Naktar konur
18.5.2009 | 11:51
Ég fór í bráðskemmtilegt kerlingarboð á laugardaginn. Mjög kreppulegt, og myndi efalaust henta vel á Íslandi. Yfirskriftin var naktar konur, og þátttakendur hreinsuðu föt út úr fataskápnum sem voru brúkleg og fóru með í boðið. Reyndar var nú ekki um auðugan garð að gresja hjá mér því að ég hef gefið Leju allar flíkur sem ég hef ekki haft not fyrir. Dabbi hugsaði sér gott til glóðarinnar og samdi við mig um að ég gæti valið eina flík og svo mætti hann velja einhverja aðra sem hann þoldi ekki o.s.frv. Það endaði (eða kannski byrjaði öllu heldur) með því að hann stóð ráðþrota við fataskápinn og sagði að lokum "hmm... þú átt kannski ekkert svo mikið af fötum, elskan?" Það er örugglega draumur flestra kvenna að fá þetta frá eiginmönnunum, en staðreyndin er sú að ólíkt flestu kvenfólki, þá hef ég ekki mjög gaman af því að versla föt.
En aftur að boðinu. Í einu herbergi voru kjólar og jakkar, því næsta toppar og peysur, og svo var einnig karlmannafatnaður og bækur og myndir. Einhverjar voru að flytja af landi brott svo að sumar komu með rosalegt magn. Þetta varð einskonar allsherjar skiptimarkaður og nú er ég að lesa mjög hvetjandi bók sem ég fékk þar um hvernig á að hækka greindarvísitöluna (enda fékk ég lítilsháttar áhyggjur þegar ég lenti í úrtaki hjá ÍE fyrir minnisprófanir, en steingleymdi í kjölfarið að taka prófið). Ég náði nú að skrapa í höldupoka af fötum, og kom til baka með annað eins og fann líka glæsilegan kjól handa Leju. Afgangurinn fór svo í góðgerðarstarfsemi, en af nógu er að taka í þeim efnum hér. Ég hygg að þessi hugmynd muni ganga mjög vel upp á Íslandi, nema hvað að þar væri drukkið aðeins meira, aðeins flottari föt og aðeins meira fjör. Þetta var svona helst til siðmenntað fyrir minn smekk.
Svo vorum við með grillpartý á föstudag, enda þurfti að vera með gleðiboð til að taka á móti Eyrúnu til borgarinnar og einnig að kveðja Katrínu og móður hennar, sem yfirgáfu Namibíu í gær. Það dæmdist svo á Villa og Gullu að hafa Evróvision partý á laugardaginn, enda eru þau sko með miklu, miklu, miklu flottara sjónvarp en við, eins og hann Halli myndi segja. Þar er skemmst frá því að segja að við töpuðum fjámunum í fjárhættuspili, og Villi vann pottinn þar sem hann veðjaði á að Ísland yrði í öðru sæti. Halli var að tryllast af spenningi og allir hæstánægðir með frammistöðu Íslands. Finnarnir voru mjög svartsýnir fyrir hönd sinnar þjóðar og munaði ekki miklu að þeir giskuðu á rétt sæti fyrir hönd Finnlands, en þeir lentu á botninum. Ég var sú svartsýnasta og spáði íslenska liðinu 12 sæti, en vil reyndar taka fram að frá tölfræðilegu sjónarhorni þótti mér það mjög gáfulegt, því ég hefði unnið pottinn fyrir öll sæti undir því tólfta þar sem sá sem giskaði á sætið næst úrslitunum átti að vinna pottinn. Þetta mistókst því hrapalega hjá mér, en ég verð örugglega búin að finna betri aðferð að ári, því ég verð sko komin með miklu, miklu, miklu hærri gáfnavísitölu þá.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þú ert snillingur Erla. Er eitthvað hægt bæta það?
Harpa Rut (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 15:54
Ég veit það ekki, en held að hreint tilraunasnið til að prófa þetta sé best. Nú fer ég að svífa um í draumaheimi, Einstein gerði þetta víst í einhver 20 ár (og n.b. algjörlega félagslega heftur) áður en hann fór að pródúsera afstæðiskenninguna. Þegar ég verð svona heft sýnir það að ég fer að ná árangri, ekki satt? Svo er bara að halda út í nokkra áratugi...
Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 18.5.2009 kl. 16:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.