Dabbi í dýfu og Erla með orminn
17.11.2009 | 14:41
Nú eru komnar myndir úr afmælisteitinu. Hér er mynd af fjörkálfinum Dabba að bruna niður fjallið. Hann var alveg jafn hress þegar upp var komið, enda höfðu allir gaman af salíbununni.
Ekki er mikið annað fréttnæmt, húsið er enn fullt af skítafýlu úr garðinum, sem Óskar virðist nú taka mest nærri sér. Nú er orðið skýjað á köflum og svo komu nokkrir dropar í gær. Sumsé, mun bærilegri hiti í dag.
Svo eru kosningar í landinu eftir tvær vikur og kominn smá kosningaskjálfti í menn.
Ég náði mér svo í sveppasýkingu í húð í ræktinni, aftan á öxlinni. Hlaupastúlkurnar voru fljótar að greina meinið. Mér varð ekki um sel þegar sú suður-afríska sagði með fullvissu: "ahhh, jiiis, þis is a vööörm". Um stund sá ég fyrir mér líkamann undirtekinn af einhverjum hitabeltisormum. Svo reyndist nú ekki vera, heldur er þetta saklaus sýking sem heitir ring worm. Svo fór ég til læknisins, sem fannst nú ekki mikið til koma, kannski mest að þetta skyldi vera svona fallega hringlaga. Svo fékk ég bara smyrsl og þetta er á undanhaldi núna.
Leja fræddi mig svo á því að þegar einhver fær svona sýkingu, þá segir hjátrúin að von sé á barni í fjölskyldunni. Ég er nú ekki líklegur kandídat sjálf, en nú er bara að bíða og sjá hvar barnið poppar upp.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:25 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir að skrifa og segja frá ykkur, það er svo gaman að fá að fylgjast með og skoða myndirnar. Fyrir vikið verður bara aðeins heitara hérna á norðurhveli jarðar á meðan :) Kær kveðja, Kidda
Kidda (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.