Íslendingar þurfa fisk-fixið sitt

Mataræði hjá okkur er mjög svipað og heima á Íslandi, enda eru Þjóðverjarnir hér snillingar í að þjónusta hverja aðra og er fjöldi stórmarkaða með frábæru úrvali matvara. Mest framleitt í Suður Afríku, enda urðu þeir að framleiða allt fyrir heimamarkað þegar þeir voru komnir í viðskiptabann á sínum tíma vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar. Og Namibía nýtur nú góðs af. Og svo eru Þjóðverjar nú Þjóðverjar. Við verslum mikið í Spar versluninni sem er þýskari en allt þýskt. Við áleggsborðið stendur maður gapandi þegar þýsku frúrnar eru að kaupa pylsurnar sínar. Og ekkert smá magn. Ég legg ekki í mikið meira en skinku og salami (lít löngunaraugum á svínahausasultu sem minnir mig svo á sviðasultuna íslensku og ég er sólgin í). Enda borðum við nú ekki mikið af unnum kjötafurðum, og förum frekar í heilsuhornið, sem gefur því íslenska ekkert eftir.

Þar sem borgin er inni í landi gæti maður haldið að erfitt væri að fá fisk, en svo er nú ekki. Við Davíð erum tíðir gestir á fiskveitingahúsi, enda þurfum við Íslendingar okkar fiski-fix.  Þarna gæðum við okkur á smokkfiski, mussels, rækjum og yndislegum fiski sem heitir kingklip. Ekki angelfish, nei, takk. Fiskimið eru fengsæl hér fyrir utan ströndina og er keyrt með ferskan fisk á hverjum degi til borgarinnar. Svo höfum við nokkrum sinnum keypt okkur rándýran, norskan lax, sem var mjög ljúffengur. Reyndar féll svo eitthvað á dýrð kingklip um daginn þegar við sáum neytendaþátt frá Suður Afríku. Þeir eru mjög sleipir í gerð slíkra þátta (eitthvað sem vantar nú alveg á Íslandi, þó af mörgu sé að taka þar..) og kom fram með DNA prófum að til landsins streymdi fiskur frá Asíu sem væri seldur fiskiheildsölum undir röngum merkjum. Heildsalarnir seldu svo veitingahúsum fisk sem ætti að vera Kingklip en væri einhver ljúffeng, asísk tegund sem væri í útrýmingarhættu, yrði ekki kynþroska fyrr en 12 ára og veiddur löngu fyrir þann tíma. Ekki þykir það nú gott í okkar húsum. Nú búum við okkur undir mikla neyslu þegar heim til Íslands er komið - lax og þorskur namminamminamm... Annað á matseðlinum þar verður skyrsúpa, brauðsúpa, svið, harðfiskur og náttúrulega fullt, fullt, fullt af eldsúru slátri. Handa húsfrúnni, náttúrulega.
dabbi 009

Nú er komið haust í Namibíu, og hrollkalt á kvöldin og morgnana. Strákarnir eru því farnir að sofa í náttfötum, en ég slysaðist til að taka nóg af slíku með frá Íslandi. Maður gerði sér ekki grein fyrir hvað verður kalt á veturna, enda eru búðirnar nú komnar með prjónapeysur, mokkajakka og tunglbomsur í löngum bunum.

dabbi 002

Ég læt fylgja eina mynd af Stebba með þessa óhuggulegu grímu. Hann hræddi líftóruna úr pabba sínum með henni, en einhvern veginn renna brúnu augun hans svo vel saman við litina í grímunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband