Um hitt og þetta

Þýskaland 3Það hefur verið tíðindalítið héðan að sunnan. Ég leyfi ykkur hins vegar að sjá nokkrar myndir frá veru okkar í Þýskalandi þar sem við stoppuðum í þrjá daga á leiðinni til baka til Afríku, enda var flugið með eindæmum óhagstætt. Við tókum bílaleigubíl frá Frankfurt og vorum í Moseldalnum þar sem er yndislegt að vera. Sigldum, skoðuðum kastala, átum þýskar pylsur og snitsel (hvað er nýtt, þetta er svosem líka í miklu magni hér í Namibíu) og fórum í skemmtigarð.

Þýskaland 4Eins og sjá má skemmtu sér allir hið besta.
Þýskaland 2

Þýskaland















 

Það er alltaf töluverð áskorun að ná góðri mynd af drengjunum þremur í einu.

Nú er alþjóðaliðið flest komið til borgarinnar og við búin að vera í boðum og að hitta fólk vinstri og hægri. Fórum í hið besta afmælispartý hjá Rúnari Atla í morgun, svo er síðdegisboð á eftir og annað á morgun. Það er bara hið besta mál. Halli kann vel við sig í nýja bekknum sínum, og litlu drengirnir dafna einnig vel í skólanum. Nú eru allir farnir að hlakka til að fá Möggu Dísu frænku til okkar, sem kemur í septemberlok og ætlar að vera fram yfir áramót.
Við erum einnig búin að vera önnum kafin að skipuleggja ferð til Zimbabwe og Botswana með Magga frænda, Signýju og Árna Frey í byrjun október. Það er að mörgu að huga, en nú er planið að taka á sig lokamynd. Þetta er háferðamannatími, ekki síst í Botswana, og því getur verið erfitt að finna gistingu með litlum fyrirvara. Annars sinni ég náminu, hleyp með hlaupahópnum mínum og lyfti lóðum þess á milli af kappi í ræktinni.

Hlaupahópurinn samanstendur af fimm kjarnakonum, og er mjög alþjóðlega samsettur; ein íslensk, ein portúgölsk, ein amerísk, ein Afrikaans og ein þýsk/namibísk. Sú er gömul, alþjóðleg keppniskona í fimmþraut (ehemm, þónokkuð yngri en ég, sem þýðir væntanlega að ég sé komin af keppnisaldri - skrambinn) og ein er að æfa undir þríþaut. Hinar reyna bara að þrauka eins og gengur. Við verðum að hlaupa í hóp öryggisins vegna, enda líkamsárásir algengar og stundum sleppa varðhundar út úr görðunum, og því er piparsprey alltaf með í för. Svo geta verið snákar í grasinu við vegina, og mér til mikils ama frétti ég að við yrðum einnig að vara okkur á bavíönum, en þeir geta verið mannskæðir enda bæði sterkir og með hrikalegar tennur. Er ekki alveg búin að gera upp við mig hvort ég myndi beita úðanum eða leggja á flótta. Ákveð það bara þegar þar að kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært að fá fréttir af ykkur. Það þarf greinilega mikinn vilja til að hlaupa í Namibíu. Fullt af afsökunum fyrir að gera það ekki allavega.:)

Harpa og family (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 14:01

2 identicon

Gaman að lesa um ykkur hér - bestu kveðjur til þeirra sem ég þekki.  Ef þið stoppið aftur í Þýskalandi á ferðum ykkar, þá eruð þið hjartanlega velkomin í heimsókn - hér er nóg húspláss fyrir gesti :)

Bestu kveðjur,

Árný

Árný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 15:28

3 identicon

úff þetta með bavíanana, en harkan í þér, ef ég þekki þig rétt verður þú ekki lengi að koma þér upp í fimmþrautina, knúsibomm og já mikið var gaman að rekast á þig í ríkinu um daginn

brynja (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 20:25

4 identicon

Já, það er gaman að hlaupa, þrátt fyrir allar afsakanir. Gott hjá þér Harpa að hlaupa 10 km. um daginn! Ég planaði að hlaupa 10,5 í boðhlaupi þann 12 sept. úti í sveit í kringum fjall eitt hér á móti hlaupafélaga mínum, en kemst svo reyndar ekki. Svo að stefnan er tekin á hlaup í október úti við strönd og jafnvel kemst Dabbi líka í það hlaup.

Og Árný, við hugsuðum reyndar til ykkar í Þýskalandi um daginn, það verður bara næst!

En Brynja, það var dálítið táknrænt að hittast þarna í ríkinu um daginn. Þvílík gráglettni örlaganna. Efast nú reyndar um þetta með fimmþrautina, verð þá að taka upp sund og skylmingar og sitthvað fleira, en hver veit?

Knúsibomm til allra

Erlah (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband