Alþjóðadagurinn og afslappelsi
3.5.2009 | 15:25
Alþjóðaskólinn hélt upp á alþjóðadaginn síðasta laugardag, en þar er menningarlegum fjölbreytileika innan skólans hampað. Hver bekkur velur sér land og skreytir stofuna, og býður upp á veitingar frá því landi, fræðslu og uppákomur. Bekkurinn hans Halla var Marokkó, og þar var hægt að slappa af á púðum og snæða marokkóskan mat. Stelpurnar dönsuðu síðan í hringlandi pilsum. Við sáum nú reyndar ekki mikið af Halla, sem var að hjálpa til í Marokkó, og fór svo með vinum sínum í heimsóknir í ólík lönd og að leika í leiktækjum. Þarna var hægt að finna Kanada, Mexíkó, Indónesíu, Grikkland, Ítalíu (frábærar pizzur), Argentínu (krakkarnir sýndu frábæran tangó) og fjöldamörg önnur lönd. Leikskólinn var Ísrael af öllum löndum veraldarinnar en þar var boðið upp á ljúffengan mat og fullt af skemmtilegum leikjum fyrir þau yngstu. Ég hafði boðið mig fram í andlitsmálningu og hóf daginn með að mála spennta krakka.
Hér er Óskar, skrautlegur eftir móðurina, klifrandi upp í tré.
Og litlu strákarnir í leiktækjum fyrr um morguninn.
Dagurinn heppnaðist mjög vel, og var með öðru sniði en í fyrra, en helgin var rétt eftir að við komum til Namibíu. Þá var helst hægt að setjast niður í bjórtjaldi þar sem foreldrarnir gátu setið og þambað bjór af hjartans lyst. Við þurftum að hafa mikið fyrir að finna djús handa drengjunum. Mjög þýskt. Nú var allt annað snið á hlutunum og miklu meiri fjölskyldustemning og við skemmtum okkur hið besta.
Nú eru langar helgar í löngum bunum, öll fríin virðast falla á þennan árstíma. Við erum bara heima að slappa af þessa helgina, fórum út að borða við vinum okkar og gerðum heiðarlega tilraun til að fara og spila borðtennis úti í bæ í gær, en það eru svo margir út úr bænum þessa dagana, svo því var frestað. Grilluðum í staðinn og héldum borðtennismót heima í garðinum í staðinn. Í morgun erum við búin að fara í ræktina, Halli var með vin sinn í sleepover og nú eru þau þrjú að spila tölvuspil inni í herbergi. Óskar fékk að fara til Rúnars Atla vinars síns í heimsókn, og var afar sæll með það. Dabbi er búinn að vera að baka bláberjamúffur sem eru núna inni í ofni og Stefán er að taka miðdegisblundinn sinn. Á morgun er líka frí svo að afslöppunin heldur bara áfram.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:59 | Facebook
Athugasemdir
Hæ hæ
alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt og lifa sig inn í daglegt líf ykkar þarna í Afríkunni.......
Hvernig er það - færð þú mail ef ég skrifa á eftir þinni athugasemd í mínu bloggi?? Ef ekki - þá var ég að skrifa um að ég er ennþá ekki almennilega komin í rétta gírinn með matarmálin - en þetta hlýtur að fara að koma - því nú er aðeins að róast í skólanum - þó ég eigi þrjú verkefni og þrjú próf eftir ;o)
verðum í bandi darling....
Ása Dóra (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.