka sem Leja tekur svo með sér heim. Hún fór með tvo fulla höldupoka heim í gær og nú eru þrír í viðbót tilbúnir handa henni. Hér er Stefán við tréð góða.
Guava er ávöxtur sem kemur upprunalega frá Suður Ameríku, en er mikið ræktaður í Suðurhluta Afríku, enda á loftslagið auðsjáanlega vel við hann. Hann er ávaxta auðugastur af C vítamíni og orkuríkur og því ekki nema von að fólkið í fátækrahverfinu kunni vel að meta hann. Herjum bandamanna var gefinn guavasafi að drekka og innrásarherinn frá Íslandi í Namibíu (lesist við fjölskyldan) drakk óhemju magn af guavadjúsi hér í byrjun dvalar en litlu strákarnir eru ennþá mjög hrifnir af því.
Hér má svo sjá hluta uppskerunnar.
Við dunduðum okkur við þetta í morgun, blésum sápukúlur og lékum okkur í sandinum í garðinum. Halli lærði smá í íslensku kennslubókunum sínum sem hann hafði tekið með sér að heiman, en við höfum nú ekki verið dugleg að nota þær undanfarið. Svo fór ég með hann í klippingu, en hann var kominn með laglegan hvítan lubba á hausinn sem fékk að fjúka í morgun. Ég reikna með því að hann birti mynd af nýju klippingunni á heimasíðunni sinni sem áhugasamir geta skoðað.
Nú hefur heimferð til Íslands verið ákveðin 19 júní, og ekki seinna vænna því að Óskar tilkynnti mér það þar sem hann sat í sófanum í gærmorgun að hann vildi fara í Stuðlasel til afa og í heita pottinn. Enda held ég að hann hafi ruglast smá þegar við keyrðum Hrein út á flugvöll í fyrradag, hann ljómaði allur og hélt að hann væri loksins að fara í flugvélina heim til Íslands. Það verður nú að bíða smá, enda er hann farinn að skipuleggja 4 ára afmælið sitt sem er í sjónmáli, svo nóg er að gera.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:49 | Facebook
Athugasemdir
uhm mig langar i guava og mangó svona fyrst ég var að tala um þetta, en læt mér nægja kjötbollur og týtuberjasultu, það eru ólíkar þjóðargersemarnar Erla sem við upplifun
Brynja (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.