Munaðarleysingjar og meira

Nú er orðið skýjað og allir horfa vongóðir til himins eftir regni. Þá myndi kólna aðeins. Þegar ég sótti Möggu í vinnuna í dag lýsti hún honum sem "mesta svitadegi lífs míns", en það varð henni til happs að aðstoðarkennarinn í bekknum hans Óskars hafði forfallast og hún fylgdi þeim í tölvutíma og bókasafnstíma, þar sem var loftkæling til staðar.

Ég var við það að fá hitaslag við hlaupin í morgun, enda var hitinn kominn upp í 27 gráður strax í morgunsárið. Svo snarhitnar yfir daginn, enda eru þessar öfgar dæmigerðar fyrir eyðimerkurloftslagið sem við búum við, svo það ríður mikið á að ná að komast í hlaupin sem fyrst um morguninn. Sú suður-afríska kom og gaf skýrslu frá "móður allra þríþrauta", Mariental þríþrautinni sem hún komst í gegnum um helgina. Hún náði gulli í eldri kvennaflokki (enda eini keppandinn!). Mjög fyndið, en hörmungarnar eltu hana linnulaust. Þau syntu í stíflu þar sem ekki sér handa skil og erfitt að finna réttu leiðina fyrir sundfólkið. Svo taka við snarbrattar brekkur fyrir bæði hjólamennskuna og svo hlaupin. Hún hló nú bara samt að þessu og ætlar sér í hálfan iron man í byrjun desember. Það er þó niðri á strönd svo að það verður ekki eins heitt.

Við Davíð fórum í þessa frábæru fertugsveislu í gær. Myndavélin var náttúrulega batteríislaus, svo að því miður varð ekkert um myndatökur. Farið var upp á fjallstopp í nágrenni Windhoek með trukkum og svo var brunað á vírum milli tinda við mikinn fögnuð. Gífurlegt stuð, svo drykkir við sólseturbil, en útsýnið er ótrúlega flott yfir borgina sem liggur í fjallasalnum sínum í fjarska. Þeir eru með einfalda byggingu þarna uppfrá þar sem drykkir og svo grill er borið fram um kvöldið. Loks mjakast maður niðureftir aftur á trukkunum og dægurlög sungin við raust í kvöldrökkrinu. Þetta hygg ég að sé vænleg leið til að halda upp á slíkan aldursáfanga. Gestahópurinn var skemmtilega samsettur, frá öllum heimshornum.

Garðyrkjumennirnir eru búnir að bera lífrænan áburð á allt í garðinum, svo að lyktin hér inni í stækjunni er ansi megn, og minnir á þegar verið er að skítadreifa og slóðadraga á vorin heima. Stebbi situr nú við púslun og Halli rembist við að búa til ný trúarbrögð fyrir heimavinnuna sína, sem eru svona rétt að smella saman.

Nú er þónokkur vinnutörn hjá mér því margt sem þarf að gera fyrir ferðina okkar í desember, en vettvangsvinnan er að hefjast fyrir ritgerðina mína og kúrsavinna sem þarf að klára. Í fyrramálið er ég svo að fara að pakka in gjöfum í massavís fyrir munaðarleysingja í Namibíu, niðri í skóla og svo erum við líka að gefa gjafir á föstudaginn fyrir annað munaðarleysingjahæli sem leikskólinn er að styrkja. Ég fæ tækifæri til að fara að kaupa föt handa lítilli stelpu, sem er ágætist tibreyting. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að það sé alveg fyrirtak að einbeita sér að nánasta umhverfi fyrst við erum stödd hér á annað borð. Dabbi fer alveg hamförum í kaupum, en aðstæður eru oft hrikalegar á munaðarleysingjahælum þar sem ekki er neitt til neins fyrir börnin. Ég fór með Magga, Signýju, Árna og Möggu í heimsókn á munaðarleysingjahæli uppi í fátækrahverfi, hér eru nokkrar myndir.Mun 3

Magga tekur sig vel út með lítinn gaur í fanginu. Krakkarnir eru oft æst í að láta halda á sér því að þau fá ekki mikla ástúð enda margir að bítast um athygli örfárra umsjónarkvenna.
Mun 2

 

Það er gaman að leika sér í pappakassa.

Mun 1

 

 

Maggi var náttúrulega ólmur að taka myndir af krökkunum, sem hafa gaman af. Það allra besta er þó að sjá sjálfan sig á mynd eftirá. Ég sýni flottar myndir frá honum síðar.

Mun 4

Meme Liina sem rekur þetta hæli er meira að segja komin með heimasíðu, sem er hér: http://www.itif.iway.na, ef einhver vill senda styrk í jólagóðgjörðina til Namibíu þetta árið.

Aðstæður hafa breyst þónokkuð til batnaðar, en kirkja í nágrenninu gaf nýja byggingu svo að krakkarnir eru komnir með betra svefnpláss.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa bloggið þitt Erla. Það er ekki nóg með að munaðarleysingjar í Namibíu njóti góðs af gjafmildi ykkar heldur nýtur hún Dísa litla líka góðs af því hér á norðurhjaranum ;) Við sendum ykkur mynd af Dísu í stólnum þegar að það líður að jólum ;)

Eftir að hafa talað við Dabba á Skyp-inu um helgina erum við mjög spennt fyrir því að koma í heimsókn næsta haust/vetur....jafnvel spurning um að fá RÚV til að styrkja ferðina og rapportera um flutning þróunarsamvinnustofnunar frá Namibíu ;) Bið að heilsa strákunum...

Freyja og Dísa (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 14:40

2 Smámynd: Erla Hlín Hjálmarsdóttir

Takk fyrir, ég vona að stóllinn komi að góðum notum. Við Dabbi erum örugglega jafn spennt að fá ykkur hingað, og um að gera að nota tækifærið til að gera fjölmiðlaefni. Alveg tilvalið. Sendi drengjunum kveðjuna, heyrumst fljótlega!

Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 16.11.2009 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband