Evróvision
13.5.2009 | 06:26
Við komum okkur fyrir undir teppi í gærkvöldi og horfðum á fyrsta hluta Evróvision, á einhverri portúgalskri sjónvarpsstöð. Við héldum út fram yfir íslenska keppandann.
Hvers vegna í ósköpunum er rithætti nafnsins breytt? Virkar Jóhanna ekki eins vel í Austur-Evópsku áhorfendurna? Ekki voru nú mörg áhugaverð lög í boði þarna í fyrsta hlutanum, þó að mér finndist nú Ísrael og Svíþjóð reyndar vera fín. Dabbi og Halli voru aftur á móti hrifnir af Tyrklandi, sem mest skýrðist nú af búningavalinu hjá stelpunum, held ég.
Eins og sönnum Íslendingum sæmir fannst okkur náttúrulega íslenska lagið lang lang lang best, og Halla fannst Jóhanna líka vera lang lang lang sætasta stelpan, svo að allt var eins og það átti að vera. Við sáum í morgun að lagið komst áfram, svo að það er útlit fyrir að við leggjumst aftur undir feld á laugardagskvöldið.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Sæl og blessuð, mín kæra.
Langt síðan ég hef sent þér línu, hér eða eftir öðrum leiðum. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er náttúrulega glimrandi tilefni til að gera bragarbót þar á! Varðandi fulltrúa Íslands, þá held ég að Yohanna sé listamannsnafnið sem hún Jóhanna Guðrún blessunin tók upp í kringum 12 ára aldurinn í undirbúningi að alþjóðlegri útrás sinni. Ég tók amböguna nærri mér líka. En svo við slettum nú aðeins meira, þá er hún voðalega "pro" og "performerar" vel þarna. Það er ekki fyrr en hún fer að ræða við blaðamenn að "reynsluleysi" er orð sem manni flýgur í hug. (Svona skrif gera mig víst að fúlli á móti, skilst mér...)
Les annars bloggið reglulega til að sjá hvað þið fjölskyldan aðhafist. Gaman að lesa hugleiðingarnar - en elsku Erla, haltu bara áfram að forðast skrif um íslenska pólitík og þjóðmál! Maður fær ofskammt af því á hverjum degi. Má ég þá frekar biðja um Himbabolta og framandi fiskitegundir.
Bestu kveðjur!
Hanna (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 21:47
Gaman að heyra í þér! Ég var einmitt að rifja upp fyrir Dabba í gær þegar ég hafði att þér út í að vaða Svartána til að komast inn á hestamannamót þegar við vorum á unglingsárunum (af því að þú ert svo leggjalöng) og strandaðir svo í miðri ánni á brókinni. Þá þurfti náttúrulega að koma eldri bóndi úr nágrenninu, ríðandi á flottum gráum, fola. Líður mér aldrei úr minni. Þú hefur sótt svona sterkt að mér í gær.
Já, best að ég sleppi bollaleggingum um kreppuna og haldi mig við léttari mál eins og Evróvision. Maður verður hvort eð er hálf þunglyndur af hinu.
Hlakka svo til að sjá þig í sumar!
Erla perla (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 07:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.